Orðræða um þungunarrof

Eva Dagbjört Óladóttir, bókmenntafræðingur og þýðandi.

Það er greinilegt eftir umræðu síðustu mánaða að það setur ugg að mörgum við tilhugsunina um greiðari aðgang kvenna að þungunarrofi, sem og að þungunarrofi seinna á meðgöngu. Þá eru fyrstu viðbrögð oft yfirlýsingar um nauðsyn þess að „vernda börnin“. Við þessar óskir um vernd barna bætir fólk svo gjarnan skilyrðum eftir því hvar það stendur á stjórnmálarófinu, allt frá „…en auðvitað eiga konur að ráða þessu sjálfar upp að vissu marki“ (en á þeim pól var ég sjálf þegar frumvarpið bar fyrst á góma) yfir í „…af því að lífið hefst við getnað“. Það er ein af grunnþörfum mannskepnunnar að vernda börnin okkar og segir gott eitt um samfélagið að fyrsta hugsun fólks sé að vernda þá sem minnst mega sín en við nánari athugun virðist mér að þetta, allt að því ósjálfráða, viðbragð byggist á tveimur grunnhugmyndum og að hvorug þeirra standist.

Fyrri grunnhugmyndin er að yfir höfuð sé um börn að ræða, frekar en tilhugsunina eða hugmyndina um börn. Ég ætla ekki að eyða orðum í hana þar sem aðrir hafa afbyggt hana ítrekað og þrusuvel. Ég mun heldur ekki tíunda hér þau rök sem fagfólk í heilbrigðisgeiranum og innan félagsþjónustunnar hefur sett fram annars staðar og sem ég vona innilega að vegi þyngra en klór í bakkann frá þeim sem hafa, þegar að þessum málaflokk kemur, litla marktæka þekkingu fram að færa. Ég vil hins vegar benda á að fjöldi sérfræðinga á sviði læknisfræði og félagsfræði kom að mótun þessa frumvarps og styður það. Þegar fagfólk sem hefur eytt ævinni í að rannsaka tilurð og þróun mannslíkamans í móðurkviði, sem og samfélagskerfið sem þungaðar konur tilheyra, telur ákveðinn vikufjölda (í þessu tilfelli 22) ásættanleg tímamörk ætla ég, bókmenntafræðingurinn, sjálfri mér ekki haldbetri þekkingu á sviðinu.

Seinni grunnhugmyndin er sú að þeir fósturvísar eða fóstur sem um ræðir þurfi á vernd okkar, samfélagsins, að halda. Hana vil ég ræða út frá mínu þekkingarsviði, orðræðugreiningu. Fyrir hverjum á að vernda þessa fósturvísa eða fóstur? Ég fæ ekki betur séð en að það eigi að vernda þá fyrir konunni sem ber þá undir belti og sem gæti ákveðið að rjúfa þungun. Það hlutverk sem þeirri konu er þannig úthlutað í orðræðunni er mjög afgerandi. Hún er ekki einstaklingur sem tekst á við breytingu sem verður á henni sjálfri (eitt af eggjum hennar frjóvgast) heldur verður hugvera hennar (e. subjectivity) að utanaðkomandi afli sem gæti haft neikvæð áhrif á þungunarferlið og sem verður að vernda þungunina fyrir. Hún er klofin i tvennt, í konuna annars vegar og þungunina hins vegar. Þar sem þungunina er ekki hægt að aðskilja frá líkamanum er hann þess í stað skilinn frá konunni. Til verður konan annars vegar og hins vegar líkaminn/þungunin. Þannig verður hinn þungaði líkami sjálfstætt fyrirbæri, firrt frá konunni sem skal þó hætta lífi sínu í framvindu meðgöngunnar. Þegar þungunin/líkaminn stendur utan við konuna gerist tvennt: Annars vegar missir konan yfirráðarétt yfir eigin líkama og þessu ferli sem honum er samofið, og hins vegar er yfirráðarétturinn færður til samfélagsins sem á allt í einu meiri hagsmuna að gæta (hér er jú nýr þjóðfélagsþegn að veði) en konan sem ekki er lengur hluti af hinum þungaða líkama. Þetta er útsmogið og snyrtilega unnið orðræðulegt valdarán samfélagsins, framið gagnvart hverri einustu þungaðri konu.

En konan verður ekki aðeins þungun sinni óviðkomandi heldur verður hún, eins og áður segir, hættulegt utanaðkomandi afl. Hún verður höggormurinn sem vomir yfir hverri þungun með vígtennurnar beraðar, tilbúinn að greiða samfélaginu það reiðarslag að rjúfa hina dýrmætu þungun af illmennsku sinni og sjálfselsku einni saman. Hún unnir okkur, samfélaginu, ekki að eignast barnið okkar. Hún lætur eins og hún eigi að ráða þessu.

Hvers vegna er konan svona hættuleg? Í almennri orðræðu er konunni oft úthlutað hlutverk hins hættulega. Hún táldregur karla, lýgur upp á þá, svíkur út úr þeim fé, bolar þeim úr starfi og út úr fjölskyldunni, einungis til að svala annarlegum hvötum síns rotna hjarta. Þessar ímyndir hinnar hættulegu konu virðast oft koma upp þar sem körlum þykir að valdi sínu vegið. Hún er holdgervingur ótta feðraveldisins og brýst fram þar sem það hefur takmarkaða stjórn á aðstæðum. Uppruni konunnar með svarta hjartað er auðvitað flókinn og margþættur, en fáum sem hafa fylgst með ferli hennar í sagnaheimi mannfólksins síðustu árþúsund kemur á óvart að hitta hana fyrir hér, þar sem til stendur að veita konunni vald yfir líkama sem feðraveldið telur sig eiga tilkall til.

En hvaða máli skiptir það þótt ákveðin orðaleikfimi sé stunduð í umræðu um lagafrumvarp? Hvaða máli skiptir þótt ég bendi á birtingarmyndir þessarar leikfimi hér? Jú, öll ákvarðanataka byggir á umræðu og öll umræða byggir á orðræðu. Orðræðan er byggingareiningar hugarheims okkar. Orðræðan er það sem allir vita að er satt og rétt, það sem við leggjum sameignilega til grundvallar skoðanaskiptum okkar.

Þetta teljum við okkur vita: Konan og þungunin eru aðskildar. Þetta teljum við okkur vita: Konan með svarta hjartað er alls staðar á sveimi.

Vegna þess að við teljum okkur vita þetta trúum við strax að fjöldi kvenna noti þungunarrof sem getnaðarvörn. Þess vegna trúum við að konur fari í þungunarrof af duttlungasemi eða leti. Þess vegna getum við ekki skilið að kona sem íhugar þungunarrof tekur ákvörðun um eigið heilsufar og líkama. Við getum ekki alveg trúað að hún eigi lengur þennan líkama. Þess vegna finnum við ekki til með konu sem þarf að ganga í gegnum þetta erfiða inngrip. Þess vegna trúum við ekki að kona geti tekið rökfasta og vandlega yfirvegaða ákvörðun um þungunarrof. Þess vegna trúum við ekki að kona sem fer í þungunarrof hafi tekið rétta ákvörðun. Þess vegna trúum við ekki að kona sem velur að fara ekki í þungunarrof hafi tekið rökrétta og yfirvegaða ákvörðun. Hún fékk bara ekki af sér að fremja slík svik. Þess vegna trúum við ekki að kona sem fór í þungunarrof og sér ekki eftir því sé alveg mennsk. Hún er höggormurinn. Þess vegna trúum við að ef þungunarrof seinna á meðgöngu verði leyft þyrpist kasóléttar konur með lífvænleg fóstur inn á spítala að krefjast þungunarrofs af því þær nenni ekki að vera svona feitar lengur. Þess vegna trúum við ekki að kona sem fer í þungunarrof seinna á meðgöngu hafi mögulega geta tekið rétta ákvörðun. Þess vegna treystum við konum ekki til að taka rétta ákvörðun. Þess vegna treystum við konum ekki.

Goðsögnin um hættulegu konuna með svarta hjartað liggur að baki ákvörðunartöku okkar á fjölmörgum sviðum. Hér spilar hún dúett með þeirri orðræðu sem firrir konuna eigin líkama á meðgöngu og eignar samfélaginu þungunina. Hina hættulegu konu sem vill fá útrás fyrir sitt illa eðli með því að binda endi á þungun sem hún á ekki rétt til verður að hemja með ströngum lögum. Til að vernda samfélagið allt.

Þessi pistill er skrifaður til að biðja bæði löggjafann og fólkið á götunni að hafa hugfast að skoðanir okkar verða aldrei til í tómarúmi. Þær eru byggðar á flóknu samspili nýrra og gamalla hugmynda, persónulegrar sögu, gamals vana, nýrrar þekkingar, rökleiðslu og tilfinninga. Í því samspili gegnir ríkjandi orðræða lykilhlutverki og sá sem ætlar að taka ábyrga og ígrundaða ákvörðun verður að vera meðvitaður um áhrif hennar á eigin hugsun.

 

4 athugasemdir við “Orðræða um þungunarrof

  1. Þvílík umræða! Tekur ekkert á lífi fóstursins, fórnarlambsins, sem til stendur að eyða!

    Og af hverju talar höf. um „þessa fósturvísa“? Fósturvísir (embryo) er í móðurlífinu til 8. viku, eftir það talað um fóstur (fetus) þar og síðar barn. FRUMVARPIÐ sem nú er rætt um er með nýja stefnu um 16-22ja vikna fóstur, í fullkominni mannsmynd og komin ekki seinna en 20 vikna með fullkomið sársaukaskyn. Allt í einu á, að ósk Svandísar og læknateymis og allrar ríkisstjórnarinnar, að vera frjálst að drepa öll fóstur/ófædd börn á þessu tímaskeiði „að beiðni“ hinnar þunguðu konu!
    Lesið hér um fóstrið, líf þess og fegurð og hæfileika, áður en þið afskrifið veruleika þess í vanþekkingu, einn fremsti læknir heims hefur orðið: https://lifsrettur.blog.is/blog/lifsrettur/entry/1384940/

    • Sæll, Jón, og takk fyrir málfarsábendinguna. Mér finnst einmitt mikilvægt að það sé skýrt að sjálfsákvörðunarréttur þungaðra kvenna ætti að standa óháð allri orðræðuleikfimi og hef því beðið ritstjórn að bæta orðunum „eða fóstur“ við orðið „fósturvísir“. Bkv

  2. Sæl Eva Dagbjört.
    Ég held ekki að spurningin um fóstureyðingar hafi nokkurn skapaðan hlut með réttindi kvenna að gera. Ég skal útskýra hvers vegna ég segi það:
    Eina ástæðan fyrir því að deilt er um fóstureyðingar, og eina ástæðan fyrir því að ríkisvaldið telur sig þess umkomið að takmarka aðgengi að þeim, er sú, að það ríkir um það veruleg óvissa hvort rétt sé að líta á fóstrið sem mannlegan einstakling, með þau réttindi sem slíkum einstaklingum tilheyra, eða ekki. Væri þessi óvissa ekki fyrir hendi væri ekki um neinn siðferðilegan eða siðfræðilegan ágreining að ræða.
    Það flækir svo málið enn frekar, að fóstur er ekki endilega sama fyrirbærið allan meðgöngutímann. Tveggja vikna fóstur er ekki endilega það sama og tuttugu vikna fóstur. Enn fremur má velta fyrir sér, og það hafa fræðimenn á sviði siðfræðinnar raunar gert, hvort einhver grundvallarmunur sé á fóstri á síðari hluta meðgöngu, og fæddu barni. Sumir fræðimenn vilja raunar meina að persónuréttur myndist alls ekki fyrr en töluvert eftir fæðingu. Aðrir telja hins vegar að hann myndist meðan á meðgöngunni stendur.
    Spurningin um þetta er siðferðilegs eðlis. Henni verður aldrei svarað af læknisfræðinni. Hún snýst um eðli þessarar lífveru sem þroskast í móðurlífi konunnar og um það hvort þessi lífvera hefur rétt til lífs eða ekki.
    Þegar taka þarf afstöðu til löggjafar, eða breytinga á löggjöf, er útilokað annað en að líta til þessarar siðferðilegu spurningar, og löggjöfin verður að mótast af því hvernig henni er svarað. Það tjóir ekki að skauta bara framhjá ágreiningsefninu. Líkt og ég sagði í upphafi: Spurningin um það hvort fóstrið hefur lífsrétt eða ekki er eina ástæðan fyrir því að deilt er um fóstureyðingar. Hafi fóstrið rétt til lífs er vitanlega tómt mál að tala um rétt foreldra til að ákveða, eftir á, hvort þeir vilji eiga barnið eða rétt konunnar til að fjarlægja það úr líkama sínum: Spurningin um lífsrétt kemur eðli málsins samkvæmt á undan spurningum um önnur réttindi. Hafi fóstrið hins vegar ekki rétt til lífs er algerlega ástæðulaust að setja neinar hömlur við fóstureyðingum. Grundvallaratriðið í þessari umræðu er að við nálgumst viðfangsefnið af auðmýkt gagnvart þeirri staðreynd að við vitum í raun ekkert um það hvort rétt sé að ætla fóstrinu persónuréttindi eða ekki. Ábyrgar ákvarðanir í þessu efni verða að byggja á skilyrðislausri auðmýkt gagnvart þeirri erfiðu staðreynd að við vitum í raun ekkert um það hvort fóstureyðing er manndráp eða bara sambærileg við brottnám líffæris. Erfiðar spurningar eigum við ekki að þagga niður heldur verðum við að horfast í augu við þær af heiðarleika og kjarki, jafnvel þótt það kunni á stundum að vera óþægilegt.

  3. Það þarf að svara þessu innleggi Þorsteins rækilega. Hann hefur þarna umræðu með réttu á vissum nótum, talar um sitthvað skynsamlega, en bregzt svo í hlutverkinu, er á líður, og gerir m.a. þau mistök að láta fóstrið — óneitanlegt mannlegt líf — ekki njóta neins vafa sem hann þykist sjálfur geta búið til. Þegar tími gefst til, vil ég kryfja þessar rökfærslur hans betur og leiða það, sem réttara er, í ljós. —En á meðan þakka ég Evu Dagbjörtu svarið; vitaskuld hélzt henni ekki á því að smætta fóstur/ófædd börn niður í „fósturvísa“.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.