Konur mótmæla í Chile: „Handteknu stelpurnar sögðu að þeim hefði verið nauðgað“.

Kúgun og ofríki hefur verið hlutskipti sílesku þjóðarinnar undanfarið. Mótmæli hófust í kjölfar hækkunar á aðgangi í neðanjarðarlestir, en nú hafa þau breiðst út á landsvísu og er meginkrafan afsögn forsetans Sebastiáns Piñera. Við aðstæður þar sem kúgun, dauðsföll, mannshvörf, tilviljunarkenndar handtökur, pyntingar og pólitískt ofbeldi ríkir, eru það enn og aftur konur sem reynist hvað varnarlausasti hópurinn.
Sumargai Vergara er sílesk kona, félagsfræðingur og íbúi í Valparaíso. Hún útskýrir að mótmælin hafi vissulega brotist út vegna hækkunarinnar en að hún sé þó ekki lengur eini drifkrafturinn. Nú krefst fólk einnig umbóta í heilbrigðiskerfinu, en sífellt fleiri dauðsföll innan kerfisins má rekja til skorts á aðföngum. Einnig hafa komið fram kröfur um bætt aðgengi að menntun sem ungt fólk hefur lengi barist fyrir, sem og umbætur á grunnþjónustu en hátt verð fyrir hana er gagnrýnt.

„Við erum búin að fá nóg. Ríkisstjórnin hefur verið mjög sinnulaus gagnvart borgurum; ekki eru næg rúm á sjúkrahúsum, það vantar aðföng, ástandið er almennt ótryggt. Fólk vinnur gegndarlaust, við höfum engan tíma aukreitis, allt er mjög dýrt, það er þrengt að okkur úr öllum áttum“.
„Nú verður ekki aftur snúið. Ríkisstjórnin talar einungis um þessa 30 pesóa hækkun en hún jafngildir 20% af meðal mánaðarlaunum í Santiago og í héruðunum í kring. Að auki, og þetta varðar allt landið, erum við uppiskroppa með vatn.“

Samkvæmt Vergara hefur konum verið ítrekað misþyrmt, þær pyntaðar og þurft að þola kynferðislegt ofbeldi af hendi lögreglunnar, sem síleska ríkisstjórnin hefur teflt fram gegn mótmælendum.
„Það er ýmislegt misjafnt í gangi. Stúlkur hafa verið handteknar, afklæddar og þeim nauðgað. En ekkert er skráð, það er enginn í forsvari fyrir þær. Í skjóli útgöngubannsins eru stúlkurnar hrifsaðar af götunni og fólk er skotið hvenær sem verða vill“, gagnrýnir hún.

Frammi fyrir kúgun, tilhæfulausum handtökum, herkví, pyntingum og tryllingi sem beinist að líkömum kvenna, hvarflar hugurinn að gömlum djöflum frá ekki svo fjarlægu tímabili. En sílesku konurnar láta ekkert hræða sig, heldur taka sér stöðu á götum úti:
„Ömmur okkar, frænkur og mæður láta heyra í sér. Það eru þær sem helst fara út að mótmæla því það voru þær sem upplifðu hryllinginn sem ungar konur. Þær eru óhræddar. Þær vita hvað á að gera, þær vita hvað bíður okkar, þær eru undirbúnar. Þær eru ekki eins og kynslóð okkar sem aðeins heyrði af og las um það sem gerðist þá“.

„Við búum við annars konar ógn en karlarnir. Á tímum sem þessum erum við konur varnarlausari, ástandið hefur líkamleg áhrif á okkur.  Áfallið sem við erfðum frá mæðrum okkar blossar aftur upp. Sagan endurtekur sig og þetta er það sem við tökum með okkur út, þessi þyngsli, þetta minni um varnarlausa líkama“.

Vergara leggur áherslu á aðgerðir almennings og sjálfsprottin viðbrögð nágranna í hverfunum. Fólk hefur lagst á eitt til að tryggja upplýsingaflæði með mismunandi hætti, en hefðbundnir miðlar sýna einungis frá óeirðunum og rán í verslunum og heimilum.
„Almenningur sér aðeins eyðileggingu og niðurbrot í sjónvarpinu sem er gagngert sýnt til að fæla fólk frá mótmælunum. En við dreifum upplýsingum á netinu og fáum fólk til að koma út á götu“.

 

Á hinn bóginn segir Vergara að síleska ríkisstjórnin hafi alls ekki dregið úr misbeitingu valdsins: „útgöngubannið nær yfir sífellt lengra tímabil. Engar upplýsingar er að finna, ekkert er sagt um manntjónið. Við þurfum sjálf að sjá um að upplýsa okkur, og á sama tíma vera úti á götu. Til að geta deilt upplýsingum með allri Síle.“
„Við vitum ekki hversu lengi við getum veitt viðnám eins og ástandið er, en við viljum að forsetinn segi af sér. Ríkisstjórnin hefur leikið sitt hlutverk í sautján ár, og þetta eru sömu gömlu valdaræningjarnir. Þetta eru þeir sömu“.

Unnið upp úr grein eftir Constanza Terranova, sem nálgast má hér.

Þýðing: Katrín Harðardóttir.

 

 

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.