Óútskýrður launamunur

Aðstandendur Kvennafrís sendu frá sér þessa yfirlýsingu í tilefni af ummælum dómsmálaráðherra að kvöldi 24.október.

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra gerir kynbundinn launamun og Kvennafrí að umræðuefni í færslu á Facebook-síðu sinni í gær. Þar sem færslan hefur ratað í fréttir er mikilvægt að árétta nokkur atriði varðandi kynbundinn launamun og mikilvægi þess að honum sé eytt.

Við, aðstandendur Kvennafrís, höfnum því alfarið að ályktanir sem dregnar eru af útreikningum Hagstofu Íslands séu rangar, eins og dómsmálaráðherra heldur fram. Eins og kemur skýrt fram á vefnum kvennafri.is reiknum við út meðalatvinnutekjur kvenna og er aðferðafræðin rakin nánar þar.

Það er rétt hjá ráðherranum að við tökum ekki tillit til vinnutíma, menntunar, reynslu, mannaforráða og fleiri breyta. Við teljum enga ástæðu til að leiðrétta fyrir þessum þáttum enda teljum við þá ekki málefnaleg rök fyrir kynbundnum launamun.

Að okkar mati felst kerfisbundið ójafnrétti ekki bara í óútskýrða launamuninum heldur mun fleiri þáttum eins og vinnutíma, menntun, starfi, atvinnugrein,  barneignum og hlutfalli kvenna í stjórnunarstöðum, svo eitthvað sé nefnt. Þótt þessir þættir útskýri hluta af launamuninum þá réttlæta þeir hann ekki heldur vekja upp fleiri spurningar hvers vegna má vera að hlutur kynjanna sé svo ójafn í þessum þáttum.

Staðreynd málsins er þessi. Meðatvinnutekjur kvenna eru 26% lægri en meðalatvinnutekjur karla. Ástæðurnar fyrir því eru meðal annars þær að þær taka lengra fæðingarorlof, þær þurfa frekar að vera frá vinnu vegna veikinda barna, þær þurfa að vera lengur frá vinnu til að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla, þær veljast sjaldnar í vel launaðar stjórnunarstöður og þær tilheyra svokölluðum kvennastéttum þar sem störfin eru ekki metin af verðleikum þegar kemur að launum og öðrum starfskjörum. Til viðbótar við þetta eru lífeyrissjóðsréttindi þeirra sömuleiðis lægri  en karlmanna.

Ólíkt dómsmálaráðherra þá teljum við þessar ástæður ekki skiljanlegar og ásættanlegar. Eins og fram kemur í yfirlýsingu gríðarfjölmennra samstöðufunda kvenna á Arnarhóli og í fjölda bæjarfélaga um allt land í gær krefjumst við þess að fæðingarorlof sé lengt, að kvennastéttir hætti að vera láglaunastéttir, að atvinnulífið verði fjölskylduvænna og að konur taki jafnan þátt í stjórnunarstöðum landsins. Með öðrum orðum þá krefjumst við jafnra kjara. Það væri óskandi að dómsmálaráðherra gæti tekið undir þá kröfu með okkur.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.