Ætlar dómharkan allt lifandi að drepa?

NatalieWynnBirtingarform útskúfunarinnar (Cancel Culture), sem líka má þýða sem leifturútlegð, er eiginlega þetta: Þekktum einstaklingi/áhrifavaldi sem hefur notið vinsælda og frægðar, verður á að gera eða segja eitthvað sem orkar tvímælis og fær þá yfir sig gagnrýniflóð og skammir sem jaðra við fordæmingu og enda með því að hán dregur sig í hlé eða lætur sig hverfa.  Í skilgreiningu Urban Dictionary er sagt að orsökin sé ásökun af hálfu  fávíss fólks sem er fljótt til að dæma en lengi að spyrja og skiptir þá litlu hvort fótur sé fyrir ásökuninni.

Natalie Wynn er transkona sem hefur getið sér gott orð sem stjórnmála- og menningarskýrandi undir nafninu ContraPoints á Youtube. Myndböndin hennar eru óvenju vel gerð og bakgrunnur hennar sem doktorsnemi í heimspeki hefur hjálpað henni að kryfja ítarlega ýmis málefni. Hún er rísandi stjarna sem fær vel greitt fyrir ræðuhald  og nýtur mikils fylgis á Patreon. Hún er orðin atvinnukona í þessu harki.

Hún hefur gert myndskeið um AltRight-hreyfinguna, Incels og Jordan Peterson svo dæmi séu tekin, og alltaf fremur augljóslega verið á frjálslynda og mannréttindamiðaða vængnum. Líkast til ekta lefty liberal í hugum flestra netverja, og auk þess ein frægasta transkona heims um þessar mundir vegna þess hve opin og hreinskiptin hún hefur verið með eigin kynleiðréttingu.

Hvernig stendur þá á því að Natalie var hrópuð niður á Twitter nýverið af transfólki þangað til hún lokaði aðgangi sínum að vefnum? Jú, hún dirfðist að ræða kosti og galla þess fyrir transfólk að kynna sig með æskilegum persónufornöfnum. Til dæmis: “Sæl, ég heiti Jón, ég kýs að vera ávörpuð hún eða hán.“

Meðal mjög upplýstra hópa um þessi mál getur það verið venjan að kynna sig með þessum hætti. En það er allur gangur á hvort transfólk fagnar þessu fyrirkomulagi. Sumum finnst þetta nauðsynleg þróun til að opna á sem víðasta flóru af kynvitundum, á meðan öðrum, sem jafnvel gengur vel að koma fyrir sem sitt nýja kyn, finnst það hreinlega draga úr lífsgæðum að vera stöðugt minnt á að kyn þeirra sé eða hafi verið eitthvað á reiki.

Hún hafði sem sagt orð á því hún gæti skilið að sumt transfólk teldi þetta ekki framför. Það túlkaði kynsegin transfólkið í umræðunni sem skilningsleysi á þeirra aðstæðum og hóf að argaþrasast í Natalie. Því sé maður t.d. fremur karlmannleg transkona þarf maður stöðugt að vera að leiðrétta persónufornafnið sem ókunnugir nota um mann, og það er vandamál sem hin nú fremur kvenlega Natalie, á ekki lengur við að stríða.

Það má því mögulega segja að hún hafi sýnt einum hópi ónærgætni með nærgætninni við annan hóp. Þetta er þó ekki með góðu móti hægt að staðfesta núna, því hún hefur lokað Twitter-aðgangi sínum og lesendur verða því að gera sér að góðu þessa lauslegu endursögn á málavöxtum. En í ljósi þess hve Natalie hefur lengi verið í fremstu víglínu gagnvart allskyns orðhvössu fólki má ætla að umræðan hafi gerst nokkuð svæsin fyrst hún dró sig svona afgerandi í hlé.

Margur myndi segja að Natalie Wynn sé fyrir margt löngu búin að sýna hug sinn.  Hún hefur gert ótal myndbönd um málefni transfólks og leiðrétt og andmælt allskyns ranghugmyndum og fásinnu (sjá t.d. um hugtakið Trap). En ekki einu sinni hún nýtur nægilegrar velvildar til að komast upp með að velta fyrir sér hlutum sem vert er að ræða, þótt þeir séu viðkvæmir.

Spurningin er hvort þetta er dæmi um atburð sem segir eitthvað um menninguna í kringum mannréttindabaráttu og hvort það megi læra eitthvað af þessu? Það er nefnilega ekki alveg óþekkt að talað sé um að “vinstrið” éti sína eigin (byltingin éti börnin sín) og annað eftir því; að fólk þoli ekki einu sinni skoðanasystrum sínum og bræðrum að vera lítilsháttar ósammála um blæbrigði í baráttunni. Það valdi klofningi og útskúfun,  jafnvel fordæmingu sem ýmist er kallað  callout culture og stundum cancel culture.

Einhver munu taka þann pól í hæðina að ekkert sé að. Natalie verði að þola að henni sé andmælt, það sé eðlilegt að takast á um flókin og viðkvæm málefni. Öðrum mun þvert á móti þykja um verulegt vandamál að ræða, sem valdi því jafnvel að færri og færri hætti sér út í að tjá sig um mál af þessu tagi og taki þá síður þátt í að leggja baráttunni lið. Það réttasta er þó kannski að gera ráð fyrir að reyknum fylgi einhver eldur, án þess að gefa sér að allt sé að fuðra upp. Það sé um ákveðna tilhneigingu að ræða sem er e.t.v. eðlilegur fylgifiskur þess að reyna að sýna mjög margslungnum og erfiðum málum skilning á ótal mismunandi vegu, en að sú tilhneiging sé engu að síður óheppileg og full ástæða til að fylgjast með því að hún skemmi ekki út frá sér.

Öll höfum við lært af internetfjasi síðasta áratugar eða svo að meintar gáfulegar rökræður um hlutina geta hæglega snúist upp í gremjulegt og ófullnægjandi orðaskak um ekki neitt. Netsamræður hafa ekki orðið sú uppspretta visku sem við vonuðum. En það hjálpar ekkert að fara í hina áttina og gera allskyns málefni heilög og skiptast umsvifalaust í fylkingar þegar eitthvað út af bregður um smæstu þætti í hugmyndum okkar. Við hljótum að þurfa að læra af þeirri hegðun líka og taka enn aðra stefnu í skoðanaskiptum okkar um hver við erum og hvert við stefnum.

Þetta var létt samantekt á málinu. Lítið líka endilega á þessa grein: https://arcdigital.media/contrapoints-and-the-scandal-that-shouldnt-be-15ac97f330d4

P.S. Athugið að höfundur er hvítur cis karl og getur því ekki lofað því að öll orðin sem snúa að kynleiðréttingum og öðrum flóknum málefnum séu alveg rétt valin og notuð. Hann reynir samt að vera sæmilega nútímalegur og nærgætinn þegar hann getur og hefur rænu á.

Kristinn Theódórsson

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.