„Fótalausir geta hlaupið maraþon….“

Fyrirsögnin er tilvitun í Huldu Ragnheiði Árnadóttur sem veitir Félagi kvenna í atvinnulífinu forstöðu í Kastljósumræðum 24. október vegna ákvörðunar Íslandsbanka um að eiga eingöngu auglýsingaviðskipti við fjölmiðla þar sem kynjajafnrétti er í fyrirrúmi.

Huldaragnheiðurárnadóttir

Hulda Ragnheiður Árnadóttir

Ákvörðun stjórnar Íslandsbanka hefur vakið misjöfn viðbrögð. Fimmta heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um jafnrétti karla og kvenna liggur að baki henni. Það er eitt og hið sama og markmið jafnréttislaga Íslands, laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008, sem „er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins.” Markmiði þessu skal m.a. náð skv. lögunum með því að vinna að jöfnum áhrifum kvenna og karla í þjóðfélaginu og breyta hefðbundnum kynjaímyndum og vinna gegn neikvæðum staðalímyndum um hlutverk kvenna og karla.

Í fjórða kafla jafnréttislaganna um bann við mismunun á grundvelli kyns segir í 24. gr. Hvers kyns mismunun á grundvelli kyns, hvort heldur bein eða óbein, er óheimil.” Jafnframt segir að sértækar aðgerðir (til þess að leiðrétta kynjahalla) gangi ekki gegn lögunum.

Jafnréttislögin ná til samfélagsins alls, hvort sem um er að ræða hið opinbera eða einkaaðila. Með hliðsjón af jafnréttislögunum má halda því fram með rökum að kynjahalli í fyrirtækjum á sviði fjölmiðla hvort sem það gildir um mannaráðningar eða val á viðmælendum sé brot á jafnréttislögum. Engin viðurlög liggja hins vegar við brotum á jafnréttislögum. Jafnframt má fullyrða að fyrirtæki hvort sem það er í eigu ríkisins eða einkarekið sé heimilt að grípa til sértækra aðgerða til að ná fram markmiðum laganna. Ákvörðun Íslandsbanka er því í samræmi við bókstaf og anda jafnréttislaganna.

Í orði kveðnu er flestir, ef ekki allir, hlynntir jafnrétti. Þegar til kastanna kemur þá afhjúpar orðræðan oftar en ekki önnur viðhorf svo sem mátti heyra í þingsal á kvennafrídeginum 24. október vegna málsins.

Sigmundur D. Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, nefndi m.a. að Íslandsbanki væri að beita fjármagni sínu og nýta afl sitt í þvingunarskyni í þágu „áhugamáls“ bankans. Fylgi fjölmiðlar ekki „stefnu“ bankans verði þeim refsað fjárhagslega. Þannig væri bankinn farinn að taka sér vald á sviði dagskrárgerðar og mannaráðninga.

eddahermannsdóttir

Edda Hermannsdóttir kynnti hugmyndir Íslandsbanka um viðskipti við fyrirtæki sem virða heimsmarkmið SÞ

Þingmaðurinn hefði alls eins getað sagt að með ákvörðun bankans væri verið að framfylgja settum jafnréttislögum og jafnframt 26. gr. laga um fjölmiðla nr. 38/2011 um lýðræðislegar grundvallarreglur en lagagreinin hljóðar svo:

„Fjölmiðlaveita skal í starfi sínu halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og standa vörð um tjáningarfrelsi. [Hún skal virða mannréttindi og jafnrétti, og einnig friðhelgi einkalífs nema lýðræðishlutverk fjölmiðlaveitu og upplýsingaréttur almennings krefjist annars.] 1) Fjölmiðlaveita skal gæta þess að uppfylla kröfur um hlutlægni og nákvæmni [í fréttum og fréttatengdu efni] 1) og gæta þess að mismunandi sjónarmið komi fram, jafnt karla sem kvenna.“

  1. gr. fjölmiðlalaga tilgreinir einnig að fjölmiðlanefnd eigi að veita eigi upplýsingar um jafnréttisáætlanir fjölmiðlaveitna, eins og við á, á vefsvæði sínu. Því er við að bæta að öllum vinnustöðum með 25 starfsmenn eða fleiri er skylt að vera með jafnréttisáætlanir skv. jafnréttislögum.

Þetta sögðu karlarnir

Í ljósi ákvæða jafnréttis- og fjölmiðlalaga má þannig segja að Íslandsbanki sem ríkisfyrirtæki sé að uppfylla skilyrði fremur en að vega að frelsi og sjálfstæði fjölmiðla eins og Óli Björn Kárason, formaður viðskiptanefndar Alþingis, fullyrti í umræddum Kastljósþætti og tók þar með undir ummæli Sigmundar.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra vildi jafnframt meina að valfrelsi Íslandsbanka væri á svig við eigendastefnu ríkisins. Í framhaldi skilgreindi hann jafnréttisaðgerð bankans sem „hugmyndafræði“ bankans í umræðum á Alþingi. Orðræða Bjarna virðist vera í anda þess bakslags sem því miður er nú í gangi gegn kynjajafnrétti víðsvegar í Evrópu og öðrum heimsálfum. Sem dæmi er í auknum mæli tilraun gerð til þess að líta á kynjafræði (e. gender studies) sem áróðurstengda hugmyndafræði frekar en mikilvæga grein innan félagsvísinda. Til að mynda var gengið svo langt að hálfu ríkisstjórnar Viktors Orbans í Ungverjalandi þann 12. október 2018 að banna kynjafræði í háskólum. Tilskipunin gekk að fullu í gildi sl. september. Bannið endurspeglar afar gamaldags og karllægar hugmyndir um stöðu kynjanna á 21. öld og lýsir ennfremur andúð í garð bæði kvenfrelsis og réttinda hinsegin fólks. Banninu var víða harðlega mótmælt með vísan til neikvæðra áhrifa á stöðu mannréttinda og lýðræðis en allt kom fyrir ekki.

Bæði Bjarni og Óli Björn bentu á að bankinn yrði að vera samkvæmur sjálfum sér og gera kröfu til sjálfs síns með vísun til starfahlutfalls kvenna og karla innan bankans. Því var bætt við að gera yrði þá kröfu til ríkisfyrirtækis að gæta jafnræðis. Þannig yrði bankinn sem dæmi að gera sömu kröfu til sjávarútvegsfyrirtækja sem viðskiptavina og fjölmiðlaveitna.

Misskilningur eða vanþekking?

Augljóslega má álykta að hér gæti ákveðins misskilnings eða vanþekkingar. Bankinn er ekki beinlínis að hafna fjölmiðlaveitum sem viðskiptavinum. Hins vegar hefur bankastjórnin ákveðið að eiga helst viðskipti við fjölmiðafyrirtæki þar sem kynjajafnrétti er haft í fyrirrúmi í samræmi við jafnréttis- og fjölmiðlalög. Í Kastljósþættingum varpaði Hulda Ragnheiður fram þeirri spurningu hvers hlutverk það væri að fara fram með góðu fordæmi og vera frumkvöðull í jafnréttismálum ef ekki ríkisins eða fyrirtækja í þeirra eigu? Það hefur m.a. RÚV gert með virkri jafnréttisstefnu sinni þar sem öllum þáttagerðarstjórnendum er skylt að fá jafnt karla og konur sem viðmælendur og halda um það bókhald. Kynjabókhaldið er síðan birt reglulega á vefsvæði RÚV.

RÚV er til fyrirmyndar hvað þetta varðar og öðrum til eftirbreytni óháð eignarhaldi enda eru fjölmiðlar ekki eins og hver önnur fyrirtæki. Vísað er til fjölmiðla, óháð eignarhaldi, sem fjórðu stoð lýðræðisins. Af þeim sökum gilda um fjölmiðla sérlög enda hafa stjórnendur þeirra bæði dagskrárgerðarvald og túlkunarvald í samfélaginu. Það hver fer með það umtalsverða vald sem fjölmiðlar búa yfir hefur mikið að segja um birtinga- og fyrirmyndir karla og kvenna í samfélaginu. Tvær rannsóknir sem gerð var grein fyrir í skýrslu ráðherra um stöðu og þróun jafnréttismála, annars vegar árið 2015 og hins vegar 2018, sýna m.a. að á tímabilinu 2011-2016 voru konur síður viðmælendur (um 30%) í fréttatímum og þáttum bæði útvarps og sjónvarps RÚV og 365 Miðla. Breyting til hins betra hefur orðið hjá RÚV. Efnisflokkagreining seinni skýrslunnar staðfestir hins vegar til viðbótar að konur eru eingöngu meirihluti viðmælenda þegar rætt er um jafnréttismál og félagsmál sem er í takt við mosagrónar staðalímyndir kynjanna.

„Rétt“ eða „rangt“?

Að lokum er afar athyglivert að huga að orðavali þáttastjórnandans Einars Þorsteinssonar í umræddum Kastljósþætti. Hann spurði hvort það sé „rétt“ af af ríkisbanka að setja fjárhagslegan þrýsting á „frjálsa fjölmiðla“ og  innleiða heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og „beita gegn“ fjölmiðlum. Er það „skynsamlegt“ spyr hann viðmælendur sína. Hann heldur því síðan fram að það sé einfaldara fyrir ríkisfjölmiðil með meira fjármagn en einkafjölmiðla að uppfylla skilyrði jafnréttislaga. Það sem vekur þó hvað mesta undrun og stendur upp úr er að þáttastjórnandinn og viðmælendur hans í þættinum sem og þingmenn í umræðum á Alþingi skuli eingöngu vísa í heimsmarkmiðin en minnast ekki einu orði á gildandi jafnréttis- og fjölmiðlalög. Land skal með lögum byggja. Punktur.

Magnea Marinósdóttir, alþjóðastjórnmálafræðingur 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.