Rebecca Solnit skrifar um unga femínista

rebeccasolnitmynd

Rebecca Solnit

Með aldrinum verður man innflytjandi frá horfnu landi, landi sem sumir jafningja minna muna hugsanlega eftir en unga fólkinu gæti þótt það óhugsandi eða óskiljanlegt. Það má kalla það landið sem var; fyrir miklar breytingar, áður en við gerðum hlutina svona, áður en við ákváðum að það væri ótækt, áður en við sáum gamalt vandamál í nýju ljósi. Ég var mótuð af heimi sem er ekki lengur til, og get því ekki ímyndað mér mig, t.d. sem átján ára stúlku á þessari stundu því sú stúlka væri ekki til, væri gerólík mér. Tilvera mín samanstendur af uppsöfnuðum áhrifum lífsreynslu minnar; tækifærum sem ég naut og naut ekki, og fyrirmyndum.

Svo margt af því sem mótaði mig og markaði á yngri árum og gerði mig að einum stökum femínista sem seinna varð ein af mörgum, var órædda ofbeldið gagnvart konum og ófrægingin, áreitnin og þöggunin sem fylgdi því. Þetta var á við faraldur en samt átti hvert tilvik að vera einangrað. Ekki var ætlast til þess að afbrotin yrðu tengd við menninguna sem leit á ofbeldi gagnvart konum sem skemmtun og neitaði að það væri á nokkurn hátt til staðar og tryggði að forvarnir og saksóknir væru bæði veikburða og fátíðar. Öll þessi öfl eru enn til staðar en samhliða þeim er líka í gangi kraftmikil samræða, frásagnir nafngreiningar,lýsingar og skilgreiningar: höfnun á afsökunum og yfirhylmingum og réttlætingum.

Þessi samræða hressir mig. Hún opnar mér heim sem er mér ráðgáta þar sem ég hef undanfarinn áratug lesið hræðilegar frásagnir af nauðgunum, pyntingum, morði, ofsóknum og heimilisofbeldi í fjölmiðlum og heyrt þær beint frá þolendum. Ég hef glaðst yfir að sjá breytingarnar verða -þó ekki nægar -og örmagnast af að sökkva mér niður í ofbeldi karla (að mestu) og tortímingu kvenna (að mestu). En við höfum alla vega greint vandamál.

Fólk vill sjá konur slást

Engin 18-ára-ég er lengur til en nóg af 18 ára gömlum stúlkum sem sýna mér hve margt hefur breyst og gefa mér með yndislegri óhlýðni sinni og miklum væntingum fyrirheit um að margt muni breytast. Í fyrra, þegar ung kona sem ég þekki, miðlaði sögu sem hún skrifaði um að fylgja vinkonu sinni heila nótt þá þrautagöngu að fá skoðun og vottorð á sjúkrahúsi eftir nauðgun. Ég var forviða að sjá hvernig sannleikur og afstöður sem margar okkar börðust svo hart fyrir, voru orðnar hluti af heimsmynd hennar. Hún hafði þennan nýja búnað og virtist aldrei búa yfir sjálfsefanum sem grefur undan hæfni fólks að viðurkenna hvað hefur gerst; röddinni gömlu sem segir „þú ýkir þessi viðbrögð“ sem er önnur leið til að segja „tilfinningar þínar eru rangar“ sem merkir í raun „tilfinningar þínar eru óþægilegar fyrir aðra og best að kæfa þær í fæðingu.“

Fyrir áratugum rakst ég á spakmæli sem merkti eiginlega: Mundu að virða æskuna eins og hún á skilið. Ein af skaðlegum goðsögnum okkar daga er að fólk verði vitrara með aldrinum, á svipaðan hátt og tré safna árhringjum. Samkvæmt því er það gott sem gamlir kveða en ekki unga fólkið, og það ætti bara að opna gogginn og bíða eftir að ormur viskunnar detti í hann. Samkvæmt þessu er viskan líka árangur einstaklingsþroska en ekki hvernig við sem samfélag lærum að sjá eitthvað betur, skynsamari með því að vita hvernig eitthvað virkar. Ég held að samræður um kynslóðabilin séu ómarkvissar og of algengar í tilraun til að setja femínisma upp sem kattaslag kynslóðanna -því að fólki finnst gaman að sjá konur slást. Þessi menning kann ekki að segja sögur þar sem hópum er ekki att saman í stríðsdrama skorts og eigingirni.

En ég dái og er þakklát ungum starfandi femínistum og læri mikið af þeim -engan stóra sannleika en alls kyns innsýn sem hefur smám saman breytt skilningi mínum og gefið mér ný verkfæri til að nota. Það sem ég sé í mörgum ungum konum og stúlkum, -allt niður í reifabörnin í fjölskyldu minni, sem og í ungu konunni sem fylgdi vinkonu sinni sem var nauðgað -er skýrleiki og vissa um réttindi, þarfir og sannleika þeirra sem eru ný og öðruvísi. Við getum þakkað eldri kynslóð fyrir að sá fræjunum en þær eru fallega uppskeran. Þær eru sigurinn.

rebeccasolnitmynd2

Kvennagangan í Washington DC, 21. janúar 2017. Mynd: Amanda Edwards

Þær ungu fara oft fyrir þessari heildarvakningu með því að vera kröfuharðari og ósveigjanlegri, ófúsari að trúa að eitthvað sé ómögulegt -þó næstum 60 ár á þessari jörð hafi kennti mér að það sem status quo segir að sé ógerlegt, gerist engu að síður stöku sinnum. Ég man að fyrir 20 árum virtist ógerlegt að segja skilið við tímabil jarðefnaeldsneytis því sólarorka og vindorka var þá bæði dýr og ófullkomin. Og ég man árið 1992 þegar alls sex konur í öldungadeild (þar á meðal sú fyrsta þeldökka) sáu árinu hampað sem Ári Konunnar því þá voru þær fleiri en nokkru sinni fyrr. Núna eru 25 konur í öldungadeild Bandaríkjaþings.

Femínismi er hluti af óbilandi viðleitni í öllum heimsálfum (og stundum í geimstöðvum) til að breyta því hvernig við ímyndum okkur kyn, réttindi, jafnrétti, samþykki, rödd; að skapa samræður með þátttöku þeirra sem hafa upplifað útilokun eða þöggun. Þetta er samtal um kynþátt, kyn, kynhneigð, transréttindi, réttindi fólks með fötlun, trúfrelsi, taugakerfafjölbreytni og svo margt fleira, og um hvernig þetta getur skorist í einstaklingi eða samskiptum. Öll sem taka þátt í þessu samtali læra af öðrum að hvessa augun, sjá lengra, spyrja nýrra spurninga, nota ný hugtök sem opna á nýja möguleika. Það er eins og við séum á gangi um niðdimma nótt, öll með lítið vasaljós og stundum lýsum við öll á sama vandamálið þar til við sjáum það skýrt, miðlum lýsingum okkar á milli, búum til stígakort saman, skerpum áhersluna þar til við komum á nýjan stað. Eða verðum eitthvað nýtt.

Stundum höfum við bókstaflega verið sem kór, þegar mikill fjöldi femínista notar sama myllumerkið. Sem dæmi má nefna 2014 þegar ung múslimsk kona hratt af stokkunum #yesallwomen sem svari við dapurlegum viðbrögðum karla við fjöldamorðunum í Isla Vista þar sem 22 ára skírlífispíndur karl drap sex manns við háskólann í Kaliforníu. Hún var að svara myllumerkinu útbreidda, #notallmen, sem leggur áherslu á að hreinsa karlmenn af sök í stað þess að viðurkenna hvað ofbeldisógnin er mikil fyrir, já, allar konur.

Hver vill hrópa með mér?

En oftar hefur þetta verið samtal í stað kórs. Bara þessi einfalda lína -nauðgarar nauðga -sem kannski varð til á vefsíðunni Feministing 2010 eða kannski fékk síðan það frá öðrum -gaf okkur tæki og sýn til að andæfa allri þolendaskömminni; allri áherslunni á í hverju hún var og hvað hún drakk og allt hitt sem hún gerði rangt með því að vera ekki lokuð inni í bankahvelfingu, klædd nunnubúningi og haldandi á skammbyssu.

Ég dái því ungu konurnar og allt sem virðist þörf á að segja þegar þusað er yfir aldamótakynslóðinni og þegar sumar eldri konur eru svo hertar í að þrauka í feðraveldinu að þær geta ekki losað sig úr „ekki sem verst/harkaðu af þér“ rammanum til að viðurkenna að þetta sé jú glatað og það hafi áhrif á okkur og það sé rangt. Og það er ekki bara ég sem fæddist þegar Kennedy var forseti. Mary Beard sem fæddist þegar Winston Churchill var á síðustu árum sínum í embætti forsætisráðherra skrifaði nýlega um þetta týnda meginland þagnarinnar. Hún sagði: „Ein af ástæðunum fyrir því að nemendur mínir á öðrum áratug aldarinnar verða óróir við að lesa Ummyndanir Óvíðs eða fyrstu bækur Livíusar, er að þeir hafa miklu skýrari mynd af efni þeirra. Fyrir 50 árum viðurkenndum við yfirleitt ekki (og var ekki kennt það) að Ummyndanirnar er ljóð grundvallað á nauðgun. Í þá daga sáum við í því margar „svívirðingar“ (með vandræðalegri skírskotun til nautnar); og þegar þolendurnir ummynduðust og urðu að trjám eða þannig, var það túlkað sem forvitnileg hlið á fornum goðsögnum.“

jiatolentino

Jia Tolentino. Ljósmynd: Elena Mudd.

Hún ver aldamótakynslóðina gegn ásökunum um ofurviðkvæmni og ég tek undir ákafa hennar að fá skýrari mynd af þessari kynslóð. Í frábærri grein í New Yorker, rýnir aldamótafemínistinn Jia Tolentino í Óvíð á ný í kjölfar yfirheyrslunnar 2018 yfir Brett Kavanaugh sem þá var tilnefndur til embættis Hæstaréttardómara, því hún upplifði „smánarlega, vaxandi þrá til að hætta að hlaupa, að finna einhverja leið til að vera tilfinningalaus og friðsæl“ eins og konurnar sem urðu að trjám og vötnum. Ef ungir lesendur eins og Tolentino og nemendur Beard sjá að Ummyndanirnar eru fullar af nauðgunum þá er það vegna þess að eldri lesendur, höfundar og andófsfólk lagði grunninn að þeim lestri. Án tillits til þess hvort við stöndum á öxlum risa, þá göngum við á jarðveginum þar sem fortíðin hefur orðið að moltu og fræ sem plantað var þá eru að koma upp og jafnvel að blómstra núna.

Þá var svo margt sem við gátum ekki talað um og enn eru hliðar og afleiðingar sem við höfum ekki rætt nógu mikið um. Nýlega skrifaði ég bók um þetta efni, Recollections Of My Non-Existence, um málleysi mótunarára minna.  Því að ekkert sem ég gat sagt virtist merkja „nei“ með neinum áhrifaríkum hætti fyrir karlana sem áreittu mig og ógnuðu mér, ekkert sem ég gat gert til að þeir hættu og að tjá sig virtist líklegt til að gera illt verra. Það sem ég vildi, til að byrja með, var einhver sem hrópaði, með mér, að þetta væri kolrangt. Ég vildi að einhver spyrði spurninga með mér um hvernig við gætum breytt þessu öllu og af hverju við yrðum að gera það.

Það sem ég upplifði þá er enn að gerast. Á liðnu sumri hótaði karlmaður að myrða unglingsdóttur vinkonu minnar, sem svaraði áreitni hans fullum hálsi -áreitni sem ég varð ítrekað fyrir á æskuárunum. Þetta er svo venjulegt og það er svo mikið af þessu. Undanfarin ár hafa einkennst af ótrúlegum sameiginlegum uppgreftri og enduruppgötvun á reynslu kvenna, þar sem eldri hafa lært af þeim yngri og öfugt.

Enn finnst mér að samræðurnar hafi ekki runnið sitt skeið á enda. En mér finnst gott að þær eru byrjaðar. Þegar fólk gefur í skyn að femínisminn hafi misheppnast vil ég hverfa aftur til heimsins sem ég fæddist í, heimsins sem fyllti móður mína af innibældri bræði, heimsins þar sem konur voru samkvæmt lögum og hefðum svo miklu réttlausari. Hjúskaparlög í BNA og Bretlandi og mörgum öðrum löndum skilgreindu konur sem eins konar eign eða góss, eða gæludýr, sem eiginmenn máttu nauðga og berja og stjórna öllum þeirra ákvörðunum, allt frá fjármálum til heilsufars. Konur voru útilokaðar frá nær öllum stöðum í hagkerfi, dómskerfi, menntakerfi og stjórnkerfi og orð til að lýsa fyrirbærum eins og kynferðislegri áreitni á vinnustað sem alvarlegu og ólöglegu fyrirbæri, voru ekki til. Ég gæti haldið svona áfram en læt gott heita, eftir að hafa vísað til þess hvernig rútínan var ófræging á konum sem huglægum, óábyrgum og óhæfum skepnum, sem kom í veg fyrir þátttöku þeirra og jafnvel réttinn til að andmæla. Þetta er ekki liðin tíð en við höfum þó verið að benda á þetta í hálfa öld.

kimberley

Kimberlé Crenshaw aðgerðasinni, sem bjó til hugtakið „samtvinning.“

Jafnvel að sjá sumar myndir kúgunarinnar var sameiginlegt stórvirki. Í einni bókanna sem ég get ekki kallað sæðislega -er eitthvað jafngilt kvenlegt til? eggjastokkaleg? -en var mótandi, The Feminine Mystique (1963) eftir Betty Friedan, talar hún um „vandamálið sem hefur ekkert nafn.“ Við höfum gefið því nafn smám saman: með gömlum orðum eins og feðraveldi og gaslýsing og nýjum orðum eins og jaðarsetning, hrútskýring (sem ég bjó ekki til), hannúð Kate Manne, samtvinnun Kimberlé Crenshaw, nauðgunarmenning,  kvensverta(misogynoir), þolendaskömmun og drusluskömmun.

Það sem hefur verið bæði fallegt og undravert mörg undanfarin ár er þessi mikli sameiginlegi rannsóknarleiðangur til að skoða líf okkar, hækka í þögguðum röddum sögunnar og lækka í fólki sem alltaf var hlustað á. Við höfum gert nýtt kort yfir hverja við vorum, og erum, og gætum verið. Að vera ein rödd í þessum hnattrænu samræðum hefur verið mér gleði og heiður; að hlusta á aðrar hefur verið fróðlegt og veitt innblástur. Og ég er þess fullviss að við erum rétt að byrja.

Greinin birtist upphaflega í Guardian 29. febrúar. Þýðingadeild Knúzz þýddi. Áður hefur Knúz.is birt greinina „Hrútskýringin verður til“ eftir sama höfund.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.