Hrútskýringin verður til

rebeccasolnitÁrið 2008 gagnrýndi Rebecca Solnit karlahroka í greininni „Men Explain Things To Me“. Hér er hún í íslenskri þýðingu ásamt formála höfundar.

Formáli

Kvöld eitt yfir málsverði fór ég að spauga, eins og oft áður, um að skrifa ritgerð með heitinu: „Karlar útskýra hluti fyrir mér“. Allir höfundar eiga sitt hesthús af hugmyndum sem komast aldrei út á ritvöllinn og þennan fola hafði ég liðkað öðru hverju til að halda honum við. Næturgestur minn, Marina Sitrin, frábær kenningasmiður og aðgerðasinni, heimtaði að ég setti hana á blað því fólk eins og Sam, yngri systir hennar, þyrfti að lesa hana. Ungar konur þyrftu að vita að lítillækkun væri ekki vegna þeirra leyndu veikleika, heldur væri ástæðan gömlu leiðinlegu kynjastríðin. Hjartkæra ómetanlega Sam, þessi var alltaf sérstaklega handa þér. Hún þráði að vera skrifuð; að komast út á skeiðvöllinn og tók sprettinn um leið og ég settist við tölvuna og þar sem Marina svaf alltaf lengur en ég á þessum árum, hafði ég hana til morgunverðar og sendi Tom hana síðar þennan dag.

Þetta var í apríl 2008 og hún snart fólk. Enn virðist hún endurbirt oftar en annað sem ég hef skrifað fyrir TomDispatch.com og varð tilefni mjög fyndinna bréfa til þessa vefsvæðis. Ekkert kom meira á óvart en bréfið frá manninum í Indianapolis sem vildi segja mér að hann hefði „aldrei persónulega eða í starfi sínu gert lítið úr konu“ og fór síðan að skamma mig fyrir að vera ekki með „venjulegri strákum eða að minnsta kosti undirbúa mig svolítið fyrst“, gaf mér nokkur ráð um hvernig ég ætti að lifa lífinu og tjáði sig síðan um „undirskipunartilfinningar“ mínar. Hann áleit að kona gæti valið um hvort hún yrði fyrir yfirlæti eða ekki og því væri sökin alfarið mín. Lífið er stutt; ég svaraði ekki bréfinu.

Ungar konur bættu síðan orðinu „hrútskýring“ í orðabókina. Ég vil þó taka fram að ljóst er í ritgerðinni að hrútskýringar eru ekki almennur galli á körlum, bara gatnamót glóruleysis og hroka þar sem sumir karlar nema staðar.

Enn heldur barátta kvenna áfram fyrir því að komið sé fram við þær eins og manneskjur með rétt til lífs, frelsis og þátttöku í menningu og stjórnmálum og stundum er sú barátta ansi hörð. Þegar ég skrifaði neðangreinda ritgerð kom mér á óvart að sjá að það sem byrjar sem minni háttar félagsleg eymd getur orðið að grimmdarlegri þöggun og jafnvel dauða. Í fyrra fengu konur friðarverðlaun Nóbels, tvær frá Líberíu og ein frá Jemen „fyrir friðsamlega baráttu þeirra fyrir öryggi kvenna og fyrir rétti kvenna til fullrar þátttöku í friðarferlinu.“ Sem þýðir að þetta öryggi og full þátttaka er bara takmark.

Þetta er barátta sem á sér stað hjá stríðshrjáðum þjóðum en einnig í svefnherbergjum, borðstofum, skólastofum, vinnustöðum og á götum úti. Og í dagblöðum, tímaritum og sjónvarpi þar sem enn hallar mjög á konur. Jafnvel í tölvuleikjaheiminum sæta konur gegndarlausu áreiti og hótunum um ofbeldi fyrir það eitt að voga sér að vera með. Þetta er að mestu táknrænt ofbeldi. Raunverulegt ofbeldi, öfgafyllsta form þöggunar og tortímingar tekur skelfilegri toll hérlendis þar sem heimilisofbeldi er að baki um 30% allra morða á konum, veldur árlega um 2 milljónum áverka og 18.5 milljónum heimsókna á heilsugæslustöð. Þetta er líka á Tahrir-torgi í Kaíró, ruddalegt kynbundið ofbeldi þar sem þurfti að heimta frelsi og lýðræði.

Að hafa rétt til að mæta og tala er grundvöllur lífs, virðingar og frelsis. Ég er þakklát fyrir, að eftir þöggun á árum áður, stundum harkalega, ólst ég upp við að hafa rödd, aðstæður sem munu alltaf tengja mig við rétt þeirra sem enga rödd hafa.

— Rebecca Solnit, 19 ágúst, 2012

Karlar útskýra hluti fyrir mér

Enn veit ég ekki af hverju við Sallie nenntum að fara í samkvæmið í skógarhlíðinni fyrir ofan Aspen. Þar voru allir eldri en við og virðulega leiðinlegir, nógu gamlir til að við rúmlega þrítugar töldumst ungu dömurnar í partíinu. Húsið var glæsilegt – fyrir þá sem hafa mætur á fjallakofum í stíl Ralph Lauren – stórt lúxushýsi með elgshornum, ótal veggteppum og eldi í arni. Við vorum á útleið þegar gestgjafi okkar sagði: „Nei, verið lengur svo ég geti talað við ykkur.“ Hann var mikilúðlegur náungi sem hafði efnast mjög vel.

Hann lét okkur bíða meðan hinir gestirnir hurfu út í sumarnóttina og lét okkur síðan setjast við aldrað viðarborð og sagði við mig: „Jæja? Mér skilst að þú hafir skrifað nokkrar bækur.“

Ég svaraði: „Reyndar eru þær margar.“

Hann sagði, á sama hátt og maður reynir að fá sjö ára dóttur vinkonu sinnar til að lýsa blokkflautuæfingu: „Og um hvað eru þær?“

Þær voru reyndar um mjög ólík efni, voru orðnar sex eða sjö þegar þetta gerðist en ég fór að segja eingöngu frá þeirri nýjustu þennan sumardag 2003 River of Shadows: Eadweard Muybridge and the Technological Wild West, bókinni minni um tortímingu tíma og rúms og iðnvæðingu hversdagslífsins.

Rétt eftir að ég nefndi Muybridge greip hann fram í fyrir mér: „ Og hefurðu heyrt um afar merkilegu bókina um Muybridge sem kom út í ár?“ Svo föst var ég í skipuðu hlutverki mínu sem unga og einfalda stúlkan að ég var alveg sátt við að íhuga þann möguleika að önnur bók um sama efni hefði komið út um leið og mín og hefði einhvern veginn farið fram hjá mér. Hann var þegar byrjaður að segja mér frá þessari merku bók – með þessum sjálfumglaða svip sem ég hafði svo oft séð á körlum sem hafa orðið og sjá aðeins daufan sjóndeildarhring eigin valds.

Hér vil ég taka fram að í lífi mínu eru margir indælir karlar, ótal ritstjórar sem hafa síðan ég var ung, hlustað á mig og hvatt mig og gefið mig út, ákaflega göfuglyndur yngri bróðir minn, frábærir vinir sem segja má um, eins og klerkinn í Kantaraborgarsögunum sem ég man enn eftir úr tímunum hjá hr. Pelen um Chaucer –„fús var hann til að læra og fús til að kenna.“ Samt eru þessir hinir karlar til. Og Herra Merkikerti malaði áfram um þessa bók sem ég hefði átt að vita af þegar Sallie greip fram í fyrir honum og sagði: „Þetta er bókin hennar.“ Eða reyndi það alla vega.

En hann hélt ótrauður áfram. Hún varð að segja „Þetta er bókin hennar“ þrisvar eða fjórum sinnum áður en hann kveikti loksins á perunni. Og þá, eins og í skáldsögu frá nítjándu öld, varð hann gráfölur.  Að ég var í alvöru höfundur merku bókarinnar sem í ljós kom að hann hafði ekki lesið, bara lesið um í bókafylgiriti New York Times nokkrum mánuðum áður, ruglaði svo þessa snyrtilegu flokka sem veröld hans byggðist á að hann varð orðlaus – eitt andartak, en hélt svo áfram að tala. Þar sem við erum konur, sýndum við þá kurteisi að bíða með að hlæja þar til við vorum komnar úr heyrnarfæri og við höfum eiginlega aldrei hætt.

Ég kann vel við svona atvik, þegar öfl sem eru yfirleitt svo lævís og erfitt að benda á, hlykkjast út úr grasinu og eru álíka augljós og risaslanga sem hefur gleypt belju eða fílskúkur á stofuteppinu.

Þegar River of Shadows kom út, skrifaði einhver lærdómshrokagikkur háðslegt bréf til New York Times til að útskýra að þótt Muybridge hefði bætt ljósmyndatækni hefði hann engin stórafrek unnið á sviði efnafræði ljósmyndunar. Gaurinn vissi ekkert um hvað hann var að tala. Bæði Philip Prodger í frábærri bók sinni um Muybridge og ég höfðum í alvöru rannsakað efnið og gert lýðum ljóst að Muybridge hafði gert svolítið óljóst en áhrifaríkt fyrir votplötutækni þeirra tíma til að hraða henni mikið en bréf frá lesendum sæta ekki staðreyndarýni. Og kannski vegna þess að bókin var um karlmennskuleg efni eins og kvikmyndina og tækni að Karlar Sem Vissu skriðu út úr holum sínum.

Breskur fræðimaður sendi  London Review of Books grein með alls konar smásmyglislegum leiðréttingum og kvörtunum sem voru úr lausu lofti gripnar. Hann kvartaði til dæmis yfir því, að ég hefði, til að upphefja stöðu Muybridge, sleppt forverum hans í tækni eins og Henry R. Heyl. Hann hafði greinilega ekki lesið bókina fram að bls. 202 eða skoðað efnisyfirlitið því Heyl var þar (þótt framlag hans væri ekki mjög mikið). Einhver af þessum körlum hlýtur að hafa dáið úr smán en ekki nógu mikið á opinberum vettvangi.

Fótfesturök þöggunar

Já, svona karlar hnýta líka í bækur eftir karla og fólk af báðum kynjum birtist á viðburðum til að halda langlokur um hluti sem skipta ekki máli og samsæriskenningar en alger þrasgirni og sjálfsöryggi fávitanna er, samkvæmt minni reynslu, kynbundin. Karlar útskýra hluti fyrir mér og öðrum konum, og þá skiptir engu máli hvort þeir viti um hvað þeir eru að tala. Sumir karlar.

Allar konur vita hvað ég á við. Það er forsendan sem gerir öllum konum á öllum sviðum erfitt fyrir; sem kemur í veg fyrir að konur taki til máls og að á þær sé hlustað þegar þær þora; sem kúgar ungar konur til þagnar með því að gefa til kynna, líkt og áreitni á götum úti gerir, að þetta sé ekki þeirra veröld. Þetta venur okkur á að efast um okkur og hafa hemil á okkur, á sama hátt og þetta eflir forsendulausa ofurtrú karlanna.

Mér kæmi ekki á óvart ef hluti af ferli bandarískra stjórnmála síðan 2001 hefði t.d. mótast af því að hafa ekki hlustað á Coleen Rowley, konuna hjá FBI, sem varaði snemma við Al-Qaeda og þetta ferli var sannarlega mótað af stjórn Bush þannig að það varð ekki ráðið í neitt, þar á meðal að Írak hefði engin tengsl við Al-Qaeda og engin gereyðingarvopn eða að stríðið yrði ekki „létt verk og löðurmannlegt“. (Jafnvel karlkyns sérfræðingar komust ekki inn í virki sjálfumgleðinnar).

Hroki gæti tengst stríðinu á einhvern hátt en þetta heilkenni er stríð sem næstum hver einasta kona upplifir daglega, einnig innri barátta, trú á eigin óþarfa, boð um þöggun, og þótt ég hafi átt þokkalegan farsælan feril sem rithöfundur (þar sem ég hef beitt rannsóknum og staðreyndum rétt) er ég ekki alveg laus við það.  Það kom jú þetta augnablik þar sem ég var til í að láta Herra Merkikerti og skefjalaust sjálfstraust hans valta yfir óstöðugri fullvissu mína.

Gleymum ekki að ég hef fengið miklu meiri staðfestingu á rétti mínum til að hugsa og tala en flestar konur og ég hef lært að ákveðinn sjálfsefi er gott tæki til að leiðrétta, skilja, hlusta og taka framförum – þótt of mikið sé lamandi og algert sjálfstraust leiðir af sér hrokafulla fávita eins og þá sem hafa stjórnað okkur síðan 2001. Til er góður millivegur milli þessara póla sem kynjunum hefur verið ýtt að, notalegt miðbaugsbelti þar sem er gefið og tekið við og þar sem við ættum öll að mætast.

Öllu öfgafyllri útgáfur af stöðu okkar er til dæmis í sumum Miðausturlöndum þar sem vitnisburður konu hefur ekkert lagalegt gildi; og þar sem kona getur ekki borið vitni um að henni hafi verið nauðgað nema karlmaður hafi verið vitni að því og vilji andmæla gerandanum. Það gerist sjaldan.

Trúverðugleiki er grundvöllur þess að komast af. Þegar ég var mjög ung og nýfarin að skilja femínisma og nauðsyn hans, átti ég kærasta og frændi hans var kjarnorkueðlisfræðingur. Ein jólin sagði hann frá því eins og hverri annarri gamansögu hvernig kona nágranna hans í sprengjugerðarúthverfinu hefði hlaupið út á götu um miðja nótt og öskrað að maðurinn hennar ætlaði að drepa hana. „Hvernig vissir þú“ spurði ég „að hann var ekki að reyna að drepa hana?“ Hann útskýrði þolinmóður að þetta væri virðulegt miðstéttafólk. Því væri þessi skýring um meinta morðtilraun eiginmannsins ekki nógu trúverðug skýring á því að hún hefði flúið út um miðja nótt og æpt að maður hennar ætlaði að drepa hana. Að hún væri geðveik, hins vegar….

Jafnvel að fá nálgunarbann – tiltölulega nýtt lagaúrræði – krefst trúverðugleika til að sannfæra dómstóla um að einhver gaur sé hættulegur og síðan að fá lögregluna til að fylgja því eftir. Nálgunarbann virkar hvort sem er oft ekki. Ofbeldi er ein leið til að þagga niður í fólki, til að neita rödd þeirra og trúverðugleika, til að staðfesta rétt þinn til að stjórna tilverurétti þeirra. Hérlendis eru á hverjum degi þrjár konur myrtar af maka eða fyrrverandi maka. Þetta er ein aðaldánarorsök þungaðra kvenna í USA.  Femínísk barátta fyrir því að gefa nauðgun, stefnumótsnauðgun, hjónabandsnauðgun, heimilisofbeldi og kynferðislegri áreitni á vinnustað lagalega stöðu sem afbrot hefur kjarnast um það að gera konur trúverðugar og heyranlegar.

Ég vil trúa því að konur hafi öðlast stöðu manneskja þegar farið var að taka svona gerðir alvarlega, þegar stóru hlutirnir sem stöðva okkur og drepa voru teknir fyrir í lögum eftir miðja sjötta áratuginn; nokkru eftir að ég fæddist. Og ef einhver vill halda því fram að kynferðislegar ógnanir á vinnustað séu ekki lífshættulegar, er rétt að hafa í huga að Maria Lauterbach liðþjálfi, 20 ára, virðist hafa verið myrt af háttsettari starfsfélaga hennar á nýliðnum vetri meðan hún beið þess að geta borið vitni um að hann nauðgaði henni. Brunnar leifar barnshafandi líkama hennar fundust í eldstó í bakgarði hans í desember.

Að vera sagt, afdráttarlaust, að hann viti hvað hann er að tala um en hún ekki, án tillits til þess hversu lítill þáttur það er af samræðum hverju sinni, varðveitir ljótleika þessarar veraldar og deyfir ljós hennar. Eftir að bókin mín Wanderlust kom út árið 2000, varð ég færari um að láta ekki þjösnaskap hnekkja skoðunum mínum og túlkunum. Tvisvar á þessum tíma andmælti ég framkomu karls, bara til að fá yfir mig að ég væri hlutdræg, með hugaróra, yfirspennt, óheiðarleg – í hnotskurn, kona. Að hafa opinbera stöðu sem söguritari hjálpaði mér að standa á mínu en fáar konur fá slíka hvatningu og milljarðar kvenna í þessum sex milljarða fólks heimi hljóta að fá að heyra að þær séu ekki trúverðugar til frásagnar af eigin lífi, að sannleikurinn tilheyri þeim ekki, hvorki nú né nokkurn tíma. Þetta gengur lengra en hrútskýringar almennt, en þetta er hluti af sama eyjaklasa yfirlætisins.

Enn útskýra karlar hluti fyrir mér. Og enginn karl hefur beðið mig afsökunar á að útskýra, með röngum hætti, hluti sem ég veit og þeir vita ekki. Ekki enn, en samkvæmt tryggingafræðilíkum kann ég að eiga rúm 40 ár ólifuð, svo það gæti gerst. En ég reikna ekki með því.

Konur í baráttu á tvennum vígstöðvum

Nokkrum árum eftir fíflið í Aspen var ég stödd í Berlín til að halda fyrirlestur þegar marxíski rithöfundurinn Tariq Ali bauð mér til kvöldverðar þar sem einnig voru karlrithöfundur og túlkur og þrjár konur nokkru yngri en ég en þær voru bljúgar og sögðu fátt yfir borðum. Tariq var frábær. Kannski pirraði það túlkinn að ég var hógvær í samræðunum en þegar ég sagði eitthvað um hvernig Women Strike For Peace, mjög sérstakur og lítt þekktur andófshópur gegn kjarnorku og stríði, stofnaður 1961, átti þátt í að fella rannsóknarnefnd þingsins um andbandarískt atferli, HUAC, setti Herra Merkikerti II upp hæðnissvip. Hann staðhæfði að HUAC hefði ekki verið til snemma upp úr 1960  og enginn kvennahópur hefði átt slíkan hlut í falli nefndarinnar. Fyrirlitning hans var svo lamandi, sjálfstraust hans svo herskátt að rökræður við hann virtust ógnvekjandi æfing í tilgangsleysi og byði bara upp á frekari móðganir.

Þarna hafði ég skrifað níu bækur, þar á meðal þá sem byggði á frumgögnum og viðtölum um Women Strike For Peace. En útskýrandi karlar gera enn ráð fyrir,  samkvæmt einhverri klámfenginni frjóvgunarlíkingu, að ég sé tómt hol sem fylla beri með visku þeirra og þekkingu. Freudisti gæti sagst vita hvað þeir hafa og mig skortir, en greind er ekki staðsett í klofinu – jafnvel þó maður geti skrifað langa ómþýða setningu í anda Virginíu Woolf um hófstillta kúgun kvenna í snjóinn með typpinu. Heima á hótelinu gúglaði ég og komst að því að Eric Bentley í afgerandi sögu sinni af þingnefndinni fullyrðir að Women Strike For Peace hafi „rekið náðarhöggið í falli nefndarinnar.“ Skömmu eftir 1960.

Ég byrjaði grein fyrir Nation með þessum samskiptum okkar, að hluta til sem kveðju til eins ógeðfelldasta hrútskýrarans: Ef þú lest þetta, þá ertu kýli á andliti mannkynsins og hindrun við menningarþróun. Skammastu þín.

Baráttan við karlana sem útskýra hluti fyrir mér hefur bugað margar konur af minni kynslóð, af næstu kynslóð sem við höfum svo ríka þörf fyrir, hér og í Pakistan og Bólivíu og á Java, að ógleymdum þeim ótal konum sem voru á undan mér og var ekki hleypt inn á rannsóknarstofuna, eða bókasafnið, eða inn í samtalið, eða að byltingunni, eða jafnvel í flokk manneskja.

Hópurinn Women Strike for Peace var stofnaður af konum sem höfðu fengið nóg af því að hella upp á kaffið, sjá um að vélrita og hafa enga rödd eða áhrifahlutverk í andófshreyfingunni gegn kjarnorku eftir 1950. Flestar konur berjast á tvennum vígstöðvum, annars vegar fyrir hverju því sem meint umræðuefni er og hins vegar einfaldlega fyrir réttinum að tala, að hafa hugmyndir, að hljóta viðurkenningu á því að búa yfir staðreyndum og sannleika, að hafa gildi, að vera manneskja. Ástandið hefur vissulega batnað en þessari baráttu lýkur ekki meðan ég lifi. Ég berst enn, fyrir sjálfa mig auðvitað, en líka fyrir allar yngri konurnar sem hafa eitthvað að segja, í von um að þær fái að segja það.

Þýðing: Gísli Ásgeirsson

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.