Barist við feðraveldið -einn afa í einu

„Öðrum fullorðnum í herberginu finnst þetta í góðu lagi.

Fullorðinn maður vomar fyrir aftan þriggja ára dóttur mína. Af og til potar hann í hana eða kitlar hana og hún bregst við með því að minnka. Hún verður minni og minni með hverri óumbeðinni snertingu. Ég ímynda mér að hún sé að reyna að verða nógu smá til þess að renna niður úr barnastólnum og undir borðið.

Þegar móðir mín horfir á þessa atburði sér hún smástríðni. Afa að leika sér við barnabarn.

„Mae.“ Tónblærinn skerst í gegn um kunnugleg hljóðin í fjölskylduboðinu. Hún lítur ekki á mig.

„Mae.“ Ég byrja aftur. „Þú mátt segja nei, Mae. Ef þetta er ekki í lagi gætir þú til dæmis sagt: Afi, færðu þig fjær, ég vil fá pláss fyrir líkamann minn.“

Á meðan ég segi þetta hallar stjúpfaðir minn, bolabíturinn, sér nær henni og nú er hann rétt fyrir ofan höfuð hennar. Skuggalegt glottið ögrar mér á meðan dóttir mín beygir líkamann í allar áttir til þess að reyna að sleppa við kitlið og heitan andardráttinn.

Ég set meiri kraft í orð mín þegar ég endurtek þau. Hún lítur loksins upp á mig.

„Mamma, getur þú sagt það?“ En skrítið. Þriggja ára barni finnst ekki þægilegt að verja sig gegn fullorðnum manni. Manni sem hefur sagst elska hana og annast hana aftur og aftur, en stendur samt hér og sýnir að honum er alveg sama um þau mörk sem hún vill setja varðandi eigin líkama. Ég bý mig undir slaginn.

„Pabbi! Viltu gjöra svo vel að færa þig aftar! Mae vill fá pláss fyrir líkamann sinn.“ Röddin er ákveðin en létt. Hann hreyfir sig ekki.

„Pabbi. Ég ætti ekki að þurfa að biðja þig tvisvar. Viltu gjöra svo vel að færa þig aftar. Mae finnst þetta ekki þægilegt.“

„Slakaðu á,“ segir hann og ruglar í ljósu tjásunum hennar. Feðraveldið stendur og lítillækkar mig í mínu eigin andskotans eldhúsi. „Við erum bara að leika.“ Suðurríkjahreimurinn heillar mig ekki.

„Nei. Þú varst að leika. Ekki hún. Hún hefur gert þér það ljóst að hún vill pláss. Gjörðu svo vel að færa þig aftar.“

„Ég má leika við hana eins og ég vil.“ Segir hann og réttir úr sér. Það herðist eitthvað í brjósti mér. Sólhvíttuð hárin á handleggjunum á mér standa í réttstöðu þegar þessi maður, sem hefur verið föðurímynd mín í þrjá áratugi, lýsir yfir þátttöku sinni í bardaganum.

„Nei. Nei, þú mátt ekki leika við hana hvernig sem þú vilt. Það er ekki í lagi að „skemmta sér“ með einhverjum sem vill ekki leika.“ Hann opnar munninn til að svara en bræði mín er áþreifanleg í yfirveguðu svarinu. Ég velti því fyrir mér hvort dóttir mín finni hana. Ég vona það.

Hann hörfar inn í stofu og dóttir mín starir upp til mín. Augu hennar, blá og brún stjarnafjöld, skína af því að hún dáist að mömmu sinni. Drekinn hefur verið sigraður (í bili). Móðir mín segir ekkert. Augu hennar neita að mæta mínum.

Þetta er konan sem þaggaði niður í mér þegar ég sagði henni frá nauðgun sem ég hafði nýlega viðurkennt fyrir sjálfri mér og öðrum. Þessari sömu konu var rænt af bílfylli af ókunnugum mönnum þegar hún gekk heim að kvöldi til. Hún barðist um og öskraði þar til þeir spörkuðu henni út. Þegar þeir gáfu í á leiðinni í burtu keyrðu þeir yfir ökklann á henni og skildu hana eftir með heila ævi af líkamlegum og tilfinningalegum sársauka. Þessi sama kona sagði ekkert, gat ekkert sagt, þegar yfirmaður hennar og vinir hennar áreittu hana kynferðislega árum saman. Þessi sama kona giftist einum af þessum vinum.

Þegar móðir mín horfir á það sem átti sér stað sér hún dóttur sína gera of mikið úr hlutunum. Hún sér mig „gera úlfalda úr mýflugu“. Hún hefur meiri áhyggjur af því að viðhalda óbreyttu ástandi en að vernda þriggja ára barnið sem hún sér minnka fyrir augunum á sér.

Þegar ég horfi á það sem átti sér stað finn ég bæði fyrir valdeflingu og beyg. Styrkur minn til þess að neita að þegja er niðurstaða þess að konur hafa verið hunsaðar og órétti beittar í hundruð, sennilega þúsundir ára. Hann er afleiðing þess að horfa á mína eigin móður þjást og þegja yfir allt of mörgum mönnum. Hann er afleiðing þess hvernig farið hefur verið með mig og mitt einlæga loforð að ég skuli verða hluti af lausninni, hluti af því að enda þessa hringrás.

Það væri svo auðvelt að sjá litla stúlku sem lærir að óskir hennar skipti engu. Að hún eigi ekki líkama sinn. Að meira að segja fólk sem hún elskar muni koma illa fram við hana og hunsa hana. Og að þetta sé allt „í lagi“ til þess að annað fólk, karlmenn, geti skemmt sér.

En. Það sem ég sé í staðinn er lítil stúlka sem horfir á móður sína. Ég sé litla stúlku læra að rödd hennar skipti máli. Að óskir hennar skipti máli. Ég sé litla stúlku læra að hún má segja nei og það er gert ráð fyrir því að hún segi nei. Ég sé hana læra að þetta sé ekki í lagi.

Ég vona að móðir mín sé einnig að læra eitthvað.“

21. nóvember, 2018

Höfundur: Lisa Norgren. Hildur Ýr Ísberg þýddi.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.