Brjóstmálajól

Feminist maryÉg velti stundum fyrir mér
hvort María hafi lagt Jesú á brjóst
hvort hún hafi rekið upp hljóð þegar hann beit sig fastan
og grátið þegar hann tók ekki geirvörtuna.

Ég velti stundum fyrir mér
hvort þetta séu of grófar spurningar
að spyrja í kirkju
fullri af karlmönnum
sem standa í stólnum
með enga mjólkurbletti á skyrtunum
eða smyrsl á geirvörtunum
og prédika án afláts
um Móður Guðs.

Og þá minnist ég að Jesús nærðist
og að hann fæddist
að blóðið rann
og að svitalyktin steig upp
og að sölt tár móðurinnar féllu
á mjúkan koll Salts jarðar
ég minnist þeirrar tilfinningar að vera einmana
svöng
ergileg
buguð
elskandi.

Og ég held
að ef fæðingargroddinn
er ekki prédikaður af einlægni
af mönnum sem
bera vald en engar byrðar
hafa forréttindi en engar hríðar
og eru yfir vald en aldrei undir vald settir
þá sé betra að sleppa því að tala um efnið.

Því að hneyksli Guðs fæðingar
liggur í sprungnum geirvörtum
fjórtán ára unglings
og ekki í prédikunum þeirra
sem segja að konur séu of viðkvæmar
til að stjórna.

Kaitlin Hardy Shetler, þýð: Sigríður Guðmarsdóttir

Myndin var tekin héðan:  https://www.stylist.co.uk/life/feminist-christmas-songs-hymns-hyrrs-refuge-carols/179333