Franska gríman fellur

Höfundur: Kristín Jónsdóttir

 

Franskt samfélag hefur vissulega ekki farið varhluta af #metoo hreyfingunni. Mörg mikilvæg skref hafa verið stigin í áttina að því að brjóta niður traustbyggðan varnarmúrinn utan um það sem eldri kynslóðir enn kalla „daður“. Það hefur verið erfitt fyrir mörg að viðurkenna að ef valdahlutfallið er skakkt er þessi forna „listgrein“ er stunduð, þá séu mörkin milli daðurs og áreitni (og jafnvel mörkin milli kynlífs og nauðgunar) mun vandmeðfarnari en áður og iðulega ekki virt.

Skemmst er að minnast þess að hin stórfræga leikkona og holdgervingur kvenímyndarinnar, Catherine Deneuve, lýsti yfir áhyggjum sínum af þessari þróun og stillti sér í vörn fyrir „má-þá-ekki-neitt“ liðið. Það er ótrúlega rótfast í Frökkum að daður sé nauðsynlegur hluti af lífinu og vanskilningur á hugmyndinni um gagnkvæmt samþykki hefur gert femínistum og öðrum sem vilja breyta þessum hugsunarhætti erfitt fyrir í baráttunni fyrir betra samfélagi.

Vanessa Springora

En nú hefur bátnum verið ruggað hressilega því rétt fyrir jól spurðist út að í byrjun janúar kæmi út bók eftir Vanessu Springora, þar sem hún segir frá sjúku sambandi sínu við rithöfundinn Gabriel Matzneff þegar hún var fjórtán ára en hann fimmtugur. Bókin ber titilinn Samþykki (Consentement) og kemur út hjá Grasset útgáfunni. Síðan af henni fréttist, hefur umræðan um ómöguleika gagnkvæms samþykkis í skugga valdaójafnvægis hlotið byr undir báða vængi. Fjölmiðlar hafa tekið hressilega við sér og hefur ein af óvæntu aðalpersónum þessa storms í frönsku bókmenntakreðsunni nú, þegar þetta er ritað, verið tekin í viðtal af rúmlega tuttugu dagblöðum, tímaritum og vefritum.

Þessi óvænta aðalpersóna er kanadíski rithöfundurinn Denise Bombardier sem var, ásamt Gabriel Matzneff, boðið í franska bókmenntaþáttinn Apostrophes, árið 1990. Hún las þá bókina sem var til umfjöllunar í þættinum og ofbauð gersamlega lýsingar, sem meðal annars segja frá endaþarmsmökum við stúlkur undir lögaldri. Hún ákvað, áður en hún mætti í sjónvarpssal, að taka afstöðu gegn Matzneff í beinni útsendingu. Myndbrotið hefur farið víða undanfarna daga og í því segir Bombardier hátt og skýrt að bókmenntir eigi ekki að vera neins konar skálkaskjól fyrir barnaníð, en það sem hann sé að lýsa sé ekkert annað en það og að ljóst sé að þetta séu ekki skáldaðar lýsingar. Hún líkti honum við gamlan karl sem tælir börn til sín með sælgæti. Myndbrotið er átakanlega lýsandi fyrir tíðarandann í Frakklandi á þessum tíma, sjálfur Bernard Pivot að ræða þessa opinskáu barnagirndarkafla við Matzneff í einhvers konar gríntóni. Á settinu eru rammkaþólsk hjón og konan hlær hjartanlega með þessari hörmungarsenu. Það kemur svo á alla þegar Bombardier brýst fram og hellir sér yfir Matzneff.

Denise Bombardier

Viðbrögð frönsku bókmenntaelítunnar þarna, fyrir þrjátíu árum síðan, voru að taka afstöðu með Matzneff. Philippe Sollers (eiginmaður Juliu Kristevu) kallaði Denise Bombardier til dæmis tussu (connasse) í grein gegn henni í dagblaðinu Le Monde, og ekki hefur birst önnur umfjöllun um nokkra bók Denise Bombardier í því virta vinstrisinnaða og menningarlega dagblaði síðan þá.

Matzneff hefur hins vegar haldið áfram sinni þægilegu stöðu sem virðulegur rithöfundur, sem „listamaður“, og hlaut meira að segja Renaudot bókmenntaverðlaunin árið 2013.

Ekkert benti til þess að nokkur hefði eitthvað við þennan mann og lífsstíl hans að athuga, en ef svo var, þorði það fólk ekki að tjá sig opinberlega, enda svo fádæma lummó að „vera á móti daðri“, hvað þá að skilja ekki að ungar stúlkur (og drengir) hafi kynhvöt og séu því algerlega sjálfsögð viðföng graðra eldri karla. En þessi afstaða með Matzneff var alls ekki tilviljun eða ný af nálinni og byggir á mun dýpri grunni en fólk gæti talið.

Við þurfum að fara allt til 1968. Þá blossar upp heilmikil bylting í París, námsmannabyltingin eða maíbyltingin 68. Samhliða mótmælum sem varða framtíðarmöguleika námsmanna og fleira, vaknar upp kynfrelsisbyltingin. Rammkaþólska stranga samfélagsmyndin er að trosna og fólk fer að stunda kynlíf utan hjónabands, nota getnaðarvarnir, fara í fóstureyðingar og allt þetta „eðlilega“ sem við þekkjum líka á Íslandi. En sumsé, í Frakklandi gengur vinstri elítan lengra með baráttu gegn boðum og bönnum og byrjar að ráðast gegn þessari hugmynd um aldurstakmörk á samþykki. Árið 1977 var dómtekið sakamál gegn körlum sem höfðu misnotað ungar stúlkur. Málið hafði verið illa undirbúið og karlarnir sátu í gæsluvarðhaldi í þrjú ár, sem er vissulega óæskilegt og brýtur gegn almennum hugmyndum um réttláta málsmeðferð. Þá skrifaði Matzneff opið bréf til stuðnings þessum körlum, en einnig gegn lagalegum aldurstakmörkunum á samþykki. Undir bréfið skrifa heil ósköp af virðulegum menntakörlum og -konum. Bréfið var birt í Le Monde og undirskriftalistinn innihélt nöfn eins og Jean-Paul Sartre, Simone de Beauvoir, Daniel Cohn-Bendit, Alain Robbe-Grillet. Matzneff var á sínum tíma ekki skrifaður persónulega fyrir þessu bréfi, en vakti sjálfur máls á því árið 2013 að hann hafi verið upphafsmaðurinn og safnað undirskriftunum. Af þessu má sjá að hér býr að baki löng saga um hefðir og hugmyndir um hið forboðna.

Frásögn Vanessu Spingora varpar nýju ljósi á ískaldan raunveruleikann sem býr að baki dæmigerðu frönsku „erótísku“ glansmyndarinnar sem inniheldur oftar en ekki eldri karl, ekkert endilega mjög fagran, og unga ofurfallega konu sem er honum undirgefin. Stíll Springora er hrár og beinskeyttur og dregur hún ekkert undan. En Matzneff var einmitt hrósað fyrir slíkan stíl í sínum lýsingum á misnotkun (þá kallað kynlíf) á ungum drengjum og stúlkum.

Vanessa Springora er í dag 47 ára gömul og starfar sem bókaútgefandi. Gabriel Matzneff er orðinn rúmlega áttræður. Matzneff hefur aldrei falið kynferðislegan áhuga sinn á börnum og hafa ritverk hans meira og minna snúist um þessar fýsnir hans. Má þar nefna dagbækur hans Svörtu stílabækurnar (Carnets noirs, komu út 1976-2009) og fjölda skáldsagna á borð við Yngri en sextán ára (Les moins de seize ans) sem kom út 1974 og var endurútgefin 2005.

Í dag fagnar Denise Bombardier hugrekki Vanessu Springora. Hún segist alls ekki sjá eftir því að hafa risið upp þarna um árið og lýsir því yfir að Matzneff sé barnaníðingur sem hafi fengið hráar og óskáldaðar lýsingar á níðverkum sínum útgefnar hjá Gallimard. „Ég sé ekki eftir neinu. Ég hefði ekki getað haldið sjálfsvirðingunni ef ég hefði ekki gert þetta. Ég gerði þetta fyrir börnin. Það er ekkert heilagra í þessum heimi en börn“ segir Denise Bombardier nú, og stendur nú keik í miðjum storminum sem fréttin af yfirvofandi útgáfu Samþykkis (Consentement) hefur valdið.
Hún segist og stolt af því að þessi framkoma hennar í frönsku sjónvarpi fyrir þrjátíu árum hafi veitt Vanessu Springora þann styrk sem hún þurfti til að stíga fram, en Springora sendi henni eintak af bók sinni ásamt bréfi þar sem hún segir henni þetta og þakkar henni fyrir að hafa verið eina manneskjan sem reis upp henni til varnar á sínum tíma.

Vanessa Springora segist hafa þurft að gera upp þessa fortíð sem hefur ávallt legið þungt á henni og hún hafi alltaf vitað að eina leiðin væri í gegnum bók. Hún dregur upp mynd af tvískinnungi tíðarandans, þar sem kynfrelsi ögrar banninu við að snerta börn. Hún talar um aðdáunina sem rithöfundurinn vakti í bókmenntaheiminum og í hennar eigin umhverfi og svo um afleiðingarnar, þunglyndið. En hún fær líka loks að setja fram sína eigin útgáfu af sögu þeirra, því Gabriel Matzneff hafði að sjálfsögðu skrifað um þau og jafnvel birt kafla úr bréfum hennar til hans, bréf sem hann sjálfur las henni fyrir, svo yfirþyrmandi kúgandi var hann. Hún er fyrsta manneskjan til að stíga fram og segja frá. Kannski verður hún sú eina, en ef marka má fjaðrafokið sem hún hefur náð að valda, hlýtur franskt samfélag að ná að taka enn eitt skrefið í átt að því að skilja loksins út á hvað hugmyndin um yfirráð og gagnkvæmt samþykki gengur í raun og veru.
Denise Bombardier sem er nú mætt á sviðið á ný, eftir þrjátíu ára hreina og tæra þöggun, segist hafa fulla trú á því og miðað við það sem er að gerast um allan heim um þessar mundir, er ekki ólíklegt að jafnvel eldri heldri frönsk gáfumenni fari að taka við sér og átti sig á því að falsmyndin er ekkert annað en það.

Hér er myndbrotið úr umræddum Apostrophes þætti, þess virði að horfa á þótt fólk skilji ekki frönsku:

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.