Rýnt í ráðstefnu

Katrín Harðardóttir skrifar:

MeToo Moving Forward-ráðstefnan í Hörpu var að mörgu leyti forvitnileg því þar komu saman ólíkar konur úr mörgum áttum, en ekki bara við hvítu, gagnkynhneigðu eða ófötluðu millistéttarkonurnar. Margar komu frá Norðurlöndunum en einnig frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Hollandi, og Ítalíu, að ógleymdum konum með rætur í ólíkum löndum Afríku. Undirrituð fór á ráðstefnuna og ætlunin er að stikla á því helsta sem fram fór fyrsta daginn.

Eins og segir á síðu ráðstefnunnar var leitast við að svara eftirfarandi spurningum:

  • Hvers vegna náði bylgjan þessum hæðum árið 2017 og hvers vegna voru áhrifin ólík eftir samfélagshópum, samfélögum og löndum?
  • Hvaða lærdóm má draga af #MeToo hvað varðar fjölþætta mismunun, svo sem vegna kyns, þjóðernis, stéttar, trúarbragða, uppruna, aldurs, hæfis og kynhneigðar?
  • Hvaða áhrif mun bylgjan hafa á stöðu og þróun jafnréttismála á Norðurlöndunum og í öðrum löndum?

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra opnaði ráðstefnuna. Hún benti á að ef við ætlum að komast áfram og láta áhrif metoo-hreyfingarinnar koma einhverju til leiðar sé brýn þörf á kerfisbundnum breytingum.

Á opnunarviðburði ráðstefnunnar tóku einnig Paula Lehtomäki, Purna Sen, Ásta Snorradóttir og Emma Holten til máls.

Sen lýsti yfir ánægju yfir þeim áherslum ráðstefnunnar að kynferðisofbeldi fyrirfyndist ekki aðeins innan ákveðinnar menningar eða stéttar. Viðtekið væri að kynferðisofbeldi fyrirfyndist þvert á menningu, trú og stéttir. Hún taldi að mögulegt væri að binda endi á kynferðislegt ofbeldi.

Ásta ræddi um rannsókn sem hún leiddi við félagsfræðideild HÍ og hverrar niðurstöður hafa nýlega verið afhentar félagsmálaráðherra. Rannsóknin nefnist Valdbeiting á vinnustað – rannsókn á algengi og eðli eineltis og áreitni á íslenskum vinnumarkaði og var unnin fyrir ráðuneytið. Titillinn segir allt um markmið rannsóknarinnar.

Á vef ráðuneytisins segir:

[Í rannsókninni] kemur meðal annars fram að rúmlega tveir af hverjum tíu hafa orðið fyrir einelti á vinnustað og eru konur líklegri en karlar til að greina frá því, eða um 25 prósent kvenna á móti sjö prósentum karla. Þá eru fatlaðir þátttakendur og þátttakendur með skerta starfsgetu mun líklegri til að hafa reynslu af einelti en þátttakendur án skerðingar eða fötlunar, eða 35 prósent á móti 20 prósentum.

Emma Holten ávarpaði ráðstefnugesti sem „killjoys in arms“, og taldi hugtakið hjálplegt til að lýsa feðraveldinu. Viðstaddir vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið, enda af mörgum talið vera hugtak sem ekki þarfnist meiri skilgreiningar og af öðrum talið nánast úrelt. Svo hnussaði í greinarhöfundi þegar Holten snéri sér að því að lýsa marianismo, eða tvískiptingu kvenna í hóru eða madonnu, sem Holten endurnefndi sem þær „vingjarnlegu“ (mild-mannered“) og þær „móðursjúku“. Ræða Holten var hressandi áminning um að sífellt þarf að draga gömlu hugtökin aftur inn í umræðuna, endurnýja þau og uppfæra. Með því að snúa ljótu stimplunum á haus sé hægt að stokka upp gömlu skammaryrðin og gera þau ómerk. Fundargesti kallaði hún „móðursjúkar konur,“ sem var auðvitað tekið sem hrósi, og ávarpið oft endurtekið dagana á eftir.

Opnunarræðurnar gáfu tóninn fyrir framhaldið. Ræðumenn voru með ólíkan bakgrunn, ýmist úr stjórnmálum, stjórnsýslu, fræðum og grasrót og þessi breidd virtist ekki vera nein tilviljun.

Það fólust því nokkur vonbrigði í því að sitja undir stjórnmálahjalinu á pallborðsdagskránni sem á eftir fylgdi. Það var heldur innihaldslaust og lítið um áhugaverða punkta sem þar komu fram. Hin finnska Lehtomäki tók þátt í pallborðinu. Hún er framkvæmdastjóri Norræna ráðherraráðsins og er fyrrverandi ráðherra utanríkis- og þróunarmála og umhverfisráðherra. Lehtomäki lagði áherslu á að deila þekkingu, hugmyndum og reynslu, og kallaði eftir góðum venjum til að ýta á jákvæðar breytingar. Í því samhengi lagði hún áherslu á að fá karlmenn inn í samtalið um karlajafnrétti. Það má segja að þeim sem hafa fylgst með íslenskum stjórnmálum síðustu ár hafi svelgst svolítið á þegar finnski framkvæmdaráðherrann minntist í framhaldinu á Barbershop-ráðstefnuna og þátt íslenskra ráðherra og þingmanna í henni.

Traust og siðfræði voru ekki á meðal þeirra hugtaka sem heyrðust endurtekin á ráðstefnunni. Ef karlar ætla að taka þátt í jafnréttisumræðunni er forsenda þeirrar þátttöku vafalaust sú að þeir kynni sér jafnréttismál og að þeim sé í raun umhugað um þau. Það var ekki til að auka á þetta traust þegar Thomas Blomqvist, þingmaður Flokks sænskra í Finnlandi og nýkjörinn ráðherra norræns samstarfs og jafnréttismála, hóf mál sitt. Greinarhöfundur verður að viðurkenna að erfitt var að skilja Blomqvist. Ræðan var heldur samhengislaus og hann virtist ekki alveg vita hvað hann ætti að segja. Hann lagði þó áherslu á að enn væri langt í land fyrir markmið jafnréttis, og má þá kannski búast við því að hann tali þar af reynslu og viti, um hluti sem konum er ókunnugt um, en það er í hæsta máta furðulegt að heyra hvítan forréttindakarl leggja þessar áherslur á baráttu sem konur hafa staðið að í yfir heila öld. Einnig sat íslenski forsætisráðherrann við pallborðið. Hún minntist á þá viðhorfsbreytingu sem orðið hefur síðustu fimmtán árin á meðal stráka, og tók sem dæmi syni sína á unglingsaldri sem hvá og sveia yfir ósómanum sem heyrist og sést í sjónvarpsþáttunum Friends. Undirrituð komst þó ekki hjá því að spyrja sig hvort nöfnu sinni þætti ekki óþægilegt að sitja undir fagurgalanum um íslenska rakararáðstefnukarlmenn, vitandi að þeir sætu sem fastast á sínum breiðu, tryggu þingsætum eftir Klausturfokkið í fyrra.

Justina Kehinde flutti kröftugt ljóð um ímyndaðan fund tveggja kvenna úr bókmenntasögunni sem nálgast má hér (flutningurinn hefst á sjöundu mínútu). Segja má að ljóðið sé áminning um kraft kvenna og aldalanga baráttu fyrir að vera til. Á eftir henni kom Angela Davis en hennar framlag er efni í sérstaka umfjöllun.

Svör við þeim spurningum sem settar voru fram hér að framan fengust ekki þennan fyrsta dag en það er von og vísa undirritaðrar að umfjöllun um seinni daga ráðstefnunnar muni leiða eitt og annað í ljós. Þess má geta að spurningunum var ekki svarað af ráðstefnuhöldurum í lokin heldur virðist ætlunin hafa verið að gestir myndu velta þeim fyrir sér á meðan ráðstefnunni stóð og svara þeim á persónulegan hátt. Undirrituð ákvað að taka þennan pól í hæðina og eru því þær vangaveltur sem hér koma fram algerlega á hennar ábyrgð.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.