Af hverju brosir Greta Thunberg ekki?


Sannarlega er ekkert pólitískara en kona sem kýs að brosa ekki.  Þegar allt kemur til alls eiga konur að vera sælar á svipinn. Eða er ekki svo? Stúlkur eru frá blautu barnsbeini skilyrtar til að vera meðfærilegar, vinsamlegar, afsakandi. Okkur er sagt að brosa blítt og tala mildum rómi. Og sem konur erum við sífellt minntar á þetta þegar kjaftaskar gala til okkar á götum úti „vertu hress, elskan“ eða þegar nýjasta stjarnan er spottuð fyrir fýlulegan svip.

Þegar Gréta Thunberg neitaði að setja upp undirgefinn svip á ráðstefnu SÞ var það pólitísk aðgerð sem hafði gífurlegt vægi. Tímamótaræða þessarar 16 ára stúlku endurspeglaði alvarleika loftslagsvandans frammi fyrir okkur og örvæntingu hennar vegna aðgerðaleysis stjórnmálaleiðtoganna. Og hún hlífði engum þegar hún þrumaði reiðilega yfir salinn: „Þið hafið rænt mig draumum mínum og æsku með innantómum orðum ykkar. Hvernig dirfist þið?“

Andstaða hennar fór ekki fram hjá neinum. Tunguliprir álitshafar hömuðust við að hafa skoðun á högum hennar. „Gréta er misnotuð,“ skrifuðu þeir. Ég sé enga taka álíka andköf af áhyggjum yfir barnungum poppstjörnum. Tíst Donalds Trump reitti mörg til reiði. „Hún virðist vera ákaflega hamingjusöm ung stúlka með bjarta og yndislega framtíð. Mikið er gaman að sjá það!“ Þetta tíst verðskuldar tæplega svar og þetta er ekki í fyrsta sinn sem hann atar aðgerðasinna auri. En án tillits til þess sem vakir fyrir honum, af hverju ætti Gréta Thunberg að vera glöð á svipinn? Yfir hverju á að gleðjast þegar við tölum um yfirvofandi gereyðingu vegna hamfarahlýnunar af okkar völdum?

Alvöruþrungin ræða Grétu var í samræmi við vandann sem við blasir. Það var ákaflega hvetjandi að hún slakaði ekki á spennunni í salnum með brosi. Og af hverju ætti hún að láta fólk slaka á? Konur þurfa ekki alltaf að gera öðrum til geðs.

Gagnrýni á Grétu hefur alltaf verið löðrandi í karlrembu. Að ung kona – táningur þar að auki – skuli voga sér að segja valdamönnum sannleikann hefur strokið ákveðnum samfélagshópi öfugt.  Og það á einnig við um þetta tilvik.

Gréta er líka einhverf og hefur tjáð sig um það opinberlega. „Ég hef Asberger‘s og það þýðir að ég er stundum öðruvísi en aðrir.“  Þetta sagði hún á Twitter í kjölfar persónulegra árása. Hvort sem það er viljandi eða ekki, þá var stálhart fas Grétu djörf vörn fyrir jafnréttið. Það er okkur öllum áminning um að  mæla af sannfæringu, með trúverðugleika og að rýra ekki áhrifavald okkar með blíðkandi tilburðum.  #MeToo hefur sýnt okkur áhrif þess að segja að nú sé nóg komið. Og Gréta er glæsilegur merkisberi næstu kynslóðar.

Lucy Pasha-Robinson er pistlahöfundur HuffPost UK.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.