Huliðsgáfur og haugtussur

haugtussa

Í fyrra var ég á gangi nálægt konungshöllinni í Osló. Var mér þá gengið fram á götuskilti sem mér þótti nýstárlegt, því að á því stóð Haugtussa. Íslendingnum þótti þetta undarlegt orð til að deila á skiltum og lagðist því í nokkrar orðsifjarannsóknir á norskum tussum.

Tussuvegir og Tussugötur finnast í flestum bæjum í Noregi og í Stafangri finnst heilt Haugtussuhverfi.  Í smábænum Elnesvågen á Mæri sunnan við Þrándheim gefst foreldrum kostur á að setja börn sín á sérstakan Haugtussuleikskóla (http://haugtussa.barnehage.no/).

Á norsku fyrirfinnast hvort tveggja tussar og tussur. Þetta eru huldar þjóðsagnaverur eins og íslenski búálfurinn og orðsifjalega skyldar þursinum íslenska og síðar tossanum sem Íslendingar fengu lánaðan frá Dönum. Eitt frægasta kvæði norskra bókmennta er kvæðabálkurinn Haugtussa eftir Arne Garborg sem kom út í íslenskri þýðingu Bjarna frá Vogi undir nöfnunum Huliðsheimar og Helheimar. Tónlist Grieg hefur enn aukið á hróður Haugtussu Garborgs.

Garborg yrkir um smalastúlkuna Áslaugu. Í frumtextanum er stúlkan nefnd Haugtussa vegna þess að hún sér gegnum holt og hæðir og bæði framliðna og huldufólk. Hún kynnist heiðnum jötnum og myrkum vættum en neitar að nota þekkingu sína á hinu illa til hefnda. Í þýðingum Bjarna og í umræðum um verkið t.d. í Skírni 1914 er hin norska Haugtussa jafnan nefnd „skyggna stúlkan“.

Hvers vegna skyldi Bjarni frá Vogi ekki hafa kallað skyggnu stúlkuna Haugtussu?

Mér kom grúsk mitt um hina norsku haugtussu í hug þegar ég las umræður í Facebook-hópnum Skemmtileg íslensk orð um daginn orðið „tussusnúður“. Hópurinn Skemmtileg íslensk orð er opinn hópur og allir velkomnir sem áhuga hafa á íslensku máli. Þar bryddar fólk upp á skrýtnum og skemmtilegum orðum sem það hefur heyrt. Sumir biðja um skýringar á orðinu, aðrir vilja vita um uppruna þess, útbreiðslu og sögu.

Í hópnum finnast líka netþursar sem leggja til umræður um miður skemmtileg orð eins og negra, hommatitti, múlatta og aftaníossa. Þessir sömu þursar eru líka áhugasamir um rassa, kuntur, tussur og píkur og orðmyndir þeim tengdum. Hleypur gjarnan hamur í þursana þegar einhver bendir þeim á að orðin sem þeir eru að viðra séu ekki húsum hæf lengur og að konur og minnihlutahópar ættu ekki að þurfa að sitja undir slíkum orðum um sjálf sig og eigin líkama í opinberri orðræðu. Viðmælendur bregðast þá annað hvort sárir við eða hrútskýra það að orðin séu alls ekki meiðandi og eigi allt annan uppruna. Hér gefur að líta nokkur ummæli.

Æ, hvað sumar kerlingar eru hörundssárar, vitanlega er allt fullt af Tussusnúðm. Svo eru Tussur breiddar á klett. Ó já, þetta er allt hálf Tussulegt maður lifandi, svo halda kvennsurnar að örugglega sé verið að tala um Tussuna á þeim persónulega.“

Mér var sagt, ekki fyrir mjög löngu að orðið tussa hafi verið nota um tuskur. Tussa breidd á klett sé vísun í tusku og þar með til lítils gagns eins og sá karlmaður sem orðið er notað um. Þar með ekkert verið að vísa til kynfæra kvenna. Ekki veit ég frekar um þetta en finnst þetta ágæt skýring.

Tussa merkir lítil skinnskjóða.

já gera lítið úr honum en hvernig (sjá umræðu hér ofar) er hægt að flokka það sem kynferðislega áreittni,það að nota ákveðið orðaval við að gera lítið úr einhverjum getur bara ekki verið kynferðisleg áreittni ef karlmaður segir þetta um einhvern.
Dæmi ég kem myglaður niður stiga á gistihúsi og er spurður hvernig ertu, í meiningunni hvort ég sé vel vaknaður, og ég svara t.d. æ ég veit það ekki, finnst ég einhvernvegin vera eins og „tussa breidd á klett“ er það kynferðisleg áreittni við þann sem spyr? það fer aðverða fokið í flest skjól ef á að snúa öllu upp í áreyti eftir hvert orðavalið er… hvað ef ég hefði svarað að „líðanin væri eins og innihald í rotnuðm púng gæti mögulega verið“ er það kyferðislegt áreyti… er það þá stutt í „dýraníð“ að finnast einhver vera naut heimskur eða bara býsna kýrskír?
Rosaleg er þetta mikil og flott júferta sem siglir þarna inn,,, er það þá líka kynferðisleg áreitni og gert lítið úr einhverjum kvennahóp spyr ég?

Eins og dæmið mitt af Haugtussunni norsku sýnir, þá er geta orð eins og önnur tákn haft margræða merkingu. Tussa merkir eitt í Noregi og eitthvað allt annað á Íslandi. Orð og tákn geta líka breytt um tákn við tilteknar aðstæður. Eitt frægasta dæmið um tákn sem eitt sinn naut mikillar virðingar, en er nú hvergi notað nema af nýnasískum öfgahreyfingum er hakakrossinn. Íslenska Eimskipafélagið þrjóskaðist lengi við að halda hinum gamla sólkrossi í merki sínu á þeirri forsendu að það hefði verið þarna löngu á undan nasismanum og helförinni. Atburðir seinni heimstyrjaldar hafa hins vegar gert það að verkum að táknið er nú óafmáanlega samþætt öfgahreyfingum til hægri sem halda fram yfirburðum hvíta kynstofnsins.

Af ljótum orðum sem smætta konur niður í kynfæri sín finnst mörgum íslenskum konum tussan alverst. Flestar konur hafa verið kallaðar tussur og kuntur á sinni lífsleið (húrrandi, klikkaðar jafnvel), orðið hefur verið kallað eftir þeim á götu, á ölstofum, heima og í illu umtali þeim á bak. Allnokkrar konur hafa verið kallaðar tussur í sínum nánustu samskiptum og ofbeldissamböndum.

Hið ljóta tal um konur og kynfæri þeirra birtir gömul og gróin viðhorf undirskipunar. Hið íslenska tussutal meiðir konur. Tussan íslenska er hnjóðsyrði sem smættar konur niður í kynfæri þeirra. Hvort sem orðið tussa hefur orðið til í öðru samhengi eða ekki, þá er hún nú bundin kvenfyrirlitningu.

Ekki horfast allir í augu við þessi úreltu viðhorf. Það finnst ennþá fólk sem finnst í lagi að setja orð eins og múlatti í blöðin. Það finnst ennþá fólk sem telur að aftaníossar séu skemmtilegt íslenskt orð sem þurfi að ræða í fésbókarhópum og sömuleiðis öll tilbrigði við tussur. Sum telja að hakakrossar séu mjög gömul og virðuleg tákn sem sjálfsagt sé að hafa í opinberu rými. Flestu þessu fólki, sem að stofni til eru hvítir, gagnkynhneigðir karlmenn dettur aldrei í hug að velta fyrir sér hvers vegna kynfærum kvenna sé yfirhöfuð líkt við tuskur og hvað sé málið með það. Þeir spyrja líka sjaldan konur, fólk af afrískum uppruna og blönduðum uppruna og samkynhneigt fólk hvort orðin og táknin sem notuð eru séu þeim meiðandi og veki þeim jafnvel ótta.

„Skyggna stúlkan“ í kvæði Garborgs sá meira en aðrir. Hún var kölluð Haugtussa vegna þess að hún tengdist þeim sem hulin voru og hún nýtti sér ekki þekkingu sína til að koma höggi á aðra.

Mætti túlka hina „yfirskilvitlegu“ gáfa haugtussunnar sem þá að vera ekki í hvítum, vestrænum karlkynslíkama?

Er „skyggnin“ sem íslensk orðræða þarf að tileinka sér kannski einmitt sú að hafa og virða reynslu í að setja sig í spor tiltekinna minnihlutahópa og undirskipaðra hópa?

Ef svo er þá felst huliðsgáfa nútíma haugtussu í að greina raunverulega þursa og sveigja umræðu samtímans inn á brautir sem ekki er niðurlægjandi fyrir þá sem höllum fæti standa.

Athugasemd frá höfundi greinar 6.4. 2019, kl. 19:20:

Glöggir lesendur Knúzzins rákust á tvær villur í upphafstexta greinar. Ranglega var hermt að haugtussuskiltið væri merki knæpu, en hið rétta mun vera að Haugtussa er hannyrðabúð með þjóðlegan varning og þjóðbúninga. Síðari villan snéri að „haugnum“ sem Haugtussan er kennd við. Ég fór flatt á því að telja hann vísa til fjóshaugsins, en haugur í fornu norsku máli er hóll eða hæð á við þann sem huldufólk á Íslandi býr í. Haugtussan er þannig vættur undir jörðu og býr ekki í neinum fjóshaug. Þetta leiðréttist hér með, textinn hefur verið lagaður í samræmi við nýjar upplýsingar og ég þakka fyrir þessar fræðandi og góðu viðbætur.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.