Ugla Stefanía skrifar:
Femínísk barátta eða kvennabarátta hefur tekið miklum stakkaskiptum undanfarna áratugi. Hún hefur færst frá því að einblína eingöngu á borgaraleg réttindi ákveðinna kvenna yfir í mun víðtækari hugmyndafræði sem spannar óteljandi málefni er tengjast kynjuðum veruleika. Ein af þeim víddum sem kvennabaráttan og femínískar hreyfingar hafa þurft að takast á við varðar trans fólk og þeirra veruleika.
Barátta trans fólks hefur alltaf byggt á sömu gildum og femínísk barátta og ætti það því að vera deginum ljósara að barátta beggja hópa er í raun og veru ein og sama baráttan. Hún snýst um frelsi undan þrúgandi kynjakerfi sem úthlutar okkur kyngervi út frá kyneinkennum okkar, sem síðar meir skapar okkar sess í samfélaginu. Það fólk sem storkar þessu kerfi á einhvern hátt, hvort sem er um er að ræða trans fólk eða aðra, verður mjög fljótt vart við fjandsamlegt viðhorf í sinn garð.
Þrátt fyrir að baráttan byggi á sama grunni, þá hafa myndast átök um málefni trans fólks innan femínískra hreyfinga. Þau átök hafa nú spannað marga áratugi og beinast að miklu leyti að trans konum eða kvensegin trans fólki (e. trans feminine). Þessi átök hafa sem betur fer ekki verið eins sýnileg hérlendis og til að mynda í Bretlandi, en þar er mjög hávær hópur kvenna sem berst með kjafti og klóm gegn trans fólki og þeirra réttindum.
Fjandsamleg viðhorf gagnvart trans fólki hafa svo sannarlega lengi verið til staðar í Bretlandi, en hafa færst í aukana eftir að stjórnvöld tilkynntu að endurbæta ætti núverandi lög um breytingu á fæðingarvottorðum fyrir trans fólk. Núverandi lög kveða á um að trans fólk þurfi að lifa í sínu rétta kyni í að minnsta kosti tvö ár og þurfa sjúkdómsgreiningu frá heilbrigðisstarfsmanni áður en þau geta sótt um að fá nýtt fæðingarvottorð. Þær breytingar sem er verið að kalla eftir fela í sér að trans fólk þurfi ekki lengur að sanna kynvitund sína eða hljóta neinskonar sjúkdómsgreiningu, heldur geti breytt fæðingarvottorði sínu með því að skrifa undir lögfesta yfirlýsingu þess efnis.
Þess ber að geta að fólk getur breytt formlega um nafn án nokkura hafta í Bretlandi, og geta sömuleiðis breytt kynskráningu sinni á flestum öðrum skilríkjum á borð við ökuskírteini og vegabréfi án þess að þurfa að breyta fæðingarvottorði sínu. Engin þver-kerfislæg Þjóðskrá er til staðar í Bretlandi og eru þetta því allt mismunandi stofnanir sem lúta eigin reglum. Nýtt fæðingarvottorð veitir fólki því engin sérstök réttindi sem þau höfðu ekki fyrir, en snýr meira að því að lagalegt kyn sé í samræmi við kynvitund og félagslega stöðu viðkomandi.
Þrátt fyrir að þessar breytingar myndu ekki hafa nein áhrif á neinn annan en trans fólk, þá hafa þær haft í för með sér mjög óvæga og fjandsamlega fjölmiðlaumfjöllun um trans fólks og réttindi þeirra.
Andófið
Andstæðingar þessa breytinga halda því ranglega fram að þetta muni ógna öryggi kvenna í kynjaskiptum rýmum og nú geti hver sem er arkað inn í kvennaklefa eða önnur rými og misnotað konur. Slíkt á sér enga stoð í raunveruleikanum, enda er ekkert sem stöðvar ofbeldismenn að gera slíkt nú þegar enda eru til staðar lög sem leyfa fólki að nota rými í samræmi við kynvitund. Þessar breytingar fela ekki í sér að fólk geti bara lýst því yfir að það sé kona á miðvikudegi og farið inn í næsta kvennaklefa og misnotað konur á fimmtudegi. Slíkt væri fáranlegt og hefur enginn trans manneskja eða samtök lagt til slíkar breytingar.
Þessi háværi hópur hefur ranglega stillt réttindum kvenna í andstæðu við réttindi trans fólks og í kjölfarið hefur trans fólk upplifað meira áreiti, mismunun og jafnvel ofbeldi í sinn garð. Þrátt fyrir að þessi háværi hópur kenni sig við femínisma eða réttindi kvenna, þá eru þeirra helstu bandamenn öfga-hægrið eða þingmenn íhaldsflokksins sem hafa gagngert sett sig upp á móti réttindum kvenna og hinsegin fólks í gegnum tíðina. Hópurinn hefur greiðan aðgang að fjölmiðlum og einstaklingum með völd í samfélaginu og eru nokkrar þeirra vel þekktar fræðakonur eða dálkahöfundar í Bretlandi.
Trans fólk og fjölskyldur þeirra eru því undir stöðugu áreiti fjölmiðla sem gefa út greinar eða setja á fót umfjöllun sem afvegaleiðir umræðuna eða elur á fjandsemi í garð trans fólks. Sem trans manneskja í fjölmiðlun hef ég orðið fyrir barðinu á gríðarlegu áreiti á samfélagsmiðlum í kjölfarið og er þessi umræða að hafa neikvæðar afleiðingar á andlega heilsu trans fólks.
Veruleikinn er sá að trans fólk upplifir mikla fordóma, mismunun og ofbeldi í sinn garð, sér í lagi svartar trans konur. Trans fólk upplifir mikla mismunun á nánast öllum sviðum mannlífs og má telja á fingrum annarar hendi það trans fólk sem er í raunverulegum áhrifa- eða valdastöðum einhverstaðar í heiminum. Rannsóknir sýna að upp í 45% trans ungmenna hafa reynt sjálfsvíg og allt að 47% trans fólks hefur upplifað kynferðisofbeldi.
Sjálf varð ég fyrst fyrir kynferðisofbeldi þegar ég var 11 ára gömul, löngu áður en ég kom út sem trans manneskja. Alla tíð hef ég storkað gildum um „viðeigandi“ kyntjáningu og öll mín æska og unglingsár eru lituð af ítrekuðu áreiti eða ofbeldi. Það má því með sanni segja að ég hafi upplifað á eigin skinni hvernig kynjakerfið mismunar þeim sem tileinka sér kvenlega kyntjáningu (og gerir svo sannarlega enn þann dag í dag). Slíkt hefði einfaldlega ekki gerst hefði kyntjáning mín verið í takt við reglur kynjakerfisins.
Það er því augljóst að sú orðræða sem andstæðingar trans fólks tileinka sér er mjög yfirborðskennd og skortir dýpt. Hún gengur einfaldlega út á að ala á fjandsemi í garð valdalítils og sömuleiðis viðkvæms hóps fólks í samfélaginu. Hún nær engan veginn utan um þann flókna kynjaða veruleika sem við lifum við, er í stöðugri mótsögn við nútíma femínískar kenningar og hundsar veruleika og upplifanir trans fólks af kúgun kynjakerfisins. Sömuleiðis hundsar hún allt það trans fólk sem hefur verið partur af kvennabaráttunni eða femínískri baráttu svo áratugum skiptir—en stór hluti trans fólks hefur helgað líf sitt því að berjast gegn þrúgandi kerfum og úreltum staðalímyndum.
Trans fólk hefur alltaf og mun alltaf vera hluti af kvennabaráttunni og femínískri baráttu. Vissulega kunna að koma upp álítamál sem er vert að ræða og takast á við, en slíkt á alltaf að vera á grundvelli samvinnu, samstöðu og virðingar. Það á ekki bara eingöngu við um átök um trans málefni, heldur öll þau málefni sem falla undir hina víðfeðmu femínísku hreyfingu.
Baráttan gegn þrúgandi kynjakerfi verður ekki háð á árangursríkan hátt án þess að við tökum öll höndum saman þvert á kyn, bakgrunn, stétt, fötlun, holdarfar, litarhátt, menningu og annara þátta er skapa sess okkar í samfélaginu. Án samstöðu komumst við ekkert og á meðan við erum upptekin af því að berjast innbyrðis munu ríkjandi kerfi viðhalda stöðu sinni og halda áfram að gegnumsýra allt samfélagið.
Lifi femmabyltingin!
Lengi hefur verið talsfólk innan femínískra hreyfinga sem hefur viljað útiloka trans konur úr femínískum rýmum á grundvelli þess að þær séu einfaldlega ekki konur vegna þess kyns sem þær fengu úthlutað við fæðingu. Orðræðan snýr því að miklu leyti að því að trans konur séu ekki „líffræðilega“ konur—og geti því aldrei til fulls upplifað kynjamisrétti, áreiti og ofbeldi á sama hátt og konur.
Þrátt fyrir að slíkar staðhæfingar kunni að hljóma rökréttar í fyrstu, þá skortir slíkt sjónarhorn mikla innsýn í veruleika trans fólks. Slíkar staðhæfingar byggja sömuleiðis á miklum eðlishyggjuhugmyndum um kyn—hugmyndum sem femínísk barátta hefur ætíð gengið út á að uppræta. Á sama hátt og kyngervi okkar er bundið menningarlegum gildum hvers og eins samfélags fyrir sig, þá eru hugmyndir okkar um „líffræðileg kyn“ sömuleiðis bundið menningarlegum skilningi okkar á kyneinkennum.
Vissulega eru kyneinkenni áþreifanlegur hlutur og fólk sem hefur ákveðin kyneinkenni upplifir ákveðna kúgun út frá þeim—en að flokka kyneinkenni í „karlkyn“ og „kvenkyn“ er lítið annað en félagsleg flokkun á líkömum. Slíkt er mikil einföldun á líffræðilegum breytileika fólks innan þessara flokka, og hefur sömuleiðis valdið gríðarlegri mismunun í garð þeirra sem falla út fyrir þessa flokka. Mikið af intersex fólki hefur upplifað óþarfa læknisfræðileg inngrip sem eru eingöngu til þess að láta þau falla betur að þessari tvíundarflokkun á líkömum fólks.
Trans fólk upplifir almennt mikið ofbeldi í sinn garð vegna sinnar kyntjáningar og kynvitundar. Sýna rannsóknir fram á að slíkt ofbeldi beinist ekki eingöngu að þeim eftir að þau koma út úr skápnum, mikið af trans fólki verður fyrir kynferðisofbeldi í barnæsku eða á unglingsárum.
Trans fólki er sömuleiðis gert að uppfylla úreltar staðalímyndir til þess að fá aðgang að grundvallar heilbrigðisþjónustu og þarf trans fólk í sífellu að sanna kyn sitt fyrir ókunnugu fólki sem hefur enga sérfræðiþekkingu á trans málefnum né þekkir það á eigin skinni að hafa verið úthlutað röngu kyni við fæðingu.
Nú er ég virk innan ýmissa hluta kvennahreyfingarinnar á Íslandi og í Bretlandi og hef verið í langan tíma ásamt því að vera útskrifaður kynjafræðingur. Miklar breytingar hafa orðið á því hvernig femínísk hugmyndafræði hefur þróast og hafa óneitanlega verið átök innan femínískra fræða og kvennahreyfinga um trans málefni.
Sem betur fer virðist sem að femínískar hreyfingar og kynjafræði hérlendis sé ekki á þeim stað að vilja útiloka trans fólk og þá sérstaklega trans konur úr hreyfingunni, enda er barátta trans fólks og kvennabaráttan jú oft ein og sama baráttan: barátta undan þrúgandi kynjakerfi sem er byggt á hugmyndum eðlishyggjunnar um kyngervi, kyntjáningu og líkama okkar. Að mínu mati styður meirihluti femínista hérlendis trans fólk og talar fyrir þeirra réttindum og eru tilbúin að taka slaginn.
Í mínum augum er það ótrúlega mikilvægt að við stöndum saman í þessari baráttu, þar sem ýmiss íhaldsöfl eru að rísa upp enn sterkari en áður. Við getum byggt upp mun sterkari hreyfingu þar sem allar konur og minnihlutahópar fá að hafa rödd. Til þess er baráttan gerð, og á meðan við erum upptekin að rífast innbyrðis fá þessi þrúgandi kerfi að ráða áfram ríkjum og viðhalda valdi sínu.
Sem betur fer verð ég ekki eins vör við það á Íslandi, en í Bretlandi stend ég stöðugt í því að þurfa að leiðrétta og svara ýmsum mýtum sem hávær hópur anti-trans „aktívista“ endurtekur stöðugt, þrátt fyrir að hafa lítið í höndunum annað en fordóma, staðhæfingar byggðar á rangri túlkun rannsókna eða jafnvel hreinum tilbúningi. Oft mála þau upp allskyns myndir af trans fólki sem ofbeldisfólki eða pervertum, til að skapa ótta og viðbrögð, sem er klassískt stef beint úr skapalóni öfga-hægrisins, feðraveldisins og annara kerfa og hópa sem beita sér gegn jafnrétti.
Umræðan verður því mjög oft andstæðukennd og byggist á misvísandi upplýsingum sem fólk hefur gripið úr fjölmiðlum gagnrýnislaust eða frá áratuga gömlum kenningum um trans fólk og veruleika þess. Trans fólk hefur ekki mikil áhrif út í samfélagið og er aðgangur þeirra að fjölmiðlum og akademíu mjög takmarkaður. Trans fólk dílar upp til hópa við mikla fordóma í sínu nærumhverfi, útilokun á vinnumarkaði og takmörkuðum aðgangi að menntun. Trans fólk situr til að mynda ekki í neinum raunverulegum áhrifastöðum, hvorki í Bretlandi né á Íslandi. Talsfólk anti trans aktívista hér í Bretlandi eru samt sem áður oft þekkt fræðafólk, fjölmiðlafólk eða hefur sterkari tengsl við valdahópa. Mikið af fólki sem starfar innan stórra fjölmiðla hafa bein tengsl við fólk innan þeirra raða og hafa þau sömuleiðis tengsl við þingmenn innan margra flokka. Sumir af þeirra bandamönnum eru þingmenn innan íhaldsflokksins í Bretlandi sem hafa persónulega beitt sér gegn réttindum kvenna, hinsegin fólks og annara minnihlutahópa í gegnum tíðina.
Þessi háværi hópur hefur því reynt að búa til þá orðræðu að réttindi kvenna og réttindi trans fólks séu einhverskonar andstæðupar, sem þau eru ekki. Vissulega geta komið upp álitaefni sem er vert að ræða, en þeirra málflutningur gengur einfaldlega út á útilokun og að ala á ótta og fjandsemi í garð trans fólks og sérstaklega í garð trans kvenna. Sömuleiðis er reynt að ýfa upp allskyns áhyggjur af trans börnum og þeim stuðningi sem þeim er veitt, þrátt fyrir að rannsóknir sýni að stuðningur og heilbrigðisþjónusta auki lífsgæði þeirrra.
Femínískur fræðaheimur er það auðugur að hafa innanborðs trans fólk menntað í fræðunum sem hefur varpað ljósi á veruleika trans fólks og reynt að vekja athygli á ýmsum mýtum. Ein þeirra er Julia Serano, en hún hefur skrifað mikið af greinum, ritgerðum og bókum, sem margar hverjar taka á þessum átökum. Mig langaði þess vegna að deila þessari grein sem að fer stuttlega yfir nokkur ágreiningsatriði. Greinin er algjörlega ekki tæmandi og væri hægt að fara út í þessa punkta mun dýpra, en mér fannst hún ágætis lestur og yfirsýn.
Nú hafna margir vinstrifemínistar því að eðlismunur sé á kynjunum, annar en sá líffræðilegi eða útlitslegi; hann sé eingöngu uppeldislegur.
Fæðist manneskja með helstu útlitseinkenni drengs, og ef komið er fram við hann sem dreng, ætti manneskjan ekki að hafa neina ástæðu til að upplifa sig sem stúlku skv. þeim kenningum, og öfugt.
Menn (og konur) skildu því varast að binda trúss sitt við þá sem í grundvallaratriðum afneita tilvist þeirra.