Sjálfsvörn með fórnarkostnaði

María Hjálmtýsdóttir skrifar:

Sjálfsmynd mín segir mér að ég sé góð manneskja í grunninn, heiðarleg og almennt velviljuð í garð fólks. Ég hef auðvitað ýmsa bresti og galla en ég geri mitt besta til að vera góð manneskja og vonandi mun mér takast að skilja þannig við að mín verði minnst fyrir að vera kannski bara hreint alveg ágæt.

Fyrir nokkrum árum efaðist ég þó mikið um þessa sjálfsmynd mína og sjálfa mig og mér var farið að líða eins og ég væri að bilast þar sem hegðun mín og ég pössuðum ekki saman. Í dag sé ég þó skýrt að ég var orðin lasin af meðvirkni og andlegu ofbeldi. Þessháttar ofbeldi hefur nefnilega oftar en ekki þau áhrif að þau sem fyrir því verða hætta að treysta eigin tilfinningu og innsæi sem grafið hefur verið undan jafnvel á svo löngum tíma að enginn varð þess var nema kannski pínulítil rödd sem þú ert löngu búin að kefla og tjóðra ofaní kjallara. Ég var bara brotabrot af sjálfri mér að reyna að halda haus í stanslausum hvirfilbyl þar sem ekki einu sinni ég sjálf var með mér í liði.

Svo rugluð var ég orðin í ofbeldissambandinu að ég var farin að sjá stundum um að beita mig ofbeldinu sjálf. Til dæmis passaði ég að finna alltaf strax afsakanir fyrir því að komast ekki í vinnuferðir eða ýmiskonar partý af því að ég vissi að það yrðu bara leiðindi úr því ef ég nefndi það heima. Ég passaði að halda óþægilegu fólki fjarri en þau sem leyfðu sér að gagnrýna eða sáu í gegnum grímuna voru efst á bannlistanum. Suma dæmdi hann út úr lífi mínu en aðra fjarlægði ég sjálf af því að ég var löngu búin að læra reglurnar og vissi hverjir máttu ekki vera hluti af lífi mínu. Afsakanalistinn minn var langur og ég er enn í dag að þjálfa mig í því að segja ekki bara strax nei takk við allskyns tilboðum og ljúga því að ég þurfi að mæta í ristilspeglun nákvæmlega á þeim tíma sem viðburðurinn hefst.

Nema hvað. Af því að ofbeldismaðurinn var makinn minn var ég auðvitað með honum í liði. Stundum gegn sjálfri mér og alltaf gegn þeim sem honum fannst vera á móti sér. Reyndar þótti honum grunsamlega margir vera sífellt að vinna á einhvern hátt gegn sér og oftar en ekki vorum við tvö ein á móti heiminum og þá reið á að sannfæra hann um að ég myndi nú örugglega ekki yfirgefa liðið. Ef ég snérist gegn honum myndi hann deyja eða brjálast eða segja öllum hvað ég væri mikil gála eða bara eitthvað. Svo auðvitað snérist ég ekkert gegn honum. Hvernig átti ég líka að gera það þegar hann elskaði mig svona mikið og var svona óheppinn að lenda alltaf í því að allir væru á móti honum? Hvernig átti ég að snúast gegn eina manninum sem þekkti mig í raun og veru, ég sem var eina manneskjan sem skildi hann fullkomlega og hann þarfnaðist til að draga andann?

Auðvitað stóð ég með mínum manni til að reyna að halda reisn. Til að reyna að láta allt líta út fyrir að vera í lagi. Til að reyna að láta hann líta út fyrir að vera ekki þann sem hann er. Til að reyna að láta mig sjálfa líta út fyrir að vera með betri manni en ég var í raun og veru. Til að reyna að sannfæra sjálfa mig um að ég væri ekki algjör hálfviti fyrir að vera í sambandi með manneskju sem var vond við mig og aðra. Til að búa til lógík þar sem hana var aldrei að finna.

Einu sinni ásakaði erlendur starfsmaður okkar hann um að snuða sig um laun. Innst inni vissi ég að hann væri alveg vís til þess að fara illa með fólk en minn maður brjálaðist og auðvitað var ég með honum í liði. Ég snéri allar litlu raddirnar í höfðinu niður og tók til við að verja minn mann og ég skrifaði hádramatíska póstana til stéttarfélagsins um það hvaða árans óbermi aumingja starfsmaðurinn væri. Ég réðst á hann og hans trúverðugleika af öllum mætti til að halda friðinn heima hjá mér. Til að róa minn mann, styðja hann og sanna enn og aftur fyrir honum að ég væri nú aldeilis með honum í liði. Og ég laug og ég rakkaði mann niður fyrir að leita réttar síns. Ég fórnaði honum fyrir minn frið.

Ég skildi þetta hvorki né sá á meðan ég var enn inni í sambandinu. Í dag skammast ég mín niður í tær og ég hef aldrei þorað að horfast í augu við starfsmanninn síðan. Auðvitað á ég að finna hann og biðja hann afsökunar. Auðvitað á ég að skammast mín fyrir að hafa notfært mér staðalmyndir og útlendingafordóma til að draga úr trúverðugleika mannsins. Auðvitað átti ég ekki að verja þann sem var í órétti en ég lét mig trúa honum eins og ég var vön að búa til lógík úr kjaftæði. Ég lét lygar hans verða sannleika minn af því að ég var með honum í liði. Hann var makinn minn og ég var því miður ekki búin að opna augun fyrir því að ég gæti, mætti og yrði að fara. Ég var ekki búin að sjá útúr stærstu lyginni hans sem var sú að þetta væri ást og að við yrðum að vera saman af því að annars…. eitthvað.

Mér til afsökunar var ég lasin. Ég var rugluð, ringluð, týnd, lasin og blind inni í ofbeldissambandi sem ég rataði sem betur fer út úr fyrir rest. Ég var samt aldrei svona. Ég gerði svona.Ég taldi mér trú um að ég væri að gera rétt. Annað fólk var alltaf vont við minn mann og ég varði hann. Það var mitt hlutverk og til að geta uppfyllt það varð eg að trúa lyginni Ég var lengi að fatta það og fyrirgefa mér. Svo gat ég fundið sjálfa mig aftur. Og þessi sjálf er ég bara ansi hreint ágæt þrátt fyrir allt.

Ein athugasemd við “Sjálfsvörn með fórnarkostnaði

  1. Bakvísun: María var í ofbeldissambandi í 18 ár: „Af því að ofbeldismaðurinn var makinn minn var ég auðvitað með honum í liði“ – DV

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.