Freyja Haraldsdóttir skrifar:
Sara Ahmed, sjálfstætt starfandi femínísk fræðikona og rithöfundur, hefur í verkum sínum frætt okkur um femíníska gleðispillinn og vandræðagemlinginn og um þær langar mig að ræða í dag. Í stuttu máli sagt þá er femínískur gleðispillir ýtinn femínisti, einhver sem ýtir við skipulagi, viðteknum venjum, kerfum og siðum sem vilja ekki láta ýta við sér. Um leið drepur það gleði og hamingju -gleði og hamingju sem geta ýtt undir kúgun, ef svo má segja. Vandræðagemlingurinn veldur óhamingju eða raskar friði með því einu að hugsa um eða orða það sem veldur óhamingju en á ekki að gera það. Sem fatlaður femínískur aðgerðasinni, fræðikona, kona og manneskja tilheyri ég augljóslega bæði kynjamismunandi og ableískum heimi. Ég spilli gleði og veld vandræðum -stundum með því einu að vera í tilteknu rými – vera til staðar – vera til. En ég spilli ekki bara gleði í opinberum rýmum eða rýmum þar sem karlar ráða, mér finnst, og ég er smeyk við að segja þetta sem gæti undirstrikað óttann við að lenda í vandræðum, að ég spilli gleðinni í femínískum hreyfingum og fötlunarhreyfingum eða rýmum. Metoo-hreyfingin er engin undantekning.
Þegar #metoo hreyfingin varð til var ég sett í #metoo hóp fyrir konur í stjórnmálum á Íslandi. Fyrst var ég ánægð með að einhver hafði munað eftir mér en ég hafði verið á þingi og var virk í stjórnmálaflokki. En þegar ég las frásagnir kvennanna af ofbeldi í stjórnmálum og #metoo-yfirlýsingu hópsins, fann ég fyrir vaxandi kvíða. Umræðan var eingöngu kynbundin og lítið eða ekkert hugað að samtvinnandi mismunun, t.d. á grundvelli fötlunar eða kynþáttar. Mín reynsla af kúgun og áreitni í stjórnmálum var vissulega kynbundin en mörkuð af ableisma og þeirri staðreynd að líkami minn er hvorki „hefðbundinn“ samkvæmt kvenleika eða fötlun. Sú er alltaf raunin. Því meira sem ég las, þeim mun meira upplifði ég mig einangraða og einmana.
Vondur femínisti?
Ég vildi leggja mitt af mörkum til þessarar stórkostlegu hreyfingar sem var að myndast og átti að vera valdeflandi fyrir mig en mín reynsla passaði ekki við forsendur ríkjandi stefnu femínisma. Ég íhugaði að tjá mig um þetta og benda á það en eins og oft vill verða í femínískum hreyfingunni, var ég smeyk. Ég vildi ekki eyðileggja byltingarfjörið. Ég vildi ekki spilla gleðinni. Ég vildi ekki vera til vandræða. Og því þagði ég. Nokkrum dögum síðar sagði kona frá því á síðunni að henni þætti ekki vera fjallað í hópnum og yfirlýsingunum um mismunun vegna kynþáttar, uppruna og þjóðernis, sem samtvinnaðist kynbundnu ofbeldi og kúgun. Ég ákvað að sýna samstöðu með því að samsinna henni og fjalla einnig um afmáun fötlunar. Ég var dauðhrædd. En ég fékk fá svör. Það var þagað. Aftur. Stjórnmálakona svaraði innleggi mínu og benti mér á að þetta væri góður punktur en því miður væru þær „núna bara að fjalla um kyn.“ Í hundraðasta skiptið var ég beðin um að afmá hluta af sjálfsmynd minni. Fötlun mína. Þetta var bara ein setning en ég tók hana afar nærri mér. Ég hætti í þessum hóp á Facebook og ritaði ekki undir yfirlýsinguna. Ég var reið og sár en fann líka til skammar og sektarkenndar. Mér fannst ég vera vondur femínisti.
En ég var ekki ein.
Í starfi mínu í Tabú, femínískri fötlunarhreyfingu sem ég stofnaði ásamt öðrum fyrir fimm árum varð mér ljóst hve mörgum fötluðum konum þykja þær settar hjá eða að reynsla þeirra af ofbeldi samsvaraði ekki stöðluðum skilgreiningum á ofbeldi. Hjá mörgum okkar er ofbeldismenningin svo n ormalíseruð að við tökum ekki einu sinni eftir því. Mismunandi birtingarform ofbeldis gerir okkur erfitt að útskýra það eða jafnvel trúa því að það sé „nógu ofbeldiskennt“. Það er líka erfitt að segja sögu sína opinberlega. Í lítilli þjóð er flókið að vernda friðhelgi sína. Margar fatlaðar konur eru háðar gerendum sínum, t.d. mökum, aðstoðarfólki eða læknum og það stofnar þeim í hættu að segja sögu sína. Líkamar okkar og líf okkar sæta sífelldri grannskoðun og eru eign, ekki bara almennings, heldur líka ríkisins, hvort sem okkur líkar það betur eða verr, og hjá sumum okkar kom ekki til greina að segja frá. #Metoo-hreyfingin skapaði vissulega mikilvægar samræður í rýminu sem við höfum skapað okkur í Tabú og sumar fatlaðar konur í okkar hópi tjáðu sig og fannst það frelsandi og valdeflandi. En við tókum meðvitað þá ákvörðun sem hópur að þögnin væri áhrifameiri fyrir okkur en að segja frá eða gefa út opinbera yfirlýsingu á þessum tíma. Ég er ekki viss um hvort það var rétt ákvörðun. Það sem er merkilegt og svolítið fyndið, er að við spilltum líka gleðinni með því að þegja. Þar sem hreyfing okkar er almennt hávær beið fólk þess að við tjáðum okkur. En með því að þegja sköpuðum við vandræði.
Að upplifa útilokun og að vera haldið á jaðrinum í hreyfingu femínista er ekki bundið við #metoo. Ég fer ekki mikið frekar út í það en ég tel mikilvægt að benda á það vegna samhengisins. Íslandi er oft lýst sem hinsegin- og jafnréttisparadís. Á margan hátt hefur samfélag okkar, aðallega konur og annað jaðarsett fólk, varðað veginn þangað sem við erum í dag og við getum verið stolt af mörgu. Og við njótum forréttinda. En í einlægni sagt þá samsama ég mig ekki þessari paradís. Margt fatlað fólk gerir það ekki, einkum konur og kynsegin fólk, svart/litað fólk, flóttafólk og fólk í hælisleit. Við erum ekki hluti af þessari svokölluðu paradís. Líkamar okkar fá ekki sæti við borðið. Á okkur er ekki hlustað. Þegar við krefjumst þess í feminískum hreyfingu að á okkur sé hlustað er litið á okkur eins og forréttindakonur og aðra femínista áður fyrr (og enn er gert að vissu leyti); eins og gleðispilla og vandræðagemlinga. Og það er miklu sárara að vera talin gleðispillir og vandræðagemlingur í hreyfingum sem femíniskir gleðispillar og femíniskir vandræðagemlingar byggðu upp. Hreyfingar sem ættu að vilja bæta meiri vandræðum og gleðispillum við rætur sínar.
En hvert liggur leið okkar héðan?
Þaðan sem ég stend, eða reyndar ligg, sýnist mér það ekki vera okkar fatlaðra kvenna einna að svara þeirri spurningu. Við höfum sagt ykkur í meginstraumshreyfingu femínista það milljón sinnum. Minnt ykkur á tilveru okkar í hvert sinn sem þið gleymið okkur. Upplýst ykkur aftur og aftur þegar þið bregðist okkur. En það gengur ekki vel. Og við getum ekki beðið öllu lengur. Við hættum reyndar að bíða fyrir löngu og stofnuðum okkar eigin hreyfingu. En nú verða feminískar hreyfingar meginstraumsins að axla ábyrgð. Vinna vinnuna. Ekki taka allt plássið. Þið þarfnist okkar, þótt þið gerið ykkur ekki grein fyrir því, jafn mikið og við þörfnumst ykkar.
Að hafa fatlaðar konur með í femínískum hreyfingum þýðir ekki eingöngu að bæta okkur stefnumálum við ykkar stefnuskrá, heldur að við sameinum þær. Það þýðir sameiginlega baráttu fyrir afstofnanavæðingu og réttlátri félagsþjónustu. Það þýðir sameiginlega baráttu fyrir frjósemisréttindum sem, eins og Angela Davis benti réttilega á í gær, felur ekki bara í sér baráttu fyrir aðgengi að þungunarrofi, heldur einnig gegn þvinguðum ófrjósemisaðgerðum. Og mig langar að bæta við frelsi til að hafna þungunarrofi og jöfnum aðgangi að tæknifrjóvgun, fósturkerfinu og ættleiðingu – og aðgengilegri og smánarlausri heilsugæslu og kynfræðslu. Þetta felur í sér að gera kröfu um aðgengi að efnoslegu umhverfi og að upplýsingum. Að berjast fyrir stjórnmálaumhverfi þar sem kynbundin og ableísk ummæli ölvaðra þingmanna á bar eru ekki bara skilgreind sem fötlunargrín, heldur kynbundið og hæfisbundið ofbeldi í garð fatlaðs fólks. Það þýðir að berjast fyrir ráðningu fatlaðra kvenna í stöður hjá hinu opinbera – ekki til þess að viðh„alda ableískum kerfum og menningu heldur til þess að „kryppa upp“ þessi rými og gera grundvallarbreytingar. Það þýðir að berjast með okkur fyrir táknmálstúlkun. Að viðurkenna að kerfisbundin ableismi skapar kvengerendur og fallast á að fatlaðar konur verða fyrir ofbeldi fatlaðra karla og ófatlaðra ættingja. Allt eru þetta femínisk mál. Og þau eru fleiri.
Ég get ekki talað fyrir hönd allra fatlaðra kvenna en ég veit að margar þeirra taka undir með mér þegar ég segi að femínismi er mín líflína. Ég gæti ekki andað án femínisma. En mig langar í lokin að heiðra þá femínisku hugsun sem hefur verið grundvöllur starfs okkar í Tabú, akademískrar vinnu minnar og minnar valdeflingar og bata eftir ofbeldi; svartur femínismi. Audre Lorde, bell hooks, Patricia Hill Collins, Kimberlé Crenshaw, Angela Davis, Toni Morrison, Mia Mingus, Lydia X. z. Brown, Sara Ahmed, ég á þeim allt að þakka. Verk þeirra hafa talað til okkar og margra fatlaðra systra minna og samverkafólks í Tabú og víða um heim, frá sjónarhóli samtvinnunar um femínisma. Þótt barátta okkar virðist ekki alltaf eins er það sameiginleg reynsla af mismunun sem er þráðurinn sem við höldum í. Þegar ég er vegvillt, leita ég til þeirra. Þegar ég er hrædd, les ég það sem þær skrifa. Þegar ég þarf að vera hugrökk, þ.e. þegar ég verð að spilla gleði eða skapa vandræði, hugsa ég til þeirra. Það er þeim að þakka ég þorði að tjá mig hérna í dag. Sem hvítur femínisti veit ég að þær skrifuðu ekki endilega fyrir mig, ég er hluti af kerfinu sem heldur þeim niðri og ýtir þeirra femínisma að jaðrinum. En þess vegna er mér svo augljóst að við getum ekki lifað án hvor annarra. Það er mikilvægt fyrir framtíð femínískra hreyfinga að viðurkenna, virða, hafa með og fagna óþreytandi vinnu og framlagi fatlaðra kvenna og annarra jaðarsettra hópa fyrir jafnrétti kynjanna og félagslegu réttlæti í heiminum. Það er eina leiðin fram á við. Sú vinna á ekki eingöngu að vera falin jaðarsettum femínistahreyfingum. Ég vitna aftur í Söru Ahmed: „ Samstaða gerir ekki ráð fyrir að barátta okkar sé eins, að sársauki okkar sé sá sami eða að von okkar sé um sömu framtíð. Samstaða felur í sér skuldbindingu og vinnu, sem og þá viðurkenningu að þótt við höfum ekki sömu tilfinningar, sama líf eða sömu líkama, lifum við á sameiginlegum grundvelli.“
Erindi flutt á MeToo -Moving Forward í Hörpu 2019.
Þýðingadeild Knuz.is þýddi.
Bakvísun: Misrétti gagnvart fötluðum mæðrum er viðfangsefni feminísma – The Wheeling of Shame and Resistance