Gósenlandið er ný kvikmynd eftir Ásdísi Thoroddsen sem um þessar mundir er sýnd í Bíó Paradís, þriðja myndin í syrpu mynda um íslenska verkmenningu og fjallar hún um íslenska matarmenningu.
Í raun mætti segja að umfjöllunarefni myndarinnar sé veröld sem var, eða veröld sem óðum mun hverfa á tímum loftslagsbreytinga og tilrauna til að sporna við þeim með breyttum neysluháttum. Ef til vill verður aldrei aftur gerð heimildarmynd um íslenska bændamenningu, og matarmenningin er óðum að breytast með loftslaginu og erlendum menningaráhrifum. En hér fáum við glugga inn í þetta samfélag meðan það enn er til, þótt hverfandi sé.
Segja má að aðalpersóna myndarinnar sé Elín Methúsalemsdóttir frá Bustarfelli í Vopnafirði, en stærstur grundvöllur myndarinnar er hún sjálf og þær hefðir sem mótast hafa í hennar fjölskyldu; síðan fáum við einnig að kynnast afkomendum hennar. Berlega kemur í ljós í myndinni hvernig verkþekking í matvælagerð erfist frá móður til dóttur, að hefðbundin íslensk matarmenning er í raun kvennamenning að upplagi. Viðmælendur tala jafnan um að svona eða á hinn veginn hafi móðir þeirra gert hlutina og síðan eru aðferðirnar aðlagaðar með hverri kynslóð.
Að sumu leyti finnst mér Gósenlandið helst til stutt mynd þó að hún sé 96 mínútur. En það er vegna þess að ég vil stöðugt fá að vita meira, ég vil fá að kafa dýpra ofan í verklag og matseld, fá meiri sögulegan samanburð. Ég er ekki viss um að aðrir áhorfendur séu sama sinnis því myndin er stórfróðleg eins og er og ef til vill yrði það að bera í bakkafullan lækinn að flækja málin enn frekar. Í myndinni er nefnilega farið nokkuð víða, til að mynda fjallað um sláturgerð, svínarækt, ostagerð, alifuglarækt, vinnslu á hákarli og upphaf þorrablóta í núverandi mynd. Sjálfur hafði ég ekki gert mér í hugarlund áður að smjör var að jafnaði súrt á Íslandi allt frá landnámi og þar til saltinnflutningur hófst fyrir alvöru fyrir skemmstu, svo ég nefni dæmi um hinn margvíslega fróðleik myndarinnar. Eðli málsins samkvæmt er ekki hægt að gera allt í svo stuttri mynd, sem auk þess er hluti af myndasyrpu um íslenska verkmenningu á breiðum grundvelli.
Stærsti kostur myndarinnar eru viðtölin við Elínu og hennar fólk og jafnast hann á við þjóðfræðilega gagnaskráningu. Hér er þekking sett fram og skýrð sem þegar hefur glatast, þar sem Elín lést fyrr á árinu. Þessi viðtöl eru fjársjóður sem ég held að færi vel á að sýna grunnskólabörnum til að fræða þau um mikilvægan hluta íslenskrar menningar sem fáum er orðinn aðgengilegur eins og samfélagið hefur þróast. Fyrir utan að vera fróðleg eru viðtölin bæði skemmtileg og fyndin. Þá eru teknir tali ýmsir fræðimenn sem varpa frekara ljósi á efni myndarinnar. Allt er þetta vel gert. Myndin er ekki síður áhugaverð fyrir þann feminíska þjóðarspegil sem hún sýnir, sem framlag til íslenskrar kvenna- og matarsögu.
Í fullkomnum heimi hefði verið hægt að fá heila 90 mínútna mynd um hvern og einn einstakan þátt þessarar myndar, en í okkar ófullkomna heimi getum við þakkað fyrir að fá þó þessa verðmætu innsýn í menningu og samfélag sem á undir högg að sækja og mun sennilega líða undir lok meðan núverandi kynslóðir eru uppi. Ásdís Thoroddsen minnir okkur á uppruna okkar með þessari hlýlegu og sérstöku mynd og sýnir okkur umbúðalaust hvernig samband manna og búfjár hefur verið gegnum aldirnar. Það er því ekki löstur á myndinni að ég hefði viljað meira af henni, heldur sýnir það öðru nær kosti hennar. Land okkar er auðugt af alþýðumenningu sem lofsvert er að halda á lofti og skrásetja fyrir komandi kynslóðir. Saga kvenna hefur auk þess lengst af verið hliðskipuð í söguritun en hér er menning kvenna sett í öndvegi. Sérstaklega má þakka fyrir það.
Myndina má sjá í Bíó Paradís næstu daga til og með 24. október og mæli ég með henni fyrir öll þau sem áhuga hafa á kvennasögu og íslenskri matarmenningu.
Arngrímur Vídalín, aðjunkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands