Höfundur: Kristín Jónsdóttir
Föstudaginn 30. ágúst var 23 ára karl dæmdur fyrir ofbeldi gegn sambýliskonu sinni, sem var þá komin sjö mánuði á leið.
Málsgögn byggðust í fyrsta lagi á upptöku á símtali mannsins til Neyðarlínunnar. Hann segir konu „ hrækja blóði“ og svo heyrist kvenrödd segja: „þú barðir mig“ . Að auki var lagt fram læknisvottorð sem gefið var út á spítalanum síðar þann sama dag, og sjúkraflutningamenn sem fluttu þolandann á spítalann voru kallaðir til sem vitni. Einnig voru aðstandendur yfirheyrðir við rannsókn málsins.
Þolandi var viðstödd réttarhöldin, en hún neitaði að leggja fram kæru og að bera vitni fyrir dómi. Það var því ríkissaksóknarinn í Brive-La-Gaillarde sem ákvað að leggja sjálfur fram kæruna. „Allir vita og allir hvetja þolanda til að leggja fram kæru en enginn tilkynnir um ofbeldið“ segir Yann Le Bris. „Það er skylda mín að segja hingað og ekki lengra.“ Yann Le Bris tók við embætti sínu fyrir tæpu ári síðan og tilkynnti þá að hann ætlaði að skera upp herör gegn meðal annars ofbeldi.
Í dómsorði sínu velti dómarinn Marianne Descorne því fyrir sér hvort hægt sé að vernda þolanda gegn eigin vilja. En við upphaf málsmeðferðar tók hún fram að í ljósi ástands málaflokksins í Frakklandi (nú, í ágústlok hafa 99 konur dáið vegna heimilisofbeldis á árinu) væru þessi réttarhöld mikilvægt skref.
Hinn ákærði vildi ekki kannast við að vera ofbeldismaður. Nokkrar fyrrverandi kærustur hans stigu fram og báru vitni um að hann hefði beitt þær ofbeldi undir áhrifum áfengis. Það sagði hann dómara að hefði alltaf verið þeim að kenna, þær neyddu hann til að hegða sér illa. Hann hlaut nú 8 mánaða fangelsisdóm, en þarf aðeins að afplána þrjá. Hann verður að auki undir sérstöku eftirliti í tvö ár og verður settur í meðferð við ofbeldishneigð. Hann fær ekki á sig nálgunarbann eins og ríkissaksóknari óskaði eftir, en hinn dæmdi og þolandinn eiga nú litla dóttur sem fæddist í júlí og virðast vera enn í sambandi.
Það má með sanni segja að kvennabaráttunni hafi hlaupið kapp í kinn og þá sérstaklega baráttu gegn kynbundnu ofbeldi hér í Frakklandi undanfarið. Mikið fór fyrir #metoo byltingunni, og áður höfðu þingkonur stigið fram með sögur af óviðeigandi hegðun starfsfélaga. Franska ríkið hefur staðið fyrir forvarnaraðgerðum með gerð upplýsingaefnis og veitt fé til að halda utan um tölulegar staðreyndir líkt og þessa sem minnst er á hér að ofan, að á árinu hafa 99 konur verið myrtar af núverandi eða fyrrverandi maka. Í nóvember 2018 tóku fimm félagasamtök sig saman um að gera skýrslu um aðbúnað þolenda kynbundins ofbeldis. Þeim reiknast til að fjárveitingar til aðstoðar þolenda heimilisofbeldis séu samtals um 79 milljónir evra, en telja að upphæðin þyrfti að vera í minnsta lagi 506 milljónir evra og í besta falli þyrfti 1,1 milljarð.
Marlène Schiappa, ráðuneytisstjóri jafnréttismála, tilkynnti að hinn 3. september næstkomandi yrði formlega stofnaður starfshópur um baráttu gegn kynferðisofbeldi, með aðkomu viðeigandi ráðherra og félagasamtaka sem koma að málaflokknum. Dagsetningin, 3-9-19 er valin vegna þess að númer neyðarlínu fyrir konur sem verða fyrir ofbeldi er einmitt 3919.
Það verður spennandi að fylgjast með framhaldi baráttunnar, ljóst er að ofbeldi gegn konum er háalvarlegt og lýðheilsufræðilegt vandamál í Frakklandi. Dómstóllinn í Brives-La-Gaillarde hefur nú veitt fordæmi fyrir því að ofbeldismál séu kærð þvert á vilja þolandans. Vonandi verður það til þess að fleiri dómar náist fram og að fleiri karlar sæki sér aðstoð til að komast út úr ofbeldishegðunarmunstri sínu.
Nýjustu fréttir: Lík númer 100 fannst í dag, sunnudaginn 1. september 2019.
Gagnlegir tenglar:
Gleymum þeim ekki. Vefsíða sem heldur utan um nöfn kvenni sem eru myrtar af maka eða fyrrverandi maka.
Stöðvum kynbundið ofbeldi. Vefsíða franskra yfirvalda gegn kynbundnu ofbeldi.