Mikilvægt fordæmi Emmu Thompson

Emma-Thompson-e1551197274778Emma Thompson sagði upp vinnu sinni við myndina Luck á dögunum og ritaði í framhaldinu bréf til teiknimyndafyrirtækisins Skydance um ástæður sínar. Í bréfinu leggur hún fram nokkrar spurningar sem varða ábyrgð og skyldur valdafólks í kvikmyndabransanum og hvernig bregðast skuli við metoo-hreyfingunni.

Ástæðan uppsagnar Emmu Thompson er að John Lasseter var ráðinn að verkefninu, en hann var nefndur í #metoo byltingunni og gekkst sjálfur við „ósæmilegri hegðun“ og vék úr vinnu sinni hjá Disney Pixar 2017. Í ráðningarsamningi hans hjá Skydance var hann látinn skrifa undir skjal með reglum varðandi framkomu við samverkafólk, en Emma Thompson spyr í bréfi sínu hvernig þessi viðsnúningur gangi upp:

  • Af hverju ætti kona að vilja vinna með karli sem hefur þuklað á konum áratugum saman ef eina ástæðan fyrir því að hann káfar ekki á henni er að áskilið er í samningi hans að hann skuli hegða sér „eins og fagmaður“?
  • Hvers vegna ættu konur að telja að virðingin sem tiltekinn karl (sem hefur sýnt konum vanmat og vanvirðingu í áratugi) gæti mögulega sýnt þeim, sé nokkuð annað en leikur sem honum er uppálagt að leika af þjálfaranum, af þerapistanum og vegna þess að það stendur í samningnum? Skilaboðin virðast vera „Ég er að læra að virða konur, viltu gjöra svo vel að vera þolinmóð meðan ég vinn í því. Þetta er ekki auðvelt.“
  • Ýmislegt hefur verið sagt um að John Lasseter hafi verið gefið annað tækifæri. En honum ku vera greiddar milljónir dollara fyrir að fá þetta annað tækifæri. Hversu háa greiðslu á starfsfólk Skydance að fá til að GEFA honum þetta annað tækifæri?
  • Ef John Lasseter stofnar eigið fyrirtæki, mun hverjum starfsmanni vera frjálst að velja hvort gefa skuli honum annað tækifæri eða ekki. En starfsfólk Skydance sem getur ekki hugsað sér að gefa honum þetta annað tækifæri, neyðist til að láta sér líða illa í vinnunni, eða missa hana. Hefði John Lasseter ekki frekar átt að missa vinnuna SÍNA, ef starfsfólk er ekki tilbúið að gefa honum annað tækifæri?

Emma Thompson segist harma það að geta ekki unnið með leikstjóra Luck, „hinum dásamlega Alessandro Carloni“ en hún telur sér ekki fært annað en að rísa upp. „Ef ég bregst ekki við, hver mun þá gera það?“. Hún segist gera sér fulla grein fyrir því að breytingar gerist ekki á einni nóttu,  hvað þá uppbrot hinnar aldagömlu hefðar að „karlar hafi umráðarétt yfir kvenlíkamanum, hvort sem konum líki það betur eða verr“.

Bréf Emmu Thompson birtist í fullri lengd í LA Times, sem segir að hún hafi sent þeim það. Líkt og segir í lok greinarinnar sem fylgir bréfinu, er brottganga hennar frá mynd sem hana langaði virkilega til að vinna við, skýr yfirlýsing um að „nei“ þýði „nei“ og að það þurfti að lýsa því yfir með orðum sem fólk í Hollywood getur skilið. Hún segist og gera sér grein fyrir því að ekki hafi allar konur sama tækifæri eða sömu áhrif og hún, og því sjái hún sér ekki annað fært en að nýta sér þetta og standa þannig og styðja við alla þolendur.

Fólk sem brýtur af sér, fær oftast dóm og afplánar hann, iðrast jafnvel gerða sinna og kemur síðan aftur út í samfélagið. Það verðskuldar nýtt tækifæri og fær það yfirleitt. En karlar eins og John Lasseter eru ekki dæmdir, iðrast ekki, neita staðfastlega að hafa gert eitthvað alvarlegt af sér, þeir hafi bara misstigið sig örlítið. Þeir sleppa með að fara frá störfum í nokkurn tíma en koma síðan aftur. Okkar #metoo-karlar eru margir enn að störfum og láta eins og ekkert hafi í skorist. Sumir bregða sér frá eða færa sig til.

Spyrja má hvernig við ætlum að bregðast við. Ætlum við að láta fenna í þessi spor eins og önnur, láta tímann lækna sárin og hjálpa þolendunum að gleyma og sætta sig við orðinn hlut? Er það nóg? Eða ættu íslenskar konur sem hafa áhrif og hafa tækifæri til að stíga upp, kannski að spyrja sig: „Hvað hefði Emma Thompson gert í mínum sporum?“

Þýðing og samantekt: Kristín Jónsdóttir

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.