Gaslýsing

gaslysingarmyndin

„Gaslýsing er helsta orðið fyrir sérstaka tegund pyntinga, sem ætlað er að ófrægja og rugla þolendur, láta þá efast um það sem þeir vita, vantreysta og snúast gegn sjálfum sér.“

Gasljós er leikrit sem gerði höfundinn Patrick Hamilton vellauðugan. Það var frumsýnt í London 1938 og fékk einróma lof. Hinn þekkti leikari Noël Coward dáði það. Georg VI bauð konu sinni í leikhúsið. Bretar gerðu kvikmynd eftir því 1940 og fjórum árum síðar kom Hollywood-gerðin með Ingrid Bergman í aðalhlutverki. Þegar varla var hvíslað um heimilisofbeldi, beindi Hamilton sjónum sínum að stjórnun með valdbeitingu og bellibrögðum í hjónabandi og hitti í mark.

Leikritið gerist í húsi Jacks og Bellu sem eru hástéttarfólk. Hún tiplar á tánum kringum hann. Hann er ljúfur, síðan kaldlyndur. Hann daðrar við konur en þegar Bella finnur að því er henni sagt að hún „oftúlki allt“. Hann felur eigur hennar svo hún efast um geðheilsu sína. Á kvöldin læðist hann upp á efstu hæð hússins og hækkar í gasljósunum og þá dofna ljósin á neðri hæðinni. Af því er titillinn dreginn.

Leikritið dregur upp óhugnanlega nákvæma mynd af andlegu ofbeldi. 80 árum síðar er „gaslýsing“ enn helsta orðið fyrir sérstaka tegund pyntinga, sem ætlað er að ófrægja og rugla þolendur, láta þá efast um það sem þeir vita, vantreysta og snúast gegn sjálfum sér.

Geðlækninn Stephanie Sarkis fór að gruna að margir sjúklingar hennar væru þolendur gaslýsingar. Í janúar 2017 birti hún grein á netinu,  11 Warning Signs of Gaslighting – sem fór víða. Bókin Gaslighting kom út í Bandaríkjunum í október í fyrra og enn fær Sarkis ótal símtöl og tölvuskeyti frá þakklátum lesendum. „Fólk segir mér að bókin hafi bjargað lífi þess“ segir Sarkis. „Því meira sem við vitum um þetta, því síður erum við berskjölduð.“

2016 tilnefndi American Dialect Society „gaslýsingu“ sem „gagnlegasta orðið“ og 2018 var það eitt af orðum ársins í einni af orðabókum Oxford. Í Bretlandi er gaslýsing í nánum samböndum nú glæpur samkvæmt lögum um stjórnun með valdbeitingu og sést víða í söguþráðum. Við sjáum það í spennumyndum eins og Girl on the Train, þar sem fyrrum eiginmaður söguhetjunnar ráðskast með hana. Við sjáum þetta í sápuþáttum á borð við The Archers – Helen Archer er svo kvalin af ofbeldisfullum sambýlingi að hún leitar til heimilislæknisins sem ráðleggur lyfjatöku. Gaslýsingin hefur jafnvel komist inn í raunveruleikasjónvarpið, en Women´s Aid sakaði þátttakanda í Love Island, Adam Collard um gaslýsingu.

Gaslýsing er versta tegund siðleysis

Í Bandaríkjunum hefur Trump forseti logið, neitað og ógnað og fjölmiðlar allt frá NBC til USA Today og Teen Vogue hafa sakað hann um gaslýsingu. Af gerendum er Harvey Weinstein einkum í sviðsljósinu.

Hvað veitir gaslýsingu þennan illa mátt? Kate Abramson, heimspekiprófessor við háskólann í Indiana, kallar hana verstu tegund siðleysis.

„Ímyndaðu þér að lenda í verstu lífsreynslu þinni“ segir hún „og á sama tíma er þér sagt að upplifun þín sé ímyndun.“ Kannski er það einhver stjóri sem kemur nakinn út úr baðherbergi á hóteli. En hann segir á sama tíma: „Við höfum ekkert gert!“. Þegar þú sleppur eys hann yfir þig gjöfum og staðhæfir að „ekkert gerðist.“ Hann fullvissar þig um að hafa gert þetta með mörgum konum – nefnir margar – og alltaf endar það á því að „þær kasta sér á mig.“

Það eru ekki margar samskiptaleiðir sem tekst að vera rangar á svo margslunginn hátt“ segir Abramson. Það er ekki bara ofbeldið, heldur afmáun þess þegar það á sér stað. Það er útþurrkunin á sjónarhorni annars einstaklings, þrástögun á að athöfnin sé ekki röng, heldur viðbrögð þolandans. „ Ef dómgreind þín er „órökrétt“ missir þú getuna til að bregðast við“ segir Abramson.

„Við efumst öll um hvort við höfum rétt fyrir okkur varðandi eitthvað. Gaslýsingin tekur þennan nauðsynlega hæfileika fyrir mannleg samskipti og notar hann til að grafa undan getu okkar til samskipta yfirleitt. Og það er vont.“

Gaslýsing er nú viðurkennd sem algengur þáttur í heimilisofbeldi. Fyrrverandi eiginmaður „Freyju“, listakonu, beitti hana gaslýsingu eins og Bellu. Hann „barði“ hana ekki til að sýna vald sitt – hann einangraði hana og bugaði hana. Hann skemmdi vinnu hennar. „ Ef ég var að teikna á daginn, sagði hann að ég vanrækti börnin“ segir Freyja. „Ef ég teiknaði á kvöldin, vanrækti ég hjónaband okkar.“ Hann lokaði á vinkonur hennar, sannfærði hana um að þær hefðu reynt við hann (hún uppgötvaði síðar að það var á hinn veginn). Hún vissi ekki hverjum hún gat treyst. Hann staglaðist á því að hún væri „einföld“ „of trúgjörn“ og „heimsk.“ „Hann sagði börnunum okkar að eini öruggi staðurinn væri í fanginu á Pabba því Mamma stæði sig ekki.“

Starfsfélagi hvíslar meinyrði eða niðurlægir þig fyrir framan aðra

Hann faldi líka hluti. „Ég var ein taugahrúga og hafði grennst mikið og giftingarhringarnir runnu oft af mér. Ég tók þá af mér til þvo upp“ rifjar Freyja upp. „Dag nokkurn hurfu þeir af örbylgjuofninum og ég var friðlaus. Ég vissi að ég ætti ekki von á góðu ef ég fyndi þá ekki. Hann var svo rólegur og ánægður þessa helgi. Ég reyndi að leyna höndunum en á sunnudagskvöldið spurði hann ítrekað hvort allt væri í lagi því ég virkaði svo annars hugar og hvort ég hefði týnt einhverju. Ég neitaði því og þá dró hann mig niður og að skáp með kampavínsglösum sem við notuðum aldrei. Hringarnir voru þar í glasi og hann öskraði að ég væri lygari og ömurleg.“

Gaslýsing á sér líka stað á vinnustöðum. „Gaslýsandi starfsfélagi gæti hvíslað ókvæðisorð á leið fram hjá skrifborðinu þínu, spillt vinnu þinni eða eignað sér hana, gefið þér upp ranga fundartíma, niðurlægt þig í viðurvist annarra“ segir Sarkis. Og þegar stjórnmálaleiðtogar eiga í hlut tekur enginn Trump fram. Þegar honum er ögrað, ófrægir hann viðkomandi miskunnarlaust. (Orð eins og „ruglaður“ „geggjaður“ og „heimskur“ eru algeng hjá honum á Twitter). Þráhyggja hans með hvernig hlutir eru skynjaðir er dæmigerð gaslýsing – fullyrðingar hans um að „það sem þið sjáið og lesið er ekki það sem er að gerast.“ Beint úr handbók gaslýsandans.

En þessi handbók er ekki til. Og hvernig læra gaslýsendur iðju sína? Vita þeir af henni? Við því er ekkert skýrt svar. Þetta er algengt hjá siðblindingjum og fólki sem er hrifnast af sjálfu sér en mögulegt er að börn læri þetta af foreldrum sínum eða detta niður á gaslýsingu í varnarskyni. Dr Robin Stern, sem skrifaði bókina The Gaslight Effect árið 2007 og var uppfærð í fyrra, segir að þetta sé ekki alltaf gert af illum hug eða meðvitað. „Manneskja sem upplifir óöryggi, getur áttað sig á því því að með því að afbaka sjónarhorn hins aðilans, tryggi hún eigið öryggi og fullvissu.“

Einnig er torvelt að fullyrða eitthvað um kyn gerenda. Stern segir að flestir sjúklinga hennar og vina sem hafa reynslu af gaslýsingu séu konur – og rannsóknir í Bretlandi á stjórnun með valdbeitingu sýna að gerendur eru langflestir karlar. En Sarkis hefur sinnt mörgum karlkyns þolendum gaslýsinga þar sem gerendur eru konur – og Stern bendir á að unglingsstúlkur geti verið helstu gerendurnir. Hún nefnir sem dæmi Odd Girl Out,  bók Rachel Simmons um einelti. Þolandi er útskúfaður af fyrrum vinum en þegar hún spyr um ástæðuna, er svarið: „Hvað meinarðu? Þú ert svo viðkvæm.““ Vonandi eltist þetta af viðkomandi stúlkum. Fólk getur gripið til gaslýsingar einu sinni eða tvisvar en þegar hún verður að hegðunarmynstri er vissara að vara sig.

„Gaslýsandi þolir ekki sjónarmið annarra“ segir Abramson. „Þeir vilja að þeirra sýn á heiminn sé hafin yfir vafa og vilja bæði eyða öðrum sjónarmiðum og uppruna þeirra. „  Sarkis ráðleggur þeim sem hafa gaslýsanda í lífi sínu að forða sér sem lengst í burtu.

Hvernig kemurðu auga á gaslýsanda?

Þeir nota skilyrtar afsakanir (efsakanir):  Þegar einhver segir „mér þykir leitt að þér finnst þetta“ þá er það ekki afsökun; hinn aðilinn axlar ekki ábyrgð á framkomu sinni, heldur er bara verið að ráðskast með þig. Gaslýsendur biðjast bara afsökunar ef þeir telja sig geta grætt á því.

Þeir sundra. Gaslýsendum finnst gaman að etja fólki saman. Sem dæmi er að ljúga að einum vini um annan, segja að sameiginlegur vinur hafi sagt eitthvað særandi um þau.

Gaslýsendur eru algerir hvatamenn til vandræða. Þeir njóta þess síðan að fylgjast með átökunum sem þeir ollu.

Þeir gera hvaðeina til að vingast við þig. Gaslýsendur eru lagnir að smjaðra fyrir fólki. Um leið og þú uppfyllir þarfir þeirra, sýna þeir sitt rétta andlit, Treystu innsæi þínu. Ef vinsemd þeirra virðist fölsk, hafðu varann á.

Höfundur: Anna Moore.

Þýðing: Gísli Ásgeirsson/Hjördís Líney Aðalsteinsdóttir

Greinin birtist upphaflega í Guardian 2. mars.

2 athugasemdir við “Gaslýsing

  1. Þetta er akkúrat sú ofbeldisaðferðir sem konur nota hvað mest í samböndum og hef ég orðið fyrir því sjálfur

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.