Hin vonlausa staða þolenda

Frá ritstjórn Knúz

Föstudaginn 1. nóvember síðastliðinn birtist pistill eftir Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur á vefmiðli Fréttablaðsins, þar sem hún fagnar niðurstöðum tveggja ólíkra dóma sem féllu í vikunni. Annað málið varðar baráttu Freyju Haraldsdóttur fyrir því að fá réttláta málsmeðferð í umsóknarferli til ættleiðingar barns, en síðara málið varðar dóm sem féll gegn Leikfélagi Reykjavíkur og Kristínu Eysteinsdóttur, sem voru dæmd til að greiða Atla Rafni Sigurðarsyni skaðabætur vegna ólögmætrar uppsagnar. Hér verður gerð tilraun til að svara þeim hluta greinarinnar sem snýr að máli Atla Rafns.

Steinunn Ólína tekur sérstaklega fyrir eina af þeim konum sem hafa tjáð sig um málið, Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur, en hún er kynnt sem kona sem hafi „tilnefnt sjálfa sig sem talsmann ofbeldisfórnarlamba“.
Mál Þórdísar Elvu er mjög óvenjulegt að því leyti að gerandinn steig fram og axlaði alla ábyrgð af gjörðum sínum. Þrátt fyrir þessa staðreynd, talar Steinunn Ólína um hann sem „meintan ofbeldismann“ og að Þórdís Elva hafi „sagst hafa orðið fyrir ofbeldi“, og ýjar þannig að því að málið sé uppspuni. En Steinunn Ólína segist vera umhugað um það sem hún kallar „nýjan mannréttindaskilning“ sem ku sprottinn af #MeToo byltingunni..

Takmark #MeToo er í sjálfu sér ekki endilega að „uppræta ofbeldi“ eins og Steinunn Ólína virðist telja. Vissulega hljótum við öll að vera sammála um að það væri aldeilis gott að ná að uppræta allt ofbeldi, af hvaða toga sem það er, en konurnar sem stíga fram, rjúfa þögnina og segja sögur af áreitni og ofbeldi á vinnumarkaðnum undir myllumerkinu #MeToo, gera það fyrst og fremst til að losa sig undan skömminni sem fylgir iðulega kynferðislegri áreitni eða ofbeldi og færa ábyrgðina yfir á gerandann. Það er þeirra eigin persónulega skref í átt til frelsis undan afleiðingum ofbeldisins.

Samfélagið er skiljanlega skekið af öllum þeim fjölda mála sem hafa komið fram undanfarin ár og þegar #MeToo bylgjan reis hvað hæst, var það holskefla sem sárt var að standa undir. Það er erfitt að horfast í augu við þann arma sannleika að nánast allar konur verða fyrir einhvers konar kynferðislegri áreitni á lífsleiðinni og að allt of margar eru beittar alvarlegu líkamlegu og andlegu ofbeldi. Varnarviðbrögðin hafa því miður stundum verið þau að reyna að gera lítið úr þessu öllu saman. Þetta eru líklega mjög eðlileg viðbrögð en ekki er þar með sagt að þau séu heilbrigð.
Fólk tekur furðu auðveldlega upp hanskann fyrir gerendur, tjáir áhyggjur af mannorði þeirra og framtíð en skautar þá um leið yfir líðan þolenda og afleiðingar sem þau þurfa að kljást við. Þannig er ofbeldismenningunni viðhaldið, þvert á það sem væri óskandi.

Í þessum sömu varnarviðbrögðum er algengt að sjá minnst á að viðkomandi þolandi sé að brjóta einhvers konar reglur með því að tjá sig. Þessar reglur virðast þó geta beygst og breyst eftir því hvernig atburðarásin var hverju sinni. Þolandinn kemur fram undir nafni og er þá að trana sér fram í leit að athygli, þolandi óskar nafnleyndar og er þá að eyðileggja allt í baráttunni gegn ofbeldi, þolandi nefnir geranda og er að myrða hann og mannorð hans, þolandi nefnir ekki geranda og er þar með að gera alla grunsamlega… svona má lengi áfram telja. Engin hegðun er „rétt“, nema sú að grjóthalda kjafti.

Þórdís Elva og allar #MeToo konurnar eiga það eitt sameiginlegt að mölbrjóta regluna um að halda kjafti. Allt annað er persónubundið og kemur engum við nema hlutaðeigandi. Sumar treysta sér til að koma fram undir nafni, aðrar kjósa að fá að njóta nafnleyndar. Aktívistar sem hafa áhuga og vilja til að berjast gegn ofbeldis- og nauðgunarmenningu hafa staðið og munu áfram standa jafn keik með öllum þolendum.

Dómsmálið gegn Leikfélagi Reykjavíkur mun fara áfram til Landsréttar og þar verður endanlega úr því skorið hvort uppsögn Atla Rafns sé ólögmæt eða ekki. Hvernig sem það fer, teljum við að Kristín Eysteinsdóttir hafi gert hið eina rétta í afar erfiðu máli. Hún kaus að standa vörð um öryggi og tilfinningar starfsfólks sem var í veikri stöðu og leggja þannig sitt á vogarskálarnar í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi. Þetta segist hún hafa gert í góðri trú á og eftir að hafa ráðfært sig við fagfólk.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.