Viðurkenningar Jafnréttisráðs 2019

KatrínJakobsdóttirÁ síðasta degi októbermánaðar voru afhentar viðurkenningar Jafnréttisráðs 2019. Silja Bára Ómarsdóttir, forman Jafnréttisráðs, bauð fólk velkomið en síðan sá  Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra um að afhenda viðurkenningarnar.

Þemað í ár var grasrótarstarf sjálfboðaliða og var vel við hæfi að Rauðsokkurnar fengju fyrstu viðurkenninguna fyrir baráttu sína fyrir kyn- og frjósemisréttindum. Í rökstuðningi ráðsins segir:

Í ljósi nýrra laga um þungunarrof, sem samþykkt voru á Alþingi í maí 2019, er óhjákvæmilegt að líta um öxl og minnast verka þeirra kvenna sem gengu í berhögg við samfélagið þegar það var mun minna móttækilegt fyrir hugmyndum um sjálfsákvörðunarrétt kvenna yfir eigin líkama. Með þessari viðurkenningu er barátta þeirra heiðruð og þeim þakkað fyrir brautryðjendastarf sitt, sem birtist m.a. í svokölluðu fóstureyðingahefti tímaritsins Forvitin rauð árið 1972. Þar vörpuðu þær ljósi á ómannúðlegar aðstæður sem konur bjuggu við fram að því, vildu þær láta rjúfa þungun. Frumvarp Rauðsokkanna um frjálsar fóstureyðingar náði ekki fram að ganga en útvatnað frumvarp varð að lögum árið 1975. Þau lög voru engu að síður mikið framfaraskref og óhætt að fullyrða að ef Rauðsokkurnar hefðu ekki sett kyn- og frjósemisréttindi á dagskrá værum við komin skemur á veg. Barátta þeirra var mikið átakamál og þeim var stillt upp í fjölmiðlum sem lauslátum, siðspilltum og vondum mæðrum. Baráttan tók á og fólk jafnvel hvæsti á þær af hatri. Það þarf ekki bara kjark og staðfestu til að berjast fyrir kvenfrelsi við þessar aðstæður, það þarf líka brennandi ástríðu til að breyta heiminum til betri vegar.

Barátta Rauðsokkanna gerði heiminn betri og ruddi brautina fyrir komandi kynslóðir. Rauðsokkurnar eru okkur innblástur til að halda áfram baráttunni fyrir kvenfrelsi og jafnrétti.

Efri röð: Silja Bára Ómarsdóttir, forman Jafnréttisráðs, Þuríður Pétursdóttir, Hildur Hákonardóttir, Guðrún Hallgrímsdóttir, Rannveig Jónsdóttir, Elísabet Gunnarsdóttir, Edda Óskarsdóttir og Katrín Jakobsdóttir. Neðri röð: Lilja Ólafsdóttir, Vilborg Sigurðardóttir, Helga Ólafsdóttir, Björg Einarsdóttir og Gerður Óskarsdóttir. Mynd: Sigríður Pétursdóttir

Síðan tóku talskonur Rótarinnar við viðurkenningu. Í rökstuðningi ráðsins segir:

Rótin er félag áhugakvenna um konur, fíkn, áföll, ofbeldi og geðheilbrigði. Félagið er brautryðjandi í umræðunni um tengsl áfalla, ofbeldis og fíknar hér á landi. Rótin var stofnuð í Reykjavík 8. mars 2013 og hefur því starfað óslitið á sjöunda ár.

Frá upphafi hefur Rótin beitt sér með eftirtektarverðum hætti í opinberri umræðu um þjónustu við konur og börn sem eiga við fíknavanda að stríða. Talskonur Rótarinnar hafa vakið athygli á ýmsum brotalömum í heilbrigðisþjónustu á þessu sviði. Þær hafa verið óþreytandi við að benda á tengsl áfalla og ofbeldis gagnvart konum við fíkni- og geðsjúkdóma. Þær hafa fært gild rök fyrir nauðsyn kynjaskiptrar meðferðar og gagnrýnt að börn séu höfð í fíknimeðferð með fullorðnum. Rótin hefur einnig varað við hvers kyns hræðsluáróðri um fíkn og afleiðingar hennar. Þá má nefna að Rótin hefur gefið út leiðbeiningar fyrir konur sem vilja tjá sig um fíkn eða áföll opinberlega og heldur reglulega fræðslunámskeið sem er sérstaklega beint til kvenna. Rótin hefur með starfi sínu og málflutningi ögrað viðteknum kenningum og hugmyndum í samfélaginu um konur og fíkn og leiðir til bata..

rótin3

Guðrún Erna Hreiðarsdóttir, Þórlaug Sveinsdóttir, Guðrún Ebba Ólafsdóttir og Kristín I. Pálsdóttir tóku við. Katrín afhenti. Mynd: Birgir Ísleifur

Vefritið Knúz fékk  fjölmiðlaviðurkenningu Jafnréttisráðs. Í rökstuðningi segir:

Vefritið Knúz var stofnað haustið 2011. Að því stendur hópur áhugafólks um femínisma og jafnrétti. Knúzið opnaði formlega með fyrsta pistli sínum 23. september 2011. Fyrsta ritnefnd lagði grunninn að Knúzinu sem stækkaði ört á næstu misserum. Skömmu eftir stofnun setti Knúz sér það metnaðarfulla markmið að birta grein í hverri viku. Yfir fimmtíu manns komu að vefritinu og Knúzið skipaði sér fljótt sess sem öflugur vefmiðill. Rödd þess fyrir jafnrétti og femínisma var og er sterk. Knúzið hefur opnað augu margra með frumkvæði í femíniskri umræðu með beittum og ákveðnum efnistökum.

Knúz – femíniskt vefrit birtir greinar eftir breiðan og fjölbreyttan hóps fólks sem skrifar um jafnrétti og femínisma. Rétt eins og hópurinn sem stendur að vefritinu þá eru greinarnar jafn fjölbreyttar og þær eru margar. Viðfangsefnin eru allt frá nauðgunarmenningu til launamisréttis auk þess sem tekið er á stórum málum eins og forréttindum. Knúzið hefur einnig verið sterkt aðhald á stjórnmálaflokka með því að senda þeim spurningar um jafnréttismál fyrir kosningar og fylgja þeim svo eftir.

Í kringum #MeToo byltinguna var Knúzið mjög virkt og sýndi þá styrk sinn með virkni á samfélagsmiðlum og vefsíðu. Hin öfluga rödd þess var mikilvæg til að breiða út mikilvægan boðskap byltingarinnar. Með hartnær 8500 fylgjendur á Facebook er óhætt að segja að Knúzið nái til fjölda fólks. Það hefur verið með puttann á púlsinum um langt skeið. Kynslóðaskipti hafa orðið í ritstjórn og vefritið virðist óþreytandi í jafnréttisbaráttunni. Knúz slær heldur ekkert af þegar kemur að vönduðum þýðingum og ritmáli.

Rödd Knúzins er sterk í baráttunni fyrir kvenfrelsi og jafnrétti. Knúzið hefur sýnt frumkvæði og opnað augu margra fyrir mikilvægi femínískrar umræðu í samfélaginu.

Alnetið þarf knúz miklu oftar. 

Knúzið var stofnað haustið 2011 í minningu vinar okkar, Gunnars Hrafns. Hann gaf okkur kjörorðið sem alltaf hefur fylgt vefritinu: „Alnetið þarf knúz. Annars breytist það í vígvöll.“ Á þessum átta árum höfum við náð að birta um 1200 greinar um femínisma og jafnrétti. Höfundar eru um 230. Við höfum einnig haldið úti læksíðu fyrir Knúzið á Fésbók og hana er að finna hér. Við ætlum að halda áfram að knúza nærsamfélag okkar og fjærsamfélag eftir bestu getu.

Silja Bára Ómarsdóttir, forman Jafnréttisráðs, Gísli Ásgeirsson, Guðrún C. Emilsdóttir, Ásdís Thoroddsen, Sigríður Pétursdóttir og Katrín Jakobsdóttir. Mynd: Birgir Ísleifur.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.