Illt umtal sem kúgunartól

Eyja Margrét Brynjarsdóttir skrifar:

Eyja Margrét stór mynd

Eitt af því sem hefur verið rætt varðandi Klausturmálið og sem virðast vera nokkuð skiptar skoðanir um er hvort fyrirlitningartal, eins og þar átti sé stað, sé óvænt og óvenjulegt eða hvort þetta sé eitthvað sem búast má við. Fólk hefur verið hikandi við að samþykkja hið síðarnefnda því þá sé verið normalísera slíkt tal og að dregið sé úr alvarleika málsins.

Sigmundur Davíð hefur raunar viðhaft slíka orðræðu: Hann hafi margoft orðið vitni að sambærilegu og verra og að það tali annar hver maður svona. Ég tel hins vegar nauðsynlegt að ræða fyrirsjáanleika orðræðu eins þeirrar sem átti sér stað á Klaustri, alls ekki til að réttlæta hana heldur til að benda á hvernig sá fyrirsjáanleiki er eins og svipa gagnvart konum og fleiri jaðarhópum. Flestar konur sem hafa sig eitthvað í frammi á opinberum vettvangi vita nefnilega vel að þær mega búast við refsingu fyrir það. Viðbjóðslegar ofbeldishótanir sem dynja á konum sem fjalla opinskátt um málefni kynjanna á netinu eru dæmi um slíkar þöggunartilraunir.

Það er auðvitað vel þekkt að fólk sem er áberandi í þjóðlífinu lendir oft milli tannanna á fólki þannig að um það ganga alls kyns kjaftasögur, óháð kyni eða annarri flokkun í samfélagshópa. En umtalið sem konur verða fyrir er harðskeyttara, grófara og meira ógnandi en það sem karlarnir lenda í, ja, nema þeir séu samkynhneigðir, greinilega. Orðræðan á Klaustri um Lilju Alfreðsdóttur er skýrt dæmi um nauðgunarorðræðu. Karlarnir eru ekki að lýsa því að þá langi til að sofa hjá henni vegna þess að hún sé álitleg, sem er kannski það sem við lítum á sem eðlilega ástæðu þess að girnast aðra manneskju (þótt það væri í þessu tilviki óviðeigandi hlutgerving, miðað við samhengið, að ræða það). Þeir tala um að vilja ríða henni þrátt fyrir að hún sé laus við allan kynþokka, að þeirra mati, og að þeim líki illa við hana, auðvitað vegna þess að hegðun hennar snýst ekki um að reyna að þóknast þeim sérstaklega. Samfaratalið er sett fram sem hugmynd um réttláta refsingu Lilju til handa fyrir það að láta illa að stjórn.

Þó að illt umtal eigi sér sjaldnast stað í viðurvist viðkomandi þá vita konur það vel að svona verður talað um þær ef þær leyfa sér að rugga bátnum. Einhvers staðar verður því haldið fram að þær séu ekki bara erfiðar, óalandi og óferjandi, heldur tíkur og kuntur, og jafnvel sitji einhverjir karlar og plotti hópnauðgun á þeim, jafnvel þótt þeir láti vonandi aldrei af henni verða. Þess vegna þurfi þær að hafa sig allar við til að reyna að þóknast körlunum, vera þægar, vel liðnar, annars glati þær allri virðingu og enginn geti unnið með þeim. Það þarf mikinn kjark til að hætta á að verða umtöluð kona.

Eyja Margrét Brynjarsdóttir er aðjunkt í heimspeki. Erindið var upphaflega flutt á málþingi um íslenska stjórnmálaorðræðu og birt með leyfi höfundar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.