Kannski nægir frásögn konu einhvern tíma…

jessicavalenti

Mótmæli gegn skipun Brett Kavanaugh í Hæstarétt Bandaríkjanna 2018.

Ein mestu þáttaskilin í Bandaríkjunum varðandi heimilisofbeldi voru ekki almenn vitundarvakning eða löggjöf – heldur skyndimyndavélar. Það má þakka Polaroid-myndum að á níunda áratugnum gátu konur á sjúkrahúsum og í athvörfum ljósmyndað áverka sína og notað myndirnar fyrir dómi ef þær vildu kæra gerandann.

En stundum komu þessar myndir aldrei fram. Þær voru geymdar í öryggishólfi eða aftast í fataskáp – til öryggis. Myndirnar voru sönnunargögn kvenna um þjáningar þeirra, um ofbeldið sem viðgekkst á heimilum þeirra.

Mikilvægast var þó að myndirnar voru áþreifanlegar og varanlegar, stuðningur við opinberan eða óopinberan vitnisburð kvenna sem eru oft véfengdar og þeim ekki trúað, þegar þær segja frá reynslu sinni.

Sannleikurinn er sá að orð konu, ein og sér, hafa aldrei verið nóg. Við höfum alltaf þurft ljósmyndir, eða vitni, eða einhvers konar óhrekjanlega staðfestingu – sem er ekki til – í landi þar sem við trúum körlum og verjum þá, jafnvel þegar rökfærsla og gögn fordæma þá.

Undanfarinn áratug hefur borið á breytingum og fyrir vikið eru hægrisinnaðir karlar lafhræddir.

Á sama hátt og Polaroid-myndavélin markaði menningarleg skil varðandi heimilisofbeldi, hafði internetið sömu áhrif fyrir raddir kvenna og reynslu varðandi kynferðisofbeldi. Uppgangur femínískra bloggsíðna, samfélagsmiðla og frásagna í fyrstu persónu þar sem konur segja frá hefur þýtt að fleiri konur stíga fram en nokkru sinni fyrr – og að aðrar konur geta lesið þessar frásagnir, staðfest þær og séð sig í þeim. Auðvitað hefur krafa kvenna um að vera teknar alvarlega alltaf verið til staðar en netið hefur gert þá kröfu brýnni og erfiðari að hunsa. #MeToo, hreyfing sem Tarana Burke stofnaði fyrir mörgum árum og komst á allra varir fyrir tilstuðlan samfélagsmiðla, sýndi hvað það getur breytt samfélagi okkar að trúa konum í heild sinni. Í það minnsta voru konur farnar að trúa hver annarri og það í sjálfu sér hafði áhrif. En áhrifamest var þó að hvítir valdakarlar voru nú reknir og kallaðir til ábyrgðar og sú pólitíska breyting þótti mörgu fólki skelfileg.

Og þegar andspyrnan hófst, beindist hún gegn því mikilvægasta: Frásögnum kvenna.

Það er ekki að ástæðulausu að háværasta og útbreiddasta kjörorð þeirra sem berjast gegn kynferðisofbeldi er „Trúum konum“. Það staðfestir að á bak við stjórnmálaumræðuna, lög gegn ofbeldi og menningarframfarir þarf grundvallarbreytingin að vera einföld en róttæk og felast í því að trúa konum. Að hlusta á konur og vitna um reynslu þeirra og trúa frásögnum þeirra gæti verið lausnin á því bandaríska sjálfgildi að orð karla vegi alltaf meira.

Þess vegna var svo veigamikið að þessi einfalda ósk – að trúa konum – var viljandi bjöguð af íhaldsmönnum og þeim sem óttast framsókn kvenna. Helstu hatursmenn #MeToo staðhæfðu að femínistar vildu að „öllum konum yrði trúað“, sem virðist lítil breyting á upphaflega kjörorðinu en mistúlkaði alfarið það sem konur fóru í raun fram á.

„Trúum konum“ er ósk um réttlæti og sanngirni. „Trúum öllum konum“ gefur í skyn að trúa eigi í blindni frásögnum kvenna um kynferðisofbeldi þó öll gögn bendi til annars. Þetta er eins orðs sprengja.

Bari Weiss, leiðarahöfundur NYT, var með þeim fyrstu að afbaka setninguna og kallaði hana „heróp veiðikvenna“. „Ég losna ekki við þá tilfinningu að þessi mantra skapi hræðileg ný vandamál ásamt því að leysa gömul“ skrifaði hún.

Rebecca Traister rithöfundur dró fram það sem var óhugnanlegt við staðhæfingu Weiss: „Að trúa öllum konum“ er út í hött. Weiss hefur ýkt upphaflegu kröfuna að trúa konum til að láta veiðikonurnar hljóma enn ógnvænlegri. Þetta er einmitt ferlið sem margar okkar hafa fjallað um: Konum er breytt í árásaraðila.“

Þungamiðja andspyrnunnar gegn #MeToo, sem þá afhjúpaði einstaka gerendur á methraða, var að sýna þolendur sem hefnigjarnar og hömlulausar konur. Jafnvel voru þær sagðar hafa hið raunverulega vald.

Þrátt fyrir að karlarnir sem voru ásakaðir væru bæði auðugir og frægir – allt frá heimsþekktum blaðamönnum og sjónvarpsmönnum til frægra grínleikara -tókst hægriöflunum að láta líta svo út að konur hefðu öll völdin. Eins og það væri mögulegt að kona sem hafði tekið mikla áhættu væri á einhvern hátt valdameiri en forríkur eða mikilsvirtur karl.

Þegar staðhæfingin um að konurnar sem stigu fram hefðu öll völdin varð of fáránleg til að henni yrði trúað, reyndu íhaldsöflin aðra aðferð. Þegar dr. Christine Blasey Ford, svo dæmi sé tekið, sakaði Brett Kavanaugh, sem nú er orðinn hæstaréttardómari, um kynferðisofbeldi, vissu hægrimenn að ekki yrði hægt að kalla hana valdasjúka eða hluta af nornaveiðum því það hefði þótt kynjafordómar. Í stað þess að véfengja sannleiksgildi orða hennar, beindust spjótin að minni hennar. Hún var ekki að ljúga, heldur „skjátlaðist“ henni. Merkingin var sú sama: Ekki var hægt að treysta orðum hennar.

Repúblikanar og íhaldsmenn hefðu ekki þurft að breyta um aðferð ef Ford væri ekki hvít á hörund, myndarleg og virðulegur háskólakennari. Orð kvenna og trúverðugleiki tengist alltaf ímynd þeirra -konur sem njóta meiri forréttinda eru véfengdar, en kallaðar lygarar á annan hátt en þær þeldökkku, láglaunuðu, innfæddur, innflytjendur og aðrar í jaðarhópum samfélagsins.

Líkur eru á því að íhaldsami vængurinn haldi áfram að vera heltekinn af trúverðugleika kvenna og þeim menningarlegu framfarasporum sem þær hafa stigið. Andspyrnunni hefur vaxið ásmegin síðan í forsetakosningunum 2016 og aukin áhersla er á mátt orða kvenna. Um leið eru konur enn staðráðnari í að hvika hvergi.

Þegar Moira Donegan bjó til og dreifði hinum alræmda drullusokkalista (Shitty Media Men List) árið 2017- skjal sem varð til með hópvirkjun og dreift meðal kvenna svo þær gætu varað hverja aðra við mögulegum gerendum í sínu fagi – var sagt að karlar væru ófrægðir án sannanna og eingöngu fyrir tilstilli orða kvenna (Þar sem höfundar listans voru nafnlausar varð reiðin og áreitið sem konur verða jafnan fyrir, frekar ómarkvisst). Í kjölfar birtingu listans voru margir karlar á honum reknir úr starfi vegna framkomu sinnar – ekki vegna þess að ásakendum þeirra væri trúað takmarkalaust, heldur vegna þess að orð þeirra voru tekin alvarlega. Á þær var hlustað, ásakanir þeirra voru rannsakaðar og í mörgum tilvikum þóttu þær nógu alvarlegar til að réttlæta aðgerðir.

Þegar konur stíga fram núna vekur það athygli fjölmiðla. Ekki þarf margar til að segja frá til að okkur verði trúað. Ein er nóg.

Að trúa orðum kvenna er beinlínis farið að hafa áhrif á lífsferli karla. Það felur þó ekki í sér að réttlæti hafi náð fram að ganga. Kavanaugh dómari og Donald Trump minna okkur á það alla daga. Konur eru enn véfengdar, karlar fá enn að njóta vafans. En sú staðreynd að sögur okkar eru byrjaðar að hræða valdastéttina og að við krefjumst þess að vera teknar alvarlega án þess að hafa skyndimynd undir höndum eða vitni okkur við hlið – hefur ákveðið gildi. Þetta þýðir að kannski kemur sú tíð að raddir okkar, sögur okkar einar og sér, muni nægja.

believe me jessica

Úr bókinni Believe Me: How Trusting Women Can Change the World . Ritstýrur: Jessica Valenti og Jaclyn Friedman. Copyright © 2020.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.