Stjórnmál vináttunnar og útilokun kvenna

Irma Erlingsdóttir skrifar:Irma Erlingsdóttir stór mynd

Í bók sinni, Stjórnmál vináttunnar eða Politiques de l’amitié, skrifar franski heimspekingurinn, Jacques Derrida, að konur hafi frá upphafi verið útilokaðar frá vináttunni (sem í bók hans stendur fyrir skilgreiningarvaldið eða þá hugmyndafræði sem liggur samfélögum okkar til grundvallar — sjálft föðurveldið — í fullveldi og bræðralagi sínu). Þeir eru allir sammála um þetta, karlarnir í heimspekinni, frá Aristótelesi til Nietzsche: Þær geta elskað en þær geta ekki verið vinir, hvorki karla né sín á milli. Þær eru ófærar um það — hafa ekki þroskann sem þarf; búa ekki yfir hæfileikanum að bera tilhlýðilega virðingu fyrir einhverju/m öðru/m — en þær elska.

Þess vegna eru þær ekki hafðar með, það er ekki gert ráð fyrir þeim og þær eru jafnvel taldar stórhættulegar. Í huga Derrida verður enginn raunverulegur staður fyrir þær fyrr en þær forsendur og sá strúktúr sem liggur þessari pólítík til grundvallar verður afbyggður frá grunni.

Það er verk að vinna — en við getum huggað okkur við að það er þegar hafið. Formgerð vináttunnar er tilbúningur. Hún stenst ekki nánari skoðun. Hún byggir á valdatengslum yfirráðapólitíkur sem geta þróast og breyst og kannski felst eitt af umbreytingaröflunum, eins og Derrida bendir á í bók sinni, í því að sjá ást og vináttu ekki að öllu sem aðskilin fyrirbæri.

Rithöfundurinn Virginia Woolf lét ekki sitt eftir liggja í þágu þessarar afbyggingar. Í bók sinni, Room of one‘s own (Sérherbergi), skrifar hún – og það er ekki laust við að vandlæting og reiði Klaustursþingmanna komi upp í hugann:

„Konur hafa í allar þessar aldir þjónað eins og speglar sem eru gæddir þeim töfrandi og unaðslegu eiginleikum að stækka mynd karlmannsins um helming […] Með þessu er að nokkru leyti hægt að skýra hve nauðsynlegar konur eru oft körlum. Og það skýrir hversu bágt þeir eiga með að þola gagnrýni þeirra, hve vonlaust það er fyrir þær að segja þeim að þessi bók sé vond, þessi mynd léleg eða hvað sem vera kann, án þess að valda miklu meiri sárindum og miklu meiri reiði en karlmaður myndi gera með sömu gagnrýni. Því byrji hún að segja sannleikann skreppur karlmaðurinn í speglinum saman.“

Gróft persónuníð sem beinist að konum í áhrifastöðum, eins og birtist í Klaustursmálinu, er síendurtekið stef í stjórnmála-, menningar- og samfélagsumræðu. Hér ætla ég, þar sem við erum stödd í háskóla, að nefna tvær fræðikonur, önnur er frönsk en hin íslensk, sem fengu báðar yfir sig flóð svívirðinga og fordæminga fyrir tvennar „sakir“: annars vegar að hætta sér inn á svið fræðasamfélagsins þar sem karlar voru nær einráðir og hins vegar að leyfa sér að greina og lýsa kvenfyrirlitningu í ólíkum birtingarmyndum.

Fyrst Simone de Beauvoir: Fyrir 70 árum lauk hún við tímamótaverk sitt sem ber heitið Le deuxième sexe á frummálinu, á ensku The Second Sex og á íslensku „Hitt kynið“ — titill sem nær að hluta til merkingunni, en hann var fyrst og fremst valinn því hann þótti hljóma betur en „Annað kynið“ (þ.e. kynið sem fyrsta kynið þarf til að skilgreina sjálft sig sem æðra, meira og betra) eða aðrar beinar þýðingar eins og „Afleidda kynið“eða „Afgangskynið“. En kannski ætti óréttlætið bara að hjóma eins og það hljómar – það er: illa.

Enn hafa fá rit verið skrifuð sem fanga jafn vel það atferli sem Klaustursþingmenn urðu uppvísir að.

Sú holskefla ærumeiðinga sem dundi á Beauvoir eftir útgáfu bókarinnar afmarkaðist ekki aðeins við kaffihús eða vínbari Parísarborgar, heldur náði hún einnig inn á síður allra helstu dagblaða og fræðitímarita þess tíma. Verk eftir konu hafði aldrei fyrr vakið jafnmikla eftirtekt. Virt tímarit birtu ritdóma og umsagnir og í dagblöðum birtust tugir greina, margar eftir nafntogaða rithöfunda. Gagnrýnendur einblíndu á kynferðislegar skírskotanir, en kynlíf er langt frá því að vera eina umfjöllunarefni bókarinnar. Þannig spurði rithöfundurinn François Mauriac, hneykslaður, í forsíðugrein dagblaðsins Figaro, hvaða erindi kynferðisleg upplifun kvenna ætti í bókmennta- og heimspekitímariti sem vildi láta taka sig alvarlega. Beauvoir var uppnefnd og niðurlægð: Hún var „kynlífssúffragetta“ og „tilvistaramasóna“, „fóstureyðir“, „taugahrúga“, „skass“ og hvort tveggja „brókarsjúk“ og „freðin“!

Beauvoir fjallaði sjálf um og greindi hatursorðræðuna sem hún varð fyrir í bók sinni, La force des choses („Afl aðstæðanna), sem hluta af þeim kerfislæga vanda sem hún fjallaði um í Hinu kyninu. Öll umfjöllunin ber þess merki að hún snýst meira um konuna en verkið. Ljóst þykir að markmið þeirra sem sem fjölluðu um bókina var að kasta rýrð á kenningar Beauvoir, afneita henni sem fræðikonu og útiloka umræður.

Hin fræðikonan sem ég vildi nefna er Helga Kress (við buðum henni að tala hér í dag en hún gat það því miður ekki því að hún er stödd erlendis). Hún lýsti árið 2001 andstöðunni sem skrif hennar vöktu á áttunda áratugnum. Hún greindi birtingarform, aðferðir og orðræðu andstöðunnar og þá hugmyndafræði sem lá henni að baki — rannsóknir hennar þóttu meðal annars vega að íslenskri karlmennsku og þjóðerni. Þessu sá stað í umræðum, ritdómum og skáldverkum sem og í háskólasamfélaginu og fór þar mikið fyrir skömmum og uppnefnum. Eins og hún hefur einnig sjálf bent á, er sniðganga og þöggun þekktar aðferðir þegar kemur að því að gera lítið úr framlagi kvenna.

#metoo varð ekki til í tómarúmi. #metoo er rökrétt framhald femínískrar baráttu — vitnisburður sem kemur í kjölfar fjölda vitnisburða. En má merkja áhrif #metoo í Klaustursmálinu? Þau eru greinileg í viðbrögðunum — þar sem fólk heimtar að málið verði ekki þaggað og að það hafi afleiðingar.

En áhrif #metoo eru einnig greinileg í sjálfri upptökunni. Sexmenningarnir eru afar uppteknir af #metoo-hreyfingunni. Þeir nefna hana og gera lítið úr henni, á sama hátt og þeir hlutgera samstarfskonur sínar og aðrar áhrifakonur. Frelsishreyfingar mæta alltaf andstöðu en það tefur og þaggar tímabundið niður kröfuna um umbætur.

Klaustursþingmönnum er augljóslega ekki rótt. Í óráði ráða þeir ráðum sínum. Fullir … ótta um vald sitt. Og hverjum ber einna helst að vara sig á: Konum … Og hvar leynist hættan: Hjá konum — og öllum þeim sem þeir setja í sama flokk hvort sem það eru fatlaðir eða hinsegin fólk. Konan er svarta meginlandið í menningu okkar, eins og Sigmund Freud komst svo eftirminnilega að orði, hún er dýrið, hún er húrrandi biluð og því þarf að beisla hana og temja með öllum tiltækum ráðum … til að viðhalda þeirri samfélagsgerð sem við búum við.

Já: árið er 2018.

Samtalið sem var hljóðritað er ekki fyrsta samtalið af þessu tagi. Því fer fjarri og það vitum við öll. Hljóðritunin er einungis eitt dæmi af mýmörgum sem afhjúpa aldagamalt kvenhatur sem endurtekur sig í sífellu og finnur sér ný birtingarform.

Með #metoo biðja konur um að þeim sé trúað. Vitnisburður er þess eðlis — þar er farið fram á að traust sé lagt á orð viðmælandans. Sönnunarbyrðin hefur jú verið hjá konum. Klaustursmálið reiðir hins vegar fram sönnunargögn frá fyrstu hendi. Það varpar einnig örlítilli skimu inn í reynsluheim stjórnmálakvenna sem margar hafa dregið sig inn í skel, kosið að láta kyrrt liggja.

En eitthvað er það í samtali Klaustursþingmanna (líklega það hvað þetta er grímulaust og allur þessi tími sem þarna fer í að úthúða konum og baráttu þeirra) sem læðir að manni þeirri hugsun að hér megi einnig merkja viðbrögð úr sér gengins karlaveldis sem reynir að slá frá sér … að spyrna á móti möguleikum til umbyltingar sem hreyfingar eins og #metoo gætu falið í sér.

Látum það ekki gerast!

Ef við sláum þagnarhjúp um það sem kallað hefur verið í fræðunum „hin hversdaglega kvenfyrirlitning“, viðhöldum við gamla kerfinu. Fræðikonurnar sem ég nefndi áðan sneru andstyggilegum mótbyr í meðvind. Þær nýttu verkfæri sín, greiningartækin sem þær voru þjálfaðar til að beita, til að setja svívirðingar kollega sinna í rétt samhengi, sem var ekki persónulegt heldur pólitískt. Minningin um óréttlæti er umbreytingaafl ef hún er skráð og færð til bókar.

Ég óska þess að stjórnmálakonur — og -menn — nýti sín verkfæri og umboðið sem þær og þeir hafa frá kjósendum sínum til að breyta stjórnmálamenningunni.

Irma Erlingsdóttir er dósent og forstöðumaður RIKK. Erindið var upphaflega flutt á málþingi um íslenska stjórnmálaorðræðu og birt með leyfi höfundar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.