Úr hugarfylgsnum ráðstefnuskipuleggjanda: hinir mörgu þræðir #metoo

Halla Gunnarsdóttir skrifar:

hallagmyndAð lokinni metoo-ráðstefnunni í síðustu viku spurði ég einn af femínísku hugsuðunum sem tók þátt hvað henni hefði þótt standa upp úr. Hún svaraði: „Það sem mér fannst gott við þessa ráðstefnu er að hún fékk mig til að hugsa. Ég er enn að hugsa.“

Þetta svar opnaði hjá mér nýja vídd. Á tímum háhraðans var ég búin að missa sjónar á því að stundum væri leyfilegt að taka tíma í að melta og móta hugsanir sínar. Ég var þá þegar orðin dálítið stressuð. Erlendir og innlendir fjölmiðlar voru á línunni að spyrja hver hefði verið niðurstaða ráðstefnunnar. Verður gerð skýrsla? Eruð þið að taka saman tillögur til ríkisstjórna? Skilaði ráðstefnan tilætluðum árangri? Reyndar hafði ég fengið þessar spurningar fyrir ráðstefnuna í ríkum mæli: impact, what is the proposed impact? Einu sinni svaraði ég: „Það veit ég ekki, ef ég vissi það, þá þyrftum við ekki að halda ráðstefnu“. Þetta svar þótti víst ekki mjög gáfulegt.

Markmiðin með #metoo-ráðstefnunni voru margþætt. Ráðstefnan var lykilþáttur í formennsku Íslands í norrænu ráðherranefndinni og að henni stóðu ólík fagsvið innan Norðurlandasamstarfins, meðal annars á sviði jafnréttis, vinnumarkaðar, heilbrigðismála og menntamála. Þarna komu því saman mismunandi aðilar með ólíkar áherslur og fulltrúar ólíkra landa, einhuga um að samnýta kraftana til fjalla á sem heildstæðastan hátt um #metoo-bylgjuna, áhrif hennar og drifkraft, aðgerðir og næstu skref. Úr varð umfangsmesta alþjóðlega ráðstefna sem haldin hefur verið um #metoo. Hátt í átta hundruð gestir skráðu sig til þátttöku og áttatíu fyrirlesarar stigu í pontu, auk allra þeirra sem tóku þátt í umræðum í málstofum. Ekki síður voru kaffihléin og ráðstefnupartíið mikilvægur vettvangur, því þar fengu hugmyndir byr undir báða vængi, tengsl voru mynduð milli hópa, landa og heimsálfa. Aðgangur var ókeypis, enda markmiðið að tryggja fjölbreytta þátttöku.

Stórt var spurt…

Spurningarnar sem lágu fyrir voru ekki smáar í sniðum. Bæði var leitast við að skoða áhrif #metoo á ákveðna hópa og að greina þemu sem hafa komið upp í tengslum við hreyfinguna. Þannig var til dæmis fjallað sérstaklega um samþykki, réttlæti og nafngreiningar, en allt eru þetta eldfim viðfangsefni. Einnig var kafað ofan í gildi og áhrif þess að segja persónulegar sögur til að reyna að ná fram umbótum og því var velt upp hvernig megi fást við kynferðislega áreitni út frá lýðheilsusjónarhorni.

Að mínu mati varð einlæg og kröftug nálgun frummælenda til þess að opna á umræðu sem náði dýpra ég hef áður átt að venjast. Með dýptinni koma líka óþægindi. #metoo kallar á breytingar á rótgróinni menningu og slíkar breytingar verða ekki án þess að vekja óþægilegar spurningar. Og óþægilegar spurningar geta kallað á innri átök og flókin svör. Sjálf upplifði ég það nokkrum sinnum í gegnum ráðstefnuna, stundum sem ráðstefnuskipuleggjandi og stundum bara sem velviljaður femínisti á litla Íslandi („ég veit ekki með ykkur en mér finnst mjög erfitt að vera góð manneskja,“ sagði Emma Holten í einni málstofunni og benti á að velvilji og góðmennska næðu kannski skammt í heimi sem er litaður af kynþáttahyggju, kynjatvíhyggju, nýlenduarfleifð, ableisma og svo framvegis).

Þessi innri átök eru af hinu góða – líka þegar þau rata upp á yfirborðið hvort sem það er í auðmýkt eða varnarstöðu – því þau benda til þess að hlutirnir séu á hreyfingu og án hreyfingar komumst við ekki neitt.

Spennan

Á ráðstefnunni kom fram ýmis konar spenna. Fatlaðar konur bentu á að öfugt við það sem haldið væri fram væru þær ekki þöglar um veruleika sinn, fólk hins vegar mætti ekki til að hlusta á þær. Svartar konur vöktu athygli á óþrjótandi baráttu sinni gegn ofbeldi en að það hafi þurft hvítar konur í Hollywood til að ná athygli fólks. Líkamsvirðingarfemínistar dreifðu skilaboðum þar sem vakin var athygli á skorti á umræðum um samspil fitufordóma og #metoo.

Ég játa fúslega að ég fann stundum hjá mér knýjandi þörf til að bregðast við, fara í vörn, lagfæra, gera betur. En slík svör eiga á hættu að missa marks, því þau moka yfir svo miklu betra tækifæri til að fjalla um og reyna að skilja þessa spennu (vera forvitin, eins og Cynthia Enloe hvatti til). Viðfangsefnið er ekki þessi ráðstefna ein og sér, heldur heil hreyfing og spennan er hluti af hreyfingunni. Það er ekki hægt að laga þessa spennu í eitt skipti fyrir öll, loka á hana eða tryggja að hún eigi sér ekki stað. Það er hægt að læra og læra meira og breyta og bæta, en umfram allt þurfum við að læra að takast á við þessa spennu og fjalla um hana, því hún er miklu stærri en við sem einstaklingar.

Femínískar hreyfingar geta aldrei lifað í tómarúmi.

Við skiljum ekki restina af menningunni okkar eftir fyrir utan ráðstefnustað þegar við göngum inn. Kynþáttafordómar og ableismi (til að velja tvö dæmi) eru hluti af menningunni og hafa áhrif á okkur öll. Ekkert okkar getur sagst lifa þar fyrir utan og fullyrðingar um slíkt eru aðeins til þess að forðast að takast á við óþægilegan veruleika. Á meðan fatlað fólk er enn jaðarsett þurfa femínískar hreyfingar að takast á við jaðarsetninguna innan femínismans. Á meðan rasismi lifir jafn óþægilega góðu lífi og hann gerir í dag, verða femínískar hreyfingar að takast á við kynþátt í því samhengi. Og á meðan samfélög eru enn stéttskipt, er ekki hægt að fjalla um #metoo án þess að tala um stétt. Kúnstin felst í því að fjalla um kerfisbundinn vanda (á tímum einstaklingshyggju) og kerfisbundinn vandi kallar á kerfisbundnar lausnir.

myndHallagrein

Einn af stóru kostum #metoo-ráðstefnunnar, að mínu mati, er að hún bjó til rými fyrir flókna umræðu með aðkomu ólíks fólks. Og vonandi fékk hún sem flest okkar til að hugsa. Ég er að minnsta kosti enn að hugsa.

Halla Gunnarsdóttir, einn af skipuleggjendum #metoo-ráðstefnunnar og ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.