Konur og stjórnmál í sögulegu samhengi

RagnheidurKristjansdottir_minni-300x372Það er eins með það stjórnmálakerfi sem varð til á nítjándu öld og teikningarnar af aðalbyggingu Háskóla Íslands. Þar var ekki gert ráð fyrir konum. Eða svo segir sagan, þ.e.a.s. að þótt konur hafi átt að hafa óheftan aðgang að Háskólanum hafi ekki verið gert ráð fyrir kvennaklósettum í aðalbyggingunni.

Og það sama átti við um Alþingishúsið. Ragnhildur Helgadóttir greinir frá því í bókinni Frú ráðherra að það hafi verið svolítið sérkennilegt að taka sæti á Alþingi því þar hafi verið „ýmsir siðir og ýmis aðstaða sem var hreint ekki ætluð konum, til dæmis snyrting. … Þessu björguðum við Hörður Bjarnason, þáverandi húsameistari ríkisins,“ segir Ragnhildur, með því að nýta rými undir stiganum í anddyri Alþingishússins „og hann kallaði það alltaf leyndarmálið okkar“. Þetta var árið 1956, fjörutíu árum eftir að konur gátu fyrst boðið sig fram til kjörs á Alþingi.

Lýðræðisstjórnmál nítjándu aldar gerðu ráð fyrir allir myndugir og fjárhagslega sjálfstæðir karlar mynduðu hina pólitísku þjóð. Þetta voru hinir fullgildu þegnar og borgarar sem áttu að kjósa sér fulltrúa til þess að fara með ríkisvaldið. Og þótt þegnrétturinn hafi verið útvíkkaður um og upp úr fyrra stríði, og svo enn frekar eftir seinni heimsstyrjöld, og þótt konur og eignalausir karlar hafi þannig fengið rétt til að kjósa og bjóða sig fram til þings og sveitarstjórna, viðhéldust eldri viðhorf.

Sagan geymir mýgrút af dæmum um hvernig brugðist var við stjórnmálakonum sem aðskotahlutum sem trufluðu gangverk stjórnmálanna. Þetta átti sérstaklega við um þær konur sem presenteruðu sig sem jafngildar stjórnmálakörlunum, en ekki, eins og var auðveldara, sem eins konar hjálparhellur, starfsstúlkur eða húsmæður. Þær máttu ótruflaðar eiga sinn litla og afmarkaða bás í stjórnmálunum.

Hinar sem stigu út fyrir básinn vöktu viðbrögð. Hér koma upp í hugann þær Katrín Thoroddsen og Rannveig Þorsteinsdóttir sem sátu á Alþingi á fimmta og sjötta áratugnum. Og svo kannski meira og minna allar konur fram á okkar daga. Líklega hefur engin stjórnmálakona hingað til sloppið við kynbundna, niðrandi og meiðandi umræðu?

Vissulega virðist hún vera á undanhaldi – ýmislegt bendir til þess. En um leið ber nú á – og meira en áður – að gripið sé til þess að gera lítið úr stjórnmálakonum með ofbeldisfullri og kynferðislegri orðræðu, orðræðu sem byggir á stjórnmálum haturs og mismununar, haturs sem beinist ekki bara gegn konum heldur ýmsum minnihlutahópum. Reyndar virðist uppspretta þessarar hatursfullu orðræðu ekki einungis vera fordómar og fáfræði, heldur einnig sá ásetningur að skapa andstæðinga … og þykjast svo vera baráttumaður gegn yfirgangi þessara andstæðinga.

Um þessa ofbeldisfullu stjórnmálamenningu og afleiðingar hennar höfum við dæmi frá Bandaríkjunum og Bretlandi – hér er skemmst að minnast morðsins á bresku þingkonunni Jo Cox – sem og víða annars staðar úr Evrópu. Þar á meðal Íslandi.

Ragnheiður Kristjánsdóttir er dósent í sagnfræði. Erindið var flutt á málþingi um íslenska stjórnmálaumræðu og er birt með leyfi höfundar.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.