Kynjajafnrétti í íþróttum – hvað þarf að breytast?

Sigríður Finnbogadóttir skrifar:

Íþróttahreyfingin á Íslandi stendur frammi fyrir stóru verkefni, að  auka kynjajafnrétti í íþróttum. Frá því að íþróttakonur birtu reynslusögur sínar í #meetoo vakningunni hefur verið hávær krafa frá iðkendum, foreldrum og samfélaginu um að jafna beri stöðu kvenna í íþróttum og vinna þurfi gegn kynbundnu ofbeldi og kynferðislegri áreitni sem þar á sér stað. Ólík staða kynjanna í íþróttum er margþætt og flókið vandamál, aukið jafnrétti í íþróttum felst meðal annars í því að:

  • Auka þátttöku kvenna og jaðarsettra hópa í íþróttum
  • Hafa kynjasjónarmið í huga við alla ákvarðanatöku og stefnumótun
  • Auka kynjajafnrétti í þjálfunarstöðum
  • Auka hlutdeild kvenna í stjórnum og stjórnunarstöðum innan íþróttahreyfingarinnar
  • Koma í veg fyrir og uppræta kynbundið ofbeldi í og í kringum íþróttir
  • Vinna gegn staðalímyndum um hlutverk kynjanna í íþróttum og í umfjöllum um íþróttir
  • Auka hlutdeild kvenna í fjölmiðlaumfjöllun um íþróttir
  • Skoða hvort það eru einhver gildi eða norm við líði í stofnanamenningunni eða skipulaginu sem viðhalda mismun milli kvenna og karla

Kynja- og félagsfræðingar hafa bent á að íþróttir hafi alla eða mestalla 20. öldina verið stofnun í samfélaginu þar sem kúgun kvenna var liðin og upphafin. Íþróttir voru valdasvið karla og lengi vel var konum ekki leyft að taka þátt. Í íþróttum er gjarnan lögð mikil áhersla á karllæg gildi eins og líkamlegan styrk, kraft, aga, hörku, samkeppni, áhættutöku, stigveldi og árásarhneigð. Í íþróttum er áhersla á að sýna hörku, vinna saman, vera bestur og fórna sér fyrir liðið sitt. Menning, hegðun og samskipti innan íþrótta eru því oft á forsendum karlmennskunnar. Það sem er kvenlægt er talið minna virði en það sem er karllægt. Íþróttir verðlauna á kerfisbundinn hátt öfgakenndri karlmennsku. Þrátt fyrir að konur hafi öðlast aðgengi að heimi íþróttanna þá hefur það ekki breytt áherslunni á karlmannleg gildi og viðmið. Kvenkyns iðkendur þurfa á sama tíma að gangast við karlmennsku og kvenleika. Sársauki, þreyta og tilfinningar er oft séð sem veikleiki sem veldur því að einstaklingar harka af sér og tjá sig ekki um þessa hluti.

Sögur íþróttakvenna undir myllumerkinu #metoo varpa ljósi á kerfisbundið misrétti sem konur í íþróttum verða fyrir. Í sögunum má greina andrúmsloft og menningu þar sem litið er á konur sem annars flokks iðkendur, boðflennur, og oft á tíðum er viðhorfið til þeirra sem iðkenda neikvætt og erfitt að lýsa því sem öðru en kvenfyrirlitningu. Sögurnar lýsa kynferðislegri og kynbundinni áreitni, stríðni, kynbundnu ofbeldi, nauðgunum og öðru kynjamisrétti innan heims íþróttanna. Gerendurnir eru allir karlkyns og eru þeir meðal annars þjálfarar, leikmenn, sjálfboðaliðar og dómarar. Áreitnin og ofbeldið á sér stað innan og utan vallar og eru sögurnar úr ýmsum íþróttagreinum, bæði hóp og einstaklingsíþróttum. Það er erfitt og sársaukafullt að horfast í augu við að heimur íþróttanna, sem við kjósum flest að líta á jákvæðum og uppbyggilegum augum, geti leyft svona að viðgangast. Þetta er samt raunveruleiki sem þarf að horfast í augu við og grípa til aðgerða.

Íþróttafélögum er lagalega skylt að vinna að kynjasamþættingu og að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi. Í 23. grein laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10 frá 2008 kemur fram að kynjasamþættingar skuli gætt við alla stefnumótun þar á meðal í íþrótta- og tómstundastarfi. Í  22. gr. jafnréttislaga er fjallað um kynbundið ofbeldi, kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni. Þar kemur meðal annars fram að yfirmenn félagasamtaka skuli gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk, nemar og skjólstæðingar verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni á vinnustað, stofnun, í félagsstarfi eða skólum. Reykjavíkurborg hefur jafnframt sett inn í þjónustusamninga við Íþróttabandalag Reykjavíkur og íþróttafélögin að þau eigi að hafa virka jafnréttisstefnu og gæta þess í öllu starfi að taka tillit til beggja kynja. Jafnframt er félögunum gert skylt að hafa sett sér siðareglur og fylgja mannréttinda- og forvarnarstefnu Reykjavíkurborgar.

Með samþættingu jafnréttissjónarmiða er það gert að viðteknu verklagi að bæta stöðu ólíkra hópa sem hætt er við mismunun með markvissum og kerfisbundnum hætti í hvert sinn sem stefna er mótuð eða ákvörðun tekin. Mikilvægur þáttur í kynjasamþættingu er að skapa andrúmsloft innan félaganna þar sem jafnrétti ríkir og iðkendur eru öruggir. Jafnréttisstefnur og jafnréttisáætlanir eru mikilvægur hluti af þeirri vegferð. En það er ekki nóg að setja sér stefnu, það þarf líka að iðka hana og framfylgja. Flest íþróttafélög í Reykjavík hafa tekið upp jafnréttisstefnu sem ÍSÍ og ÍBR settu upp sem leiðbeinandi ramma, án þess að aðlaga stefnuna að starfsemi félagsins. Í úttekt sem Reykjavíkurborg gerði á þremur hverfisíþróttafélögum árið 2016 kemur fram að þó að félögin væru formlega með jafnréttisstefnur þá væru þær ekki virkar. Það er mikilvægt að jafnréttisstefnur og áætlanir séu virkur hluti af daglegri starfsemi íþróttafélaganna og í þeim sé skilgreind verkaskipting á tilteknum aðgerðum sem er svo fylgt eftir.  Einnig er mikilvægt að jafnréttisstefnur séu kynntar iðkendum, foreldrum, þjálfurum og starfsfólki og unnið sé að fræðslu hvað varðar jafnréttismál í víðum skilningi innan félagsins. Kynjasamþætting snýst ekki eingöngu um að jafna kynjahlutföll heldur að aðlaga starfsemina að þörfum ólíkra hópa. Ávarpa þarf víðara samhengi hlutanna eins og samfélagsleg viðmið, valdatengsl og forréttindi. Það þarf að vinna markvisst gegn þeim venjum sem viðhalda ójafnrétti og bregðast þarf við þegar greining leiðir í ljós misrétti.

Íþróttir eru frábær vettvangur til að byggja upp félagsfærni, sjálfstraust og leiðtogafærni sem nýtist á öllum sviðum samfélagsins. Rannsóknir sýna einnig að forvarnargildi íþrótta er mikið og þær stuðla að bættri heilsu og betri námsárangri. Það er því samfélaginu mikilvægt að sem flestir taki þátt. Það er mikilvægt að vinna að kynjasamþættingu innan íþróttahreyfingarinnar og samþætta kynja- og jafnréttissjónarmið á öllum sviðum íþrótta bæði hvað varðar iðkendur, foreldra, þjálfara, stjórnendur, starfsfólk og sjálfboðaliða. Ég hvet öll íþróttafélög til að setja upp kynjagleraugun og skoða hvort það sé mögulega eitthvað sem þau geta gert betur í sínu starfi til að samþætta jafnréttissjónarmið inní starf íþróttafélagsins og koma í veg fyrir að iðkendur verði fyrir mismunun eða kynferðislegri áreitni eða ofbeldi innan íþróttarinnar. Jafnréttisstefna á blaði er eingöngu byrjunin, það þarf að iðka stefnuna og þau gildi og viðmið sem liggja til grundvallar stefnunni þurfa að vera í hávegum höfð innan félagsins.

Höfundur er íþróttafræðingur og stundar meistaranám í stjórnun og stefnumótun og diplómanám í hagnýtingu jafnréttisfræða.

Ein athugasemd við “Kynjajafnrétti í íþróttum – hvað þarf að breytast?

  1. Það þarf að banna allar íþróttir sem karlar hafa yfirburði í. Annars vinna bara trans konur. Á maður kannski að segja trans karlar eða bara það. Æ ég veit ekki þetta er svo ruglingslegt.
    Kveðja. Donald Dump

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.