Kona rífur kjaft

Matt. 15. 21-28
Prédikun á alþjóðlega kvennadaginn 8. mars 2020 í dómkirkjunni í Tromsö

Ég heilsa ykkur á alþjóðlegum baráttudegi kvenna með tveimur ímynduðum kvikmyndaklippum frá texta guðspjallsins af konu sem rífur kjaft.

Klippa 1:

Jesús er á ferðalagi í Týrus og Sídonbyggðum. Hann hittir útlenska konu frá Kanaan, sem er af annarri trú, menningu og þjóðerni en hann. Konan biður hann um að hjálpa veikri dóttur sinni. Jesús talar upphátt við sjálfan sig:  «Þessari konu get ég ekki hjálpað vegna þess að ég var sendur til Gyðinganna eingöngu, ekki Kanverja og Gyðingar líta á Kanverja sem hunda. Fyrst ætla ég að prófa að þegja, vegna þess að ég vil að hún þrjóskist við og berjist fyrir dóttur sína. Og síðan nota ég myndlíkingar frá heimili þar sem börn fá mat og ekki hundarnir. Þetta er samhengi sem að hún getur sett sig inn í og unnið út frá.» Konan lætur sig ekki. Húns egir að hundarnir fái líka mola af borðum barnanna. Jesús brosir ánægður og segir að konan hafi sterka trú. Og dóttirin verður frísk.

Klippa 2:

Jesús mætir kanversku konunni. Hann er greinilega í vandræðum. Fyrst reynir hann að hunsa konuna, en hún lætur ekkert á sér hrína og æpir bæði á hann og lærisveinana. Lærisveinarnir verða fúlir og biðja Jesú að losa sig við þessa konu með öll sín læti. Jesús reynir að sefa konuna með útskýringarmyndmáli um samband Gyðinga og Kanverja sem hunda og barna. Hundarnir í þessari sögu eru konan og dóttir hennar. Konan grípur orð hans á lofti og notar orð hans á móti honum. Hún bendir á að hundarnir borði molana frá borðum barnanna. Þessi guðfræðilega heimilisröksemd stingur up í Jesú. Hann skilur að konan hefur rétt fyrir sér og hann rangt. Hann hrósar henni fyrir að hafa sterka trú og dóttirin verður frísk.

Í hvert skipti sem við endursegjum gamla sögu frá hinum helgu ritum, þá segjum við hana út frá okkar eigin stað og stund. Við túlkum söguna. Þegar við lesum söguna setjum við á okkur gleraugu samtíðar okkar sem eru lituð af okkar eigin menningu og gildum. Ýmislegt af þessum forsendum okkar er okkur ljóst og annað liggur í menningunni sem við tökum í arf og hugsum ekki alltaf mikið um. Þessi arfur, hugmyndir okkar um Guð og náungann ber líka með sér sterkar vísbendingar um það hvernig við eigum að túlka helgisögurnar. Arfurinn segir okkur hvaða gleraugu við eigum að setja upp, hverju við eigum að leita eftir og hverju við eigum að horfa framhjá. Eitt best þekkta dæmið um það sem við lesum vanalega inn í Biblíuna er dæmið um Adam, Evu og ávöxtinn sem þau bitu í í Paradís. Ef ég spyrði ykkur að því hvaða ávöxt var um að ræða myndu flest ykkar svara epli. Og samt stendur hvergi í Biblíunni að ávöxturinn í Edengarðinum hafi verið epli. Það stendur bara ávöxtur í frumtextanum. Einhver, einhverntímann á löngum túlkunartíma Biblíunnar ákvað að þessi ávöxtur hafi örugglega verið epli. Og uppfrá því sjáum við öll epli í Edensgarði, vegna þess að einhver kenndi okkur að túlka textann einmitt á þennan hátt. Og svo lesum við alla texta Biblíunnar með eplagleraugunum okkar, linsum sem hafa fókus á ákveðna hluti og horfa framhjá öðrum.

Það er býsna frelsandi að átta sig á því að það finnast fleiri gleraugu og túlkunarmöguleikar en þeim sem okkur hafa verið kenndir. Og það er mikilvægt að minnast þess að túlkun textanna fjallar ekki bara um það sem hinn sögulegi Jesús kann að hafa hugsað og meint. Ekkert okkar getur horft inn í huga hans. Það sem hér er í húfi er að sagnirnar um Jesú Krist eru notaðar og túlkaðar í nýrri og nýrri samtíð, öld af öld. Og það er spennandi að sjá hvernig sögurnar tala inn í nýjan og nýjan veruleika, vegna þess að við leyfum okkur að horfa inn í söguna frá öðru sjónarhorni en þeim sem eplagleraugun sögðu fyrir um.

Og þess vegna skulum við á alþjóðlegum baráttudegi kvenna rýna betur inn í þessar klippur sem ég lagði fram fyrir ykkur í upphafi. Klippurnar sem túlka textann gátu auðvitað verið milu fleiri og boðið upp á ný og ný sjónarhorn textans, en við látum okkur nægja þessi tvö dæmi. Í þessum tveimur klippum og túlkunum af guðspjallinu þá sýnum við atburði sögunnar frá ólíkum sjónarhornum. Í því fyrsta er Jesús með allt á hreinu þegar hann mætir þessari reiðu konu. Hann langar til að hjálpa konunni en getur það ekki, vegna þess að hann verður að hlýða boðum þjóðar sinnar. Hann leggur því út myndlíkinguna, ekki til að móðga konuna, heldur til að ljá henni verkfæri til að rökstyðja það hvers vegna hjálp hans á líka við um hana. Í þessari túlkun sögunnar þurfum við að setja okkur inn í samskipti Gyðinga og Kanverja og ef til vill undrast dálítið yfir því að Jesús skuli yfir höfuð tala við sér óskylda konu. Orðin og líkingarnar eru kannski hneykslanleg fyrir okkur, en það er að dómi túlkunarinnar vegna þess að við þekkjum ekki allan sannleikann. Lausnin er sú að treysta Guði og Guð mun vel fyrir sjá.

Í seinni klippunni er Jesús síður en svo með allt á hreinu. Hann á í té við snaróða konu sem öskrar á hann og lærisveinana. Hann hefur ekki hugmynd um hvað hann eigi að gera. Hann prófar fyrst að hunsa hana og konan færist öll í aukana. Hann reynir að sannfæra hana með líkingum og tilvitnunum í sína eigin menningu og konan snýr orðunum upp í eitthvað óvænt og nýtt sem hann sá ekki fyrir. Guðfræðin hennar er sterkari en hans. Hann lærir af reynslu henanr, kjarki hennar, baráttu hennar fyrir dóttur sinni.

Í fyrstu útgáfunni er Jesús fullkominn og hundrað prósent með allt á hreinu daginn sem hann var fæddur. Hann er hinn hlýlegi, skilningsfulli, síhjálpsami frelsari. Hann veit allt, kann allt, gerir allt betur en allir hinir og jafnvel þótt hann segi og geri eitthvað sem kann virka öfugt á okkur er það vegna þess að við skiljum hann ekki. Einhverjir myndu túlka þennan Jesú sem frumfemínista og baráttukarl fyrir kvenréttindum sem kennir konum og körlum að vera hugrökk og gerir okkur og börn okkar heil.

Í hinni útgáfunni varð Jesús sá sem hann var vegna þess að hann kynntist fólki sem hafði áhrif á hann. Hann kynntist konum og körlum og líf þess og viðbrögð urðu honum til lærdóms. Það voru þessar konur og karlar, andspyrna þeirra, kraftur og reynsla sem ýtti honum áfram til aukinnar íhugunar og verka, svo að hann varð sá sem hann varð og tók þær ákvarðanir sem hann tók.

Ég sat á fundi með tveimur kvennaguðfræðingum frá Bandaríkjunum og Tanzaníu fyrir örfáum mánuðum sem tókust á einmitt um þennan texta guðspjallsins og hvað væri hin rétta túlkun textans út frá femínískum forsendum. Sú fyrsta sagði að konan hefði sigrað Jesú í guðfræðilegri deilu. Sú síðari sagði að það væri mistúlkun á textanum og að Jesús hefði haft góðar ástæður til að setja fram þessar undarlegu myndlíkingar um hunda og börn. Auðvitað gætu báðar konurnar haft rétt fyrir sér, vegna þess að það er engin ein leið til að túlka helga texta. Og oft hefur man miklu meira frelsi til að sjá merkingu í hinni helgu bók en man heldur.

Hvaða túlkun velur þú, kæra Krists vina og vinur sem heyrir orð mín á alþjóðlega kvennadaginn?

Hver er barátta þín? Hvað hrópar þú til ferðamannsins sem rataði til Týros og Sídon?

Kannski var það hinn trausti, stöðugi Guð, Guðs sem hefur allt á hreinu sem þú leitaðir til í dag vegna kvíðans við kórónuveiruna eða annarra heilsukvilla sem þú óttast. Jesús var einu heilbrigðisyfirvöldin sem þessi kona hafði kost á og hún rígheldur í hann, líka þegar hann tekur henni fálega. Kannski þarftu einmitt á því að halda að fá þá túlkun í aðstæðum þínum, um að trú þín sé sterk og að þú, móðir þín, dóttir þín og öll þau sem þú elskar séu í öruggum höndum. Og það er í góðu lagi.

Og kannski var það klippa 2 sem talar inn í þínar aðstæður í dag sem hlustar á alþjóðlega kvennadaginn. Hvað myndir þú hafa sagt ef þú bæðir Jesú um hjálp og hann kallaði þig hund. Hvernig hefðir þú brugðist við ef hann reyndi að hunsa þig?

Hvernig umbreytir það þinni guðfræði ef þú áræðir að hugsa þér Guð sem er háður konum og lærir af konum? Guð sem getur gert mistök vegna þess að mikið af því sem menningin hans segir honum er ekki kvenvinsamlegt eða opið fyrir útlendingum? Af hverju er það flókið og erfitt að hugsa sér þannig Guð, Jesú Krist sem þroskast og lærir?

Hvaða merkingu hefur þessi texti fyrir okkur á alþjóðlegum baráttudegi kvenna? Á erfiða konan að halda áfram að vera undir borðinu og borða brauðmola sem falla af borði feðraveldisins?  Eða eiga hún og dóttir hennar að fá að borða með börnum hússins?

Femíníski guðfræðingurinn Ranjini Wickramartane Rebera frá Sri Lanka segir að eitt af því merkilegasta við þennan texta í hennar samhengi er að hann sýnir okkur konu sem talar opinberlega. Konan talar. Hún er reyndar fyrsta konan sem talar í Mattheusarguðspjalli. Í fimmtán köflum! Og hún talar ekki bara. Hún æpir, aftur og aftur og aftur þar til hlustað er á hana. Wickramartane Rebera segir að í hennar menningu sé það algengt að stúlkur séu hvattar til að láta sjá sig, ekki að láta hlusta á sig. Hún segir menningu sína vera gegnsýrða af því viðhorfi að konur sem tala hátt eða æpa séu móðursjúkar, árásargjarnar og dónalegar. Wickramartane Rebera segir:

Í menningu þar sem stúlkubörnum er eytt í móðurkviði, þær drepnar við fæðingu eða þeim mismunað alla ævi þá er þessi þrjóska kona mikilvæg fyrirmynd fyrir okkur. Í Suður-Asíu þá litar skömmin af að fæðast kvenkyns allt alla sjálfsmynd frá barndómi til fullorðinsára. Sú skömm að vera fædd í líkama konu veldur lélegri sjálfsímynd kvenna og ekki síst þeirra sem þvingaðar eru til kynlífsviðskipta til þess að standa straum af eigin lífsviðurværi. Og stúlka sem er veik af einhverju sem getur kallast „óhreint“ er býr við tvfalda byrði sem bæði móðir og dóttir axla. (Ranjini Wickramartane Rebera, „The Syrophoenician Woman: A South Asian Feminist Perspective“ A Feminist Companion to Mark, ( Sheffield:  Sheffield University Press, 2001), 106).

Ef við notum Wickramartane Rebera sem leiðarljós til að túlka fyrir okkur guðspjallið í dag, þá hljótum við að spyrja hvers konar túlkun styðji best við bakið á konum og stúlkum í þeirra ólíku glímum fyrir fullum mannréttindum og eigin rödd í samfélaginu.

Og þá er nærtækt að þakka Guði fyrir þessa erfiðu konu frá Kanaan sem gefst ekki upp á baráttunni fyrir dótturinni og gefst ekki upp á Jesú heldur.

Ég hef hitt þessa konu. Margoft.

Ég hef hitt hana í heilbrigðiskerfinu, í réttarsalnum, í skólanum, í kirkjunni í bankanum, í búðinni og heima, á öllum þeim stöðum sem einhver hefur vogað sér að koma fram við hana og dóttur hennar eins og hund.

Ég hef hitt hana sem segir frá kynferðisofbeldi og styður við bakið á þeim sem hefur verið nauðgað eða orðið fyrir öðru kynferðisofbeldi.

Ég hef hitt hana sem berst fyrir kvenréttindum á ýmsa vegu.

Ég hef séð hana öskra gegn óréttlæti og kúgun á samkynhneigðu og fátæku fólki, vegna þess hvernig komið er fram við náttúruna, flóttamenn og fólk sem selt er mansali.

Ég hef kynnst henni sem kyndir eld í hjörtum annarra og kennir þeim að virða lífssýn, þjóðerni og menningu annarra.

Ég sé hana í augum Gretu Thunberg og Malölu Youzafsai.

Og þegar hún fær ekki sæti við borðið og er vísað í hundabælið, þá nær hún sér í klappsól og sest niður sjálf.

Hún er ung og gömul og hún hrópar til okkar sem ekki hlustum og heyrum. Hún neitar að sætta sig við hunsunina vegna þess að hún berst fyrir því sem er stærra en hún en varðar einnig hana.

Og ég trúi því frá innstu rótum hjartans að eitthvað af þessum kjarki, andspyrnu, þrjósku, krafti, tengslum, orðnotkun og mætti, þessi móðursjúka árásargirni og dónalegheit sem sannfærir og snertir við öðrum er innblásin af hinu heilaga og innblæs hinu heilaga einhverju nýju og óvæntu.

Þegar við mætum henni í fylgsnum hjarta okkar og í samhengi hverdagsins, þá getum við sagt með Jesú:  «Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt!»

Og dóttirin fær nýtt líf.

Sr. Sigríður Guðmarsdóttir

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.