Hugleiðingar Katarinu Wennstam rithöfundar um klám, sem spunnust út frá rannsókn hennar fyrir spennusöguna Vargen.
Hún birti þær á Instagram sem færslur með meðfylgjandi myndum.

„Við rannsóknir mínar fyrir nýjustu bókina, Vargen, rýndi ég mikið í nútímaklám og skoðaði hvernig gróft ofbeldisklám getur orðið hvati að raunverulegum ofbeldisbrotum. Byrjum á einu af fyrsta og stærsta vandamálinu – sem er að margir skilja ekki um hvað við erum að tala. Hugmynd margra um klám byggist á klámblöðunum sem við fundum í skóginum á áttunda áratugnum eða lélegum VHS-spólum unglingsáranna. Margt hefur gerst síðan og þá á ég við að klám er í dag alltaf tiltækt, ókeypis í farsímanum þínum, þegar þig lystir. Þetta fjallar um hvers konar klám má finna í dag. Burtséð frá kvabbi um siðapostula og að „fullorðnar manneskjur megi gera það sem þær lystir í svefnherberginu“, verðum við að skilja við hvað er að eiga. Svo mér datt í hug að segja frá, í nokkrum innleggjum, að hverju ég komst í rannsóknarvinnu minni. Nei, þetta verður enginn skemmtilestur.

Klámið sem ég rannsakaði er ekki erfitt að finna. Viljandi leiddi ég hjá mér það klám sem þarf sérstaklega að logga sig inn á til að finna eða það sem finnst á Svartnetinu. Mig langaði til að kanna klámið sem hver sem er getur fundið með fjórum eða fimm klikkum í snjallsímanum, á stærstu ókeypis vefsvæðunum. Og hvað fann ég? Skemmst frá að segja, sisvona: Margar klámmyndirnar innihalda svo gróft ofbeldi í garð kvenna, að ég var ekki alltaf viss um að konan myndi lifa af til loka myndarinnar. Og þetta er gert til að áhorfandinn geti fróað sér.Stundum þegar fjölmiðlar skrifa um „klám með ofbeldisívafi“ held ég að margir ímyndi sér að það fjalli hugsanlega um skell á rassinn eða að stúlkan sé dregin á taglinu. Þá hefur fólk ekkert skilið. Mikið af ofbeldiskláminu er svo gróft að ef það í staðinn fjallaði t.d. um slagsmál á skólalóð milli tveggja nemenda væri það saknæmt ofbeldi þar sem svo gróft ofbeldi er óásættanlegt. En ef líka er innsetning’ Já, þá finnst mörgum að okkur komi ekki við hvað fólk geri í kynlífi sínu. Ég tel að við verðum fyrst að skilja hvað klámið fjallar um í raun og veru. Og hve gróft það er
.

Það sem vakti forvitni mína að grafa eftir því hvaða klám finnst í snjallsímum karla og kvenna um þessar mundir, var þetta: Þögnin í kringum grófa ofbeldisklámið sem aftur og aftur finnst í tölvum karla sem eru ákærðir fyrir morð á konum á kynferðislega-sadískan hátt eða fyrir endurteknar ofbeldisfullar árásir. Lögreglan skoðar alltaf í tölvur hinna grunuðu, því að þar geta leynst leitarþræðir eða myndir sem gefa vísbendingar; og einmitt klámið er rannsakað í ferlinu, en lítið er skrifað um það í fjölmiðlum sem vakta málið. Ég held að þeir óttist að einungis kláminu verði kennt um og að siðferðisofsi leysist úr læðingi. Nei, ekki allir karlar sem horfa á ofbeldisklám verða morðingjar – en því hef ég tekið eftir að kynferðisleg morð síðustu ára (ógeðslegt orð, þetta er jú árás sem endar með ofbeldisdauða) þá sést oft að grófu ofbeldisklámi hefur verið beitt. Oft hafa karlarnir byrjað sem neytendur kláms snemma á lífsleiðinni og hafa á tímabilum tapað stjórn á því hversu mikils kláms þeir neyttu. Þeir hafa einmitt oft leitað eftir og skoðað klám með ruddalegu ofbeldi, árásum, nauðgunarsenum, grímuhuldum körlum, njörvuðum konum o.s.fr. Í nokkrum tilfellum hefur verið myrt á þann hátt að greinilega hefur aðferðin verið hermd eftir þeim ljós- og kvikmyndum sem fundist hafa við húsrannsóknina. Það segir sína sögu, það hefur þýðingu. Enn er merkilega þögult um klámneyslu gerandans í fréttum af morðmálum.(Skjáskotið sýnir mynd sem fannst í tölvu dæmds morðingja, fengin úr rannsóknarskýrslu. Af skiljanlegum ástæðum hef ég ekki valið neina af „verstu“ myndunum. Ég hef jafnvel klippt rækilega.)

„Gagging“ er það kallað í klámi, þegar maður þrýstir typpinu svo langt niður í háls konu að hún kúgast. Stundum stendur þetta stutt yfir, en það kemur fyrir í næstum öllum senum með munnmökum. Stundum er það svo gróft og stendur svo lengi yfir að það er í raun lífshættulegt. Typpinu er þrýst svo langt niður að öndunarvegurinn lokast alveg. Stundum þrýstist andlit konunnar samtímis í klof karlsins, svo að nefgöngin lokast, stundum er einfaldlega haldið fyrir vitin. Ég forðast það lýsa enn fleiri smáatriðum hér á Instagram, en vil þó aðeins taka fram, að þessar kvikmyndir, sem eru gerðar í því augnamiði að æsa, geta skapað lífshættu fyrir konurnar sem kvikmyndaðar eru, og þær sem í þessu lenda í einkaaðstæðum. Þegar súrefni nær ekki til heilans getur orðið heilaskaði. Og enn og aftur, þetta er hugsað sem örvun við sjálfsfróun. Ímyndið ykkur álíka kringumstæður, en án hins kynferðislega. Hugsið ykkur leik barna sem gengi út á það að teppa öndunarveginn svo lengi að slef kæmi freyðandi upp úr hálsinum. Að það hvítmatti í augun. Og hugsið ykkur að þá myndu finnast menn sem segðu að þótt leikurinn sé lífshættulegur skuli þau sem hjá standa ekki stöðva leikinn. Því að sumum börnum líki harkan. (Skjáskotið sýnir hvað margir hafa skoðað og líkað við myndbönd með leitarorðunum „gagging“, að troða í kokið og „puke“, æla, á einni af stóru klámsíðunum. Troðið er í kok konunnar í kvikmyndinni þar til hún ælir.)

Undirbúningurinn fyrir upptökur á sumum klámmyndasenum er ekki beint þannig að maður tengi við kynlíf. (Gleymið ekki mikilvægu atriði – kynlíf er skemmtilegt, lostafullt og undursamlegt. Klám er eitthvað annað). Til dæmis er það vanalegt að konan þurfi að fasta fyrir senur með endaþarmsmökum, til að draga úr hættunni, að vottur finnist af því sem náttúrulega fyrirfinnst í endaþarmi. Reyndar má hún borða sælgætishlaup ef hana svengir, þar sem hægðir verða ekki brúnar af því. Síðan eru notaðir tappar í mismunandi stærðum til að þenja út endaþarminn, staðdeyfing er notuð til að geta þolað tvö typpi í einu. Með meiru. Til eru kvikmyndir þar sem endaþarmurinn þenst svo mikið út að hluti ristilsins gengur út. Já, það telst sérstök undirdeild kláms. Enn og aftur vil ég benda á að þetta eru kvikmyndir sem ég fann á venjulegum ókeypis klámsíðum sem allir geta komist inn á í gegnum snjallsímann. Og ekki er um eina kvikmynd að ræða eða fimm; framboðið er gríðarlegt og fjöldi flettinga (oft hundruð þúsunda, stundum meira) segir til um eftirspurnina. Ég held einnig að þumalputtinn sem finnst við öll myndskeiðin gegni mikilvægu hlutverki. Hann gefur piltinum eða karlinum sem skoðar til kynna að það séu margir aðrir sem skoða og líkar vel. Jafnvel þótt það sé svo gróft að maður fái velgju í magann í fyrsta sinn sem maður sér það, fær maður á sama tíma á tilfinninguna að þúsundum manna þyki þetta vera öldungis gott. Þetta sé bara eðlilegt. Oft verður mér hugsað til þess hvað það sé ótrúlegt að fullorðinsheimurinn hefur yfirgefið völlinn og eftirlátið „kynlífs-uppeldi“ ungmenna fjölþjóðlegum, gróðamiðuðum fyrirtækjum sem skila af sér kvenfjandsamlegum leiðbeiningarmyndböndum, án þess að velta fyrir sér málinu eða efast. Að efast um þetta er ekki andsnúið kynlífi – þvert á móti. Það er kynlífinu til varnar. Við myndum ekki skilja barnið okkar eftir eitt á barstól með seðlabúnt í höndunum og láta það sjá um sig sjálft heila nótt á meðan við gerum annað, en hvað varðar netklámið, þá er það orðið svo á vissan máta. Kannski vegna þess að það er svo ferlega erfitt að tala um það. Þorir þú að tala um klám?

Á meðan rannsókn mín fyrir bókina Vargen stóð yfir og ég kannaði grófa ofbeldisklámið og áhrif þess á karla sem eru ofbeldisgjarnir í garð kvenna, komst ég að raun um um hvað málið snýst:
Klámið örvar til ofbeldis. Enginn karlmaður verður ofbeldismaður eða morðingi eingöngu vegna kláms. Til þess þurfa fleiri samverkandi skaðleg þættir að koma til: Að vera utangarðs, að skorta gagnrýnar fyrirmyndir, óstjórn á klámneyslu, einmanaleiki, að finnast maður misheppnaður eða óþarfur, að hafa lent í meiðandi atburðum, sálræn og félagsleg vandkvæði og margt annað. Þegar rætt er um ofbeldisfulla Íslamista og einnig hægri-öfgamenn, þá er það flestum skiljanlegt hvernig áróður á netinu hefur smátt og smátt gert þá ofstækisfulla. Enginn verður ISIS-stríðsmaður með því einu að horfa á kvikmyndir af aftökum né verður til nýr Breivik við það eitt að vafra um á rasistasíðum. Þó skiljum við, að fyrir suma einstaklinga, sem eiga líka við annan hægri-vanda að glíma, þá getur ofstækisáróðurinn verið ótrúlega sterkur aflvaki til hrinda þeim yfir línuna og fá þá til að grípa til ofbeldis. Sá hinn sami hættir að líta á möguleg fórnarlömb sem manneskjur, hann hefur á meðan á áróðurinn dundi á náð að afmennska og hlutgera þau í þágu haturs síns. Ég held að við ættum að líta á ofbeldisklám sem nokkuð sem getur gert suma ofbeldisfulla og hættulega. Ekki alla karla en þá, þar sem önnur skaðleg atriði þættast saman. Karlmaður sem hefur gengið svo langt að hann æsist kynferðislega við slíkt ofbeldisklám sem ég hef þegar lýst, hann er hættur að sjá konuna fyrir sér sem kvenmann með eigin mannvirðingu, með rétt til að ráða sjálf yfir eigin líkama og losta. Að horfa á hvernig karl mígur niður í háls konu, eða að sjá hóp karla skellihlæja að grátandi konu því að hún er búin að fá svo mikið sæði í augun að hún getur ekki séð – það hefur áhrif á áhorfandann. Eitthvað brestur. Að bera þetta saman við pólitískar öfgar, það er einfaldlega til að fá fleiri til að skilja betur hvernig þetta meitlast inn og er gert eðlilegt. Hvernig mærin færast til, hvernig konur hætta að vera manneskjur, hvað þessi ofbeldishyllandi blanda af kynferðislegum æsingi og niðurlægingu getur verið óskaplega hættuleg sumum.
Viðbót:
Ég vil segja nokkur orð við þau sem lesið hafa síðustu innleggin mín um klámið. Ég er meðvituð um að síðustu daga hef ég gengið langt og getið margra viðurstyggilegra atriða, það hefur ekki verið mér auðvelt.
En með það í huga, hvernig klámið lítur út sem ég hef kannað og fengið staðfestingu á að hefur fundist í tölvum karla sem myrtu á kynferðislega-sadískan hátt, finnst mér mikilvægt að við skiljum í grunninn um hvað er að ræða.
Það er þetta sem finnst þarna út. Það er þetta sem karlar gera konum í klámiðnaðinum. Og það er þetta sem sumir karlar vilja reyna á kærustum sínum eða kaupa af vændiskonum.
Ég vil einnig þakka ykkur öllum sem hafa skrifað athugasemdir og lagt til hugmyndir, sagt frá eigin reynslu og hugsunum. Þið eruð í raun frábært samfélag, allir fylgjendur mínir, og ég er svo ánægð með það hvernig við getum saman haft áhrif og sagt frá. Þið eru meiriháttar, þakkir!
Því miður verð ég líka að staðfesta, að þrátt fyrir innlegg síðustu daga, sem hafa fengið sterkari viðbrögð en nokkur önnur frá mér komin, er næstum hlægileg þögn frá mikilvægum hóp. Körlum. Hvar eruð þið? Hvað finnst ykkur. Hvað finnst ykkur um þróunina og hvað gerir hún ykkur og sonum ykkar?
Jafnvel þótt þú sjálfur lítir ekki á eða örvast af slíkum myndböndum, þá held ég að þú vitir að þau finnast á sömu síðum og þú sjálfur flettir eða hefur flett, og hefur eflaust hugsað heilmikið um hvernig það verkar á þig og aðra karla.
Við höfum þörf á ykkur í þessa vinnu og ég vil í alvöru heyra hvað þú, sem karlmaður, hugsar.
Þýtt úr sænsku: Þýðingadeild Knúzz.