„Góðir karlar“ og „vondir“ karlar

Á árlegri hátíð Hollywood Reporter fyrir konur í skemmtanaiðnaðinum að morgni miðvikudags í liðinni viku tók fyrst til máls ástralska grínistan Hannah Gadsby og sagði meðal annars þetta:

Mér er mikill vandi á höndum varðandi góðu karlana, einkum þá sem að eigin frumkvæði tjá sig um vondu karlana. Mér finnst það ótrúlega pirrandi að heyra góða karla tjá sig um vonda karla en þetta gera góðu karlarnir mjög oft núorðið. Ekki akkúrat núna á þessari stundu, því góðu karlarnir þurfa ekki að vakna snemma til að semja sjóðheita einræðu um kvenhatur. Þeir fá nefnilega besta tímann í sjónvarpinu og alla kvöldþættina.

Ég hef fengið nóg af því að kveikja á sjónvarpinu í lok dags og sjá allt að 12 Jimmya tjá sig. Misskiljið mig ekki, það er ekkert athugavert við Jimmy og Jimmy og David og hina, þetta eru góðir gaurar, frábærir gaurar. Sumir eru bestu vinir mínir. En síst af öllu þarf ég núna á því að halda að hlusta á einræðu karla um kvenhatur og hvernig aðrir karlar ættu nú bara að hætta að vera „ógeðslegir“, eins og það sé vandamálið. „Bara ef þessi vondu karlar kynnu að vera ekki ógeðslegir!“ Er það málið? Karlar eru ekki ógeðslegir. Köngulær eru ógeðslegar því við vitum ekki hvernig þær hreyfa sig. Að hafna mennsku konu er ekki ógeðslegt, heldur kvenhatur. Af hverju halda karlar ekki einræður um þessi mál? Þeir geta það reyndar og gera það. Það sem ég finn að því er að Jimmy og Jimmy og hinir segja að það séu bara tvær tegundir af vondum körlum. Það eru gaurar eins og Weinstein og Bill Cosby sem eru svo gersamlega hræðilegir að þeir gætu eins verið af allt annarri tegund en Jimmy. Svo eru það bestu vinir aðal, vinir Jimmy og hinna. Þeir virðast vera góðir karlar sem hafa misskilið reglurnar -dæmigerð samþykkislesblinda. Þeir létu sér nægja að renna lauslega yfir reglurnar. „,Ó, er þetta semi-colon (hálfgerður ristill). Mín mistök, ég hélt að það þýddi endaþarmsmök.“Ég bið viðstadda veganista forláts.

Ég finn að því þegar góðir karlar tala um vonda karla, því þá hunsa þeir alltaf markalínuna sem er alltaf strikuð þegar góður karl talar um vonda karla: „Ég er góður karl. Hér eru mörkin. Þarna eru allir vondu karlarnir.“ Jimmy og góðu karlarnir tala ekki um þessa markalínu en við verðum í alvöru að tala um hana. Köllum línuna Kevin. Og síðan aldrei aftur. Við verðum að tala um hvernig karlar draga nýja markalínu fyrir hvert tækifæri. Það er til lína fyrir búningsklefann; línan þegar konurnar þeirra, mæður, dætur og systur horfa á; önnur lína þegar þeir eru fullir og að kallaspjalla; enn önnur lína fyrir þagnareið; lína fyrir vini og lína fyrir óvini. Vitið þið af hverju við verðum að tala um þessa línu milli góðra karla og vondra? Af því að það eru bara góðu karlarnir sem fá að ákveða hvar línan liggur. Og vitið þið hvað? Allir karlar halda að þeir séu góðir. Við verðum að tala um þetta því vitið þið hvað gerist þegar bara góðu karlarnir fá að ákveða markalínuna? Þessi heimur gerist, heimur fullur af góðum körlum sem gera ljóta hluti en trúa því samt innst inni að þeir séu góðir karlar því þeir hafa ekki farið yfir mörkin, því þeir færa mörkin til sér í hag. Konur eiga að ráða hvar þessi mörk eru dregin. Engin spurning!

Takið nú allt sem ég hef sagt til þessa og setjið orðið „hvítur einstaklingur“ í stað orðsins „karl“ og vitið að hvítar konur eiga ekkert með að ákveða mörkin milli góða hvíta fólksins og vonda hvíta fólksins. Gefið ykkur líka tíma til að setja í staðinn fyrir „karl“ orð eins og „gagnkynhneigð/ur)“ eða „cís“ eða „ófatlaður/ófötluð“ eða „normal“ og svo framvegis. Við höldum öll að við séum í alvöru góð og við þurfum að trúa því af því það er hluti af því að vera maður. En þau sem þurfa að trúa að aðrir séu í alvöru vondir til að trúa að þau séu góð, draga afar hættulega markalínu. Á margan hátt eru allar þessar línur sem við drögum eins og sögur sem við segjum okkur til að við getum áfram trúað að við séum gott fólk.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.