Hugleiðingar um þungunarrof

Skilja andstæðingar frumvarpsins um þungunarrof virkilega ekki að með því að lengja umhugsunartíma kvenna myndu hugsanlega færri konur rjúfa þungun? Og það sem betra er, færri konur tækju ákvörðun vegna tímapressu, sem þær svo sæju eftir?

Í Bretlandi er þungunarrof leyfilegt fram að 24. viku, mismunandi eftir löndum þó. Búandi í Skotlandi var mér bent á að ef ég kysi þungunarrof eftir 20. viku yrði ég „send suður“ – yfir landamærin til Englands þar sem aðgerðin yrði samt sem áður framkvæmd á vegum NHS, breska sjúkrasamlagsins.

Ég meðtók þessar upplýsingar þar sem ég sat inni í hlýlegu viðtalsherbergi og ræddi við hjúkrunarfræðing sem er sérstaklega þjálfuð í að ræða við þungaðar konur sem vita ekki hvort þær eiga að halda eða sleppa fóstrinu sem er byrjað að vaxa í líkama þeirra. Við vorum staddar á sérstakri NHS heilbrigðisstöð þar sem þungunarrof eru framkvæmd. Þangað hafði ég leitað, í kvíðakasti, eftir að hafa uppgötvað að ég hefði orðið ólétt þrátt fyrir notkun getnaðarvarna. Ég hafði jú ákveðið mörgum, mörgum árum fyrr að eignast engin börn, var einhleyp og í engri fjárhagslegri aðstöðu til að umturna lífinu með öllu því sem fylgir barneign. Félagslega aðstaðan var aðeins skárri en ég átti allt eins von á að sjá undir iljarnar á barnsföður mínum um leið og hann fengi fréttirnar, ef hann fengi þær yfir höfuð. Hann var enn síður en ég í aðstöðu til að bæta barni inn í líf sitt. Tímasetningin hefði heldur ekki getað veri verri, af svo ótalmörgum ástæðum. Þess vegna fannst mér ég þurfa að drífa mig í þungunarrof, því ég hélt að ég hefði jafnnauman tíma til stefnu og á Íslandi, hélt einhvern veginn að það væri bara normið á vestrænum löndum. Ég var samt ekki alveg viss um hvað ég vildi gera og efinn er skelfilegur félagi.

Eftir spjall og útreikninga komumst ég og hjúkrunarfræðingurinn að þeirri niðurstöðu að líklega væri ég komin sex vikur á leið en það yrði að staðfesta með skoðun. En eins og áður segði hefði ég tækifæri til að losa mig við fóstrið allt fram að 20. viku svo þótt ég væri komin lengra á leið væri ekkert stress í gangi. Þvílíkur léttir að komast að því að mér lægi ekkert á að taka ákvörðun! Því hugurinn var í svo miklu uppnámi að ég var varla fær um að ákveða hvort ég vildi sykur eða ekki í teið mitt – að vita að ég gæti farið heim aftur og hugsað málið í ró og næði, skoðað alla möguleika og velt framtíðinni vandlega fyrir mér róaði mig það mikið að ég mundi loks að ég hef drukkið sykurlaust te í yfir 20 ár. Ég var samt látin vita af því, og finna fyrir því, að um leið og ég tæki ákvörðun um þungunarrof væri fyrir allra bestu að framkvæma það sem fyrst og ef ég kæmist að niðurstöðu fyrir 10. viku væri hægt að nota pillur til að framkalla fósturlát. Eftir 10 viku yrði ég hins vegar að fara í útskröpun á stöðinni.

Engin pressa!

Þarna fannst mér verið að setja á mig dálitla pressu sem mér hugnaðist alls ekki. Kona getur ekki tekið svona stóra ákvörðun undir tímapressu. Næst var mér boðið að koma í forskoðun eftir slétta viku, þá yrði ég komin 7 vikur á leið og ef ég væri enn óákveðin gæti ég aftur farið heim og hugsað málið lengur. Ég fann að það var verið að reyna að fá mig til að ákveða mig fyrir 10. viku – það er jú mun ódýrara og minna vesen að gefa konum pillur og senda þær heim en að framkvæma dálitla aðgerð. Og bara við það að reyna að setja dagsetningu á forskoðunina leið mér eins og verið væri að setja á mig aukna tímapressu. Þá hætti mér að líða eins vel inni á þessu hlýlega viðtalsherbergi. Ég stamaði út úr mér að ég þyrfti að láta barnsföðurinn vita því að ef ég notaði pillu-aðferðina væri hann sá eini sem gæti hlúð að mér þegar mér tæki að blæða heima. Af einhverri ástæðu samþykkti ég samt að mæta í forskoðun viku síðar, vitandi að ég mætti þakka fyrir ef barnsfaðir minn ætti lausa stund næstu vikuna, svo upptekinn var hann – og við bæði – því eins og áður sagði var tímasetningin skelfileg. Þannig var því staðan þegar ég gekk út af stöðinni. Það var óþægileg tilfinning að hafa bara eina viku til að segja honum frá en ég minnti sjálfa mig á að ég þyrfti ekki að vera búin að taka endanlega ákvörðun þegar kæmi að forskoðuninni. Ég rifjaði líka upp að vinkona mín sem hefur reynslu af bæði pillu-aðferðinni og útskröpun hafði frekar mælt með útskröpun, það hefði verið minna álag á líkamann. Svo ég ákvað að hengja mig ekkert í að ljúka þessu af fyrir 10. viku. Og þótt að hugurinn væri á yfirsnúningi þá gat ég róað sjálfa mig með því að það væri nægur tími til stefnu, ég gæti vel beðið þar til rétta ákvörðunin kæmi til mín.

Og hún gerði það, fyrir 13. viku.

Ákvörðun um þungunarrof þarf að vera vandlega íhuguð og yfirveguð. Það að setja tímapressu á konur hlýtur að auka líkurnar á að þær sjái eftir ákvörðun sinni, sem er skelfileg tilhugsun.
Með því að gefa konum vissu um að tíminn sé nægur til að taka ákvörðun, eða skipta um skoðun ef að nýjar upplýsingar koma í ljós eða forsendur breytast, er ekki verið að neyða þær til að gera eitthvað sem þær vilja ekki eða eru ekki tilbúnar til að gera.

Hver þau sem halda að konur eigi eftir að flykkjast í þungunarrof „á síðustu stundu“ bara af því að þeim hugnast ekki lengur að klára meðgönguna hafa greinilega ekki nægan skilning á þessari upplifun og reynslu kvenna til að geta yfir höfuð komið nálægt ákvarðanatöku um lög um þungunarrof. Gefið okkur nægan tíma til umhugsunar og leyfið okkur bara að ráða þessu sjálfar!

Höfundur óskar nafnleyndar.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.