Kærleikskerfið femínismi

Það er áróðursherferð í gangi gegn femínisma um þessar mundir og ég skil vel að sum ykkar, jafnvel mörg, staldri við og hugsi: Er eitthvað til í þessu? Er femínismi farinn út í öfgar? Nei kæru vinir, svo er ekki. Hann er kærleikskerfi og hann er kominn til að vera. Það er alltaf einhver hópur sem óttast breytingar og að missa spón úr aski sínum. Bakslag er þekkt fyrirbæri þegar fólk hræðist breytingar og ekki síst þegar það óttast að missa völd.

En femínismi snýst ekki um alræði kvenna og það er ekkert að óttast. Hann snýst um raunverulegt jafnræði allra, sem vitanlega kemur öllum vel. Kerfi sem byggir á og praktíserar femínisma myndi gefa fólki tækifæri til að draga andann og líða vel, kæmist það á koppinn.

Ástæðan fyrir að nú hriktir í stoðum er ótti sumra við að missa völd og meðfylgjandi áróðursherferð þeirra á móti femínisma, sem nær eyrum margra. Það er auðvelt að spila á hræðslutaugarnar en ég kalla eftir ígrundun, skoðun. Takið ykkar eigin ákvarðanir, ekki láta andstæðinga femínisma segja ykkur hvað femínismi er. Ekki hlusta á áróðurinn. Í stað þess að trúa að óreyndu, vaðið þá frekar beint í skepnuna sjálfa og kryfjið hana. Lesið ykkur til.

Femínismi er kærleikskerfi sem hefur alla burði til að bjarga heiminum ef við hlúum vel að því. Þessi slagsíða í stjórnun heimsins hefur fært okkur á heljarþröm, ekki vegna þess að menn séu vondir, heldur vegna þess að við höfum leyft vondum mönnum að stjórna. Vegna þess að við gefum grænt ljós þessu kerfi sem styður það að vondir menn stjórni, og viðheldur því að við öll hin þjáumst fyrir það.

Með fullri aðild og þátttöku kvenna í ákvörðunum um heimsmálin og mótun áherslna heimsins, þá verður auðveldara að sporna gegn þessum fáu vondu mönnum og breyta þessu alltumlykjandi slæma kerfi. Heimsmyndin verður önnur.

Lítum til sögunnar. Árið 1955 neitaði Rosa Parks að gefa sæti sitt eftir hvítum manni, þegar öll „hvítu“ sætin voru full. Rosa var alls ekki sú fyrsta sem þetta gerði en hún hafði allt til að bera til að verða andlit (og ein af röddum) vaxandi hreyfingar, hreyfingarinnar gegn rasisma og fyrir réttindum svartra í Bandaríkjunum. Þeirri baráttu er engan veginn lokið en gríðarlega mikið hefur áunnist og ekki bara í BNA í þessum málum.

Við femínistar eigum nokkur söguleg tímamót og eitt stærsta þeirra var og er metoo byltingin. Eins og við var að búast, því miður, reis upp andfemínísk alda í kjölfarið. Ég bið ykkur, ekki láta andófið gegn femínisma slá ryki í augun á ykkur. Það sem við femínistar viljum er jafnrétti og friður. Við viljum að drengjum líði vel og stúlkum líði vel og öðrum kynjum líði vel. Við viljum að þessi öll hlutist til um heimsmálin í sameiningu, rödd hvers og eins heyrist og séreinkenni hvers kyns um sig fái að njóta sín.

Þegar ráðist er að fólki verður það gjarnan reitt. En reiðin er líka framfaraafl, ekki bara ótti við breytingar. Sú reiði sem sumir femínistar finna fyrir núna er vegna óþols fyrir misrétti. Við viljum misréttið burt og það sem fyrst. Ég bið ykkur að skoða femíníska reiði í þessu ljósi. Máttu svartir í Bandaríkjunum vera reiðir? Eða hefðu þeir átt að sleppa því? Hvað hefði þá áunnist?

Femínistar eiga í mannréttindabaráttu eins og þau sem berjast fyrir réttindum fatlaðs fólks, fyrir réttindum svartra og fyrir réttindum annarra minnihlutahópa. Konur eru stærsti minnihlutahópur heims en jafnframt sá sem erfiðast er að fá fólk til að fylkja sér um. Af hverju? Af hverju styðja margir mannréttindafrömuðir baráttuna gegn rasisma en ekki baráttuna gegn sexisma? Það er engin glóra í því. En ég tel að ástæðan sé almennt tilfinningaleg og hvíli á stoðum rangra upplýsinga: Hinna raunverulegu FAKE NEWS. Þess vegna bið ég ykkur, kynnið ykkur málin ef þið hafið ekki nú þegar gert það.

Kristín Elfa Guðnadóttir. Upphaflega birtist þetta sem innlegg á FB og er endurbirt með leyfi höfundar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.