Fóstur fer í mál

Við erum vön því úr bandarískum lögfræðidramaþáttum að sjá alls konar mál tekin fyrir sem stríða gegn heilbrigðri skynsemi. Okkur finnst útilokað að sjá svona mál fyrir dómstólum í raun og veru. En raunin er önnur eins og þessi frásögn femíníska rithöfundarins Jill Filipovic sýnir:

„Í Alabama hefur karlmaður höfðað mál vegna þess sem hann telur vera rétt sinn: Að gera hverjum manni kleift að neyða konu sem hann sefur hjá til að bera barn gegn vilja sínum. Það gerir málið enn furðulegra að dómari hefur einnig heimilað fóstri sem ekki er lengur til að höfða mál. Þetta mál sýnir hversu mikið ber á milli þeirra sem vilja að konur ráði yfir líkama sínum og andstæðinga þungunarrofs (sem sumir eru líka á móti getnaðarvörnum). Snýst deilan bara um „líf“? Eða snýst hún um að leyfa körlum og yfirvöldum að ráða yfir okkur konum – lífi, framtíð og líkama sem við hrærumst í, húð, líffærum og beinum?

Þetta mál sýnir vel hvað er í húfi.

Staðreyndir málsins liggja ljósar fyrir og eru frekar algengar: Fyrir 2 árum barnaði Ryan Magers kærustu sína á unglingsaldri . Hann var þá 19 ára og hún 16 ára. Hún vildi ekki verða ófrísk, (að sögn föður hennar vildi hún ekki einu sinni hafa mök við Magers). Hún gerði sér snemma grein fyrir óléttunni og fékk þungunarrof á sjöttu viku meðgöngu, þrátt fyrir mótmæli Magers. Magers varð reiður og kærði heilsugæsluna Alabama Women’s Center for Reproductive Alternatives þar sem þungunarrofið fór fram. Hann lagði einnig fram beiðni um að verða forsvarsmaður „Baby Roe“ sex vikna gamla fósturvísisins og Frank Barber dómari samþykkti beiðnina. Þar með getur Magers kært bæði heilsugæslustöðina og framleiðanda pillunnar sem fv. kærasta hans notaði til að rjúfa þungunina, fyrir hönd fósturvísisins. Þetta er í fyrsta sinn sem fósturvísir eða fóstur fær lagalega viðurkenningu sem einstaklingur.

Hin réttarfarslega óvissa skapast af lögum Alabamafylkis um persónurétt sem hópar andvígir þungunarrofi sömdu og fylgdu eftir. Þessi lög eru samin til að veita fóstrum og fósturvísum öll réttindi og til að skapa flókið lagaumhverfi sem veitir svona málum brautargengi. Undiralda málsins er síðan sjálft grundvallarmarkmið þeirra sem berjast gegn þungunarrofi: Að ráða því hvað konur mega og mega ekki og skilgreina okkur fyrst og fremst sem útungunarvélar og umbúðir fyrir langanir annarra, ekki einstaklinga með eigin langanir, vonir og atbeina.

Sjálf kæran er gott dæmi. Í henni er unglingsstúlkan sem Magers barnaði alls staðar kölluð „móðirin“ (fósturvísirinn er líka kallaður „barn“ og í síðari gögnum hefur hann einnig verið kallaður fóstur). Þótt andstæðingar þungunarrofs segjast hafa móðurhlutverkið í hávegum, sýna þeir því í raun megna lítilsvirðingu. 16 ára stúlka sem hefur aldrei eignast barn eða alið upp barn og sem gekkst barnung undir þungunarrof til að verða ekki móðir, er ekki móðir. Móðurhlutverkið snýst ekki bara um þungun, heldur að axla gífurlega, ævilanga ábyrgð á því að ala önn fyrir lítilli veru.

Margar leiðir eru til að verða móðir og fæðing þarf ekki að vera sú eina. Vissulega geta konur sem missa langþráð fóstur sem þær hlúðu að og önnuðust af ást og löngun, kallað sig mæður. Vissulega geta konur sem fæddu ekki sjálfar börn en ættleiddu, elskuðu og ólu upp börnin sín kallað sig mæður. Sannarlega geta það einnig konur sem fæddu barn en gáfu það öðrum vegna ástar á barninu og í von um að barnið væri betur komið í örmum annarrar móður. Móðurhlutverk er samband; það tengist þungun en hverfist ekki bara um líffræðilegan burð. Þetta samband varðar fyrst og fremst ætlun og gerðir, að ala upp og rækta, að bjóða lítilli mannveru og viðkvæmri sérstaka ást og umhyggju.

Ég ímynda mér að þær milljónir kvenna sem eiga ekki börn en hafa látið rjúfa þungun verði ringlaðar og móðgaðar að vera kallaðar mæður. Ein af ástæðunum fyrir þungunarrofi er jú sú að jafnvel við sem eigum ekki börn skiljum að nokkru leyti hvað felst í móðurhlutverkinu. Við skiljum umfang þess, mikilvægi og þunga. Hjá mörgum konum er þungunarrof einlægt uppgjör á því sem kona hefur að gefa – sú trú að umönnun barns sé ævilangt verkefni sem beri að sinna vel og sú vitneskja að kona hafi ekki upp á það að bjóða á viðkomandi tíma.

Ég ímynda mér að margar mæður myndu móðgast yfir þessari þráhyggju að kalla konu eða stúlku sem hefur kosið að rjúfa þungun sína, móður. Þvílík óvirðing við erfiða og óendanlega vinnu móðurhlutverksins, við stórar og smáar fórnir, líkamlegar, andlegar og geðrænar, sem konur færa fyrir börnin sín! Þvílík óvirðing við þá nánd sem þenst út í hverja frumu og nærð er af æðum og beinum líkamans, samkvæmt þeim mæðrum sem ég hef kynnst. Margar konur sem rjúfa þungun vita þetta því flestar þeirra eru jú mæður.

Kornung kærasta Ryan Magers vildi ekki verða barnshafandi -kannski var þetta ekki rétti tíminn fyrir hana að verða móðir, kannski var Magers ekki sá rétti fyrir hana, kannski sá hún líkt og margar konur framtíðina sem hún hafði vonast eftir renna sér úr greipum. Hún var jú bara miðskólastúlka þegar þetta gerðist; Magers var atvinnulausi 19 ára kærastinn hennar. Óléttuslys á röngum tíma getur konu virst eins og að horfa á tvær dyr; bak við aðra liggja vonir vandlega undirbúinnar framtíðar, en bak við hina, hið óþekkta. Handan þeirrar gáttar situr í versta tilfelli tilhugsunin um að sitja uppi með ráðríkan eða ofbeldishneigðan mann, verða enn fátækari en áður eða festast í félagslegu aðstæðunum sem hún hefur barist við að losna úr með klóm og kjafti. Þegar margar konur horfa á jákvætt þungunarpróf er sem þessar tvær dyr birtist fyrir hugskotssjónunum og þær vita að aðeins önnur leiðin er fær.

Við vitum ekki hvað fyrrverandi kærasta Ryan Magers sá handan sinna tveggja dyra en við vitum að hún valdi þá sem Magers vill að lögin læsi með valdi. Við vitum að faðir hennar segir að Magers, sem var 19 ára þegar hann var í tygjum við 16 ára stúlkuna, þvingaði hana til kynlífs. Við vitum að Magers finnst að hann eiga svo mikinn rétt á að krefjast þess að stúlkan lúti vilja hans að hann er þess albúinn að höfða mál, ekki bara til að fá það sem hann segist alltaf hafa þráð, sem er barn, en í kaupbæti gera stúlkum og konum framtíðarinnar ógerlegt að velja eigin örlög án umsjónar og samþykkis karla. Þetta er það sem andstæðingar þungunarrofs vilja gera að almennum raunveruleika: ráðandi karlar geti krafist þess að konur gangi með og fæði börn gegn vilja sínum.

Keðjuáhrifin gætu orðið gífurleg. Sigur andstæðinga þungunarrofs gæfi körlum eins og Ryan Magers, sem að sögn þvingaði barnunga kærustu sína til kynmaka, lausan tauminn og veitti þeim enn meira vald yfir æxlunarhlutverki stúlkna og þar með framtíð þeirra. Margar konur og stúlkur hafa mök við karla sem eru ofbeldishneigðir, ráðríkir eða einfaldlega karlar sem þær vilja ekki binda trúss sitt við alla ævi. Sigur andstæðinga þungunarrofs gæfi karli lögsögu yfir sérhverri konu sem hann hefði mök við.

Og þetta gæti gengið enn lengra. Að veita fóstri full réttindi manneskju gæti haft ótal afleiðingar sem hreyfingin gegn þungunarrofi ætlar sér, en sem jafnvel margir yfirlýstir andstæðingar þungunarrofs myndu ekki styðja. Þetta gæti útilokað margar algengar aðferðir til tæknifrjóvgunar, svo dæmi sé tekið, þar sem þar verða oft til fósturvísar sem ekki eru notaðir. Þetta gæti breytt öllum fósturlátum í vettvang brots eða mögulega ofbeldi gegn barni – því ef fóstur deyr inni í konu og fóstur hefur sömu réttindi og fæddur einstaklingur, þá er nauðsynlegt að finna orsökina, skella skuldinni á einhvern og mögulega greina afleiðingar (er hægt að saka þunguðu konuna um vanrækslu því hún neytti ekki reglulega fjörefna? Af því hún fór á skíði? Borðaði óhollan mat?).

Þetta gæti líka útilokað margar getnaðarvarnir. Þó að flest gögn bendi til þess að hormónalykkjan, neyðarpilla og lykkjan hindri ekki ígræðslu frjóvgaðs eggs, staðhæfa margir andstæðingar þungunarrofs að svo sé. Skilgreining læknisfræðinnar á þungun er að hún hefjist þegar frjóvgað egg græðist í legið (þetta er að hluta vegna þess að helmingur eggjanna græðast ekki í og skolast út úr líkama kvenna án vitundar þeirra). En skilgreining andstæðinga þungungarrofs á „lífi“ er að það hefjist við frjóvgun. Bera þá öll túrbindi og tappar ábyrgð á að líf hefur mögulega glatast?

Hugsanlega hljómar þetta allt fáránlega langsótt og ómögulegt. En það gerði einnig hugmyndin um að fóstur sem er ekki til gæti höfðað mál gegn þungunarrofsheilsugæslu.“

Jill Filipovic ritaði þessa grein fyrir Guardian. Hún er höfundur bókarinnar The H-Spot: The Feminist Pursuit of Happiness. Þýðingadeild Knuz.is þýddi.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.