Drottningarbragðið á Kúbu

Að vera stúlka í hafsjó karlmanna. Þetta er eitt þemanna í nýlegri þáttaröð Netflix sem kallast Drottningarbragðið á íslensku. Þar fylgjast áhorfendur með Beth Harmon, telpu sem verður munaðarlaus og lærir síðan að tefla hjá húsverðinum í kjallara munaðarleysingjahælisins. Hugur hennar stefnir á heimsmeistaramót til að geta mætt þeim besta sem er Rússinn Vasilí Borgov. Allt gerist þetta á tímum kalda stríðsins þar sem þjóðir kommúnista og kapítalista gátu hist í friði og spekt til að iðka hina göfugu skáklist.

Beth Harmon í Drottningarbragðinu og Maria Theresa Mora Iturralde, Kúbumeistari í skák.

Handritið er byggt á samnefndri bók frá 1983 eftir bandaríkjamanninn Walter Tevis. Hafði hann einhverja sérstaka fyrirmynd í huga? Opinbera svarið er nei. Skáksérfræðingur NYT giskaði á að mögulega hefði Bobby Fischer veitt höfundi innblástur en hann var undrabarn vestanhafs sem sigraði rússneskan stórmeistara á dögum kalda stríðsins. En í öllum umsögnum um þættina og bókina hefur enginn nefnd lítilmagnann frá Kúbu, Maríu Teresu Mora Iturralde. Hún var konan sem sigraði alla karlana á meistaramóti Kúbu 1922 en fékk aldrei að keppa við karla á heimsvísu á þessum árum. Engin tiltekin dæmi eru um að henni hafi verið haldið niðri en öllu heldur er Maria Theresa tákn um afburðasnjalla konu sem beið lægri hlut í karllægri íþrótt, átti engan kost á frama eða alþjóðamótum sem hefðu getað gert henni kleift að sýna hvað í henni bjó. Í stuttu máli sagt þá er þetta það sem fólk á við þegar orðið “kerfisbundin” er notað um kynjamismunun. Í fullkomnum heimi er mögulegt að Maria Theresa hefði sigrað Bobby Fischer “OG” rússnesku heimsmeistarana -ef hún hefði fengið tækifæri.

María Theresa og Beth Harmon

Þyki þetta langsótt, ber að hafa í huga að hún er líka eina konan sem sigraði José Raúl Capablanca. (Viðbót höfundar: Þetta hefur ekki verið staðfest til fulls). Hver er Capablanca? Hann var talinn einn besti stórmeistari heims og upphafsmaður nútíma skáklistar. Var búið að nefna að Capablanca var Kúbverji? Þyki lesendum þetta of margar óljósar vísanir til Kúbu, nægir að líta á þættina til staðfestingar. Þegar Beth Harmon kemur í miðskólann, stikar hún inn í bókasafnið til að spyrja hvort þar séu til bækur um skák. Bókavörðurinn býður þá fyrstu sem henni kemur til hugar -eftir José Capablanca.

Beth byrjar að læra um skák og kynnist stórmeistaranum Jose Raúl Capablanca.

Áður en farið verður í smáatriði um þessa skákmenn, er einboðið að líta á stöðu skáklistar á Kúbu á heimsvísu. Vitnum aftur í þættina. Í lokaslagnum mætir Beth Harmon á meistaramót í Moskvu til að etja kappi við alla sína mótherja. Hún býr sig undir að mæta þeim næstsíðasta áður en komið er að lokaglímunni við heimsmeistarann Borgov. Honum er lýst sem “heimsmeistara áður en Elizabeth Harmon fæddist”. Tiltekið er að hann hafi “valtað yfir Bronstein í Havana” sem setur hann í hæstu hæðir í skáksamfélaginu. Á þessari stundu sjá áhorfendur glöggt hve mikla virðingu Rússar og Kúbverjar hafa fyrir skákinni sem rannsóknarsnillingar. Fram kemur að Rússarnir fylkja liði til að hjálpast að en það gera þeir bandarísku ekki vegna “einstaklingshyggju” sinnar.

“Sovétmenn eru banvænir” segja tvíburarnir í þáttunum til að undirbúa Beth. “Þetta er eins og ballett, þeir borga fólki fyrir að tefla”. Þetta er framandi fyrir Bandaríkjamenn en í Rússlandi og á Kúbu hafði skáklistin þá verið ríkisstyrkt í áratugi. Kúbverskum stjórnvöldum þótti mikilvægt að njóta virðingar í skákinni eins og sjá má af boði þeirra að halda ÓL í skák skömmu eftir byltinguna, hétu drjúgum fjárframlögum og þægindum fyrir keppendur eða alls 5 milljónum dala fyrir þetta eina mót árið 1966. Þetta var mótið þar sem Fidel Castro tefldi við Bobby Fischer til að hægt yrði að taka alræmda mynd af þeim.

Bobby Fischer teflir við Fidel Castro í Havana 1966

Sú var líka tíðin að Kúba komst í Heimsmetabók Guiness fyrir stærsta fjöltefli sögunnar þegar 11,320 iðkendur mættu til leiks á Jose Marti torginu árið 2002. Fyrsti heimsmeistarinn, Wilhelm Steinitz (1886-1894) heimsótti Kúbu oft ásamt fleiri snillingum þeirra tíma. Þá var allt í blóma á eyjunni og mikil virðing borin fyrir skákinni enda vel tekið á móti erlendum meisturum, flugferðir greiddar, hótelgisting og uppihald. “Havana er El Dorado skákarinnar” sagði Steinitz í International Chess Magazine 1888. “Þar er að finna sanna áhugamenn sem tefla sér til yndisauka og eflingar íþróttarinnar, fyrir allt samfélag skákiðkenda og hirða lítt um eigin hagsmuni. Þeir bjóða sterkustu stórmeisturunum, borga þeim vel og sýna fyrsta flokks gestrisni, með það eitt í huga að efla skáklistina í heild.” Vettvangurinn var þjóðarinnar allrar.

En víkjum aftur að Maríu Theresu. Hvernig hefur sagan gleymt henni? Til að skilja gildi sigurs hennar á Capablanca á móti þarf að skilja goðsögnina Capablanca. 1921 fór heimsmeistaramótið í skák fram í Havana og Capablanca sigraði og kom þar með Kúbu á skákkortið. Capablanca var 4 ára þegar hann vann föður sinn. 12 ára varð hann Kúbumeistari og 29 ára varð hann heimsmeistari. Hann hélt titlinum í sex ár, til 1927. Hann dó 1942 og skömmu eftir byltinguna 1959 hélt Castro skákeldinum logandi með fyrsta stórmótinu 1962 á Habana Libre hótelinu og þannig var skákhitanum viðhaldið. Capablanca er jarðsettur í Colon-kirkjugarðinum og virtur um allan heim sem einn dáðasti stórmeistarinn.

Capablanca sigrar föður sinn. Forsíða Time 7.des 1925. Capablanca í fjöltefli.

Eins og Capablanca vann Maria Theresa Mora föður sinn í skák og mætti á fyrsta ungmennamótið sitt 11 ára gömul og sigraði auðvitað. 1917 birti Chess Bulletin greinina “Annað undrabarn í Havana”. Þar er fullyrt að hún hafi byrjað að tefla 8 ára. 14 ára var María Theresa þekkt sem sú eina sem Capablanca hafi kennt. Þann heiður veitti hann engum öðrum. Hún var í miklum metum hjá honum og hann veitti henni stuðning um skeið.

1922 fór hún fram úr öllum væntingum með því að verða eina konan sem keppt hefur með körlum á meistaramóti Kúbu og sigrað. Eftir það tefldi hún eingöngu á heimsmeistaramótum fyrir konur -fyrst í Búenos Aires 1939 (7. sæti) og í Moskvu 1950 (vann 4 skákir og gerði 4 jafntefli). Hún var ósigrandi á meistaramótum kvenna á Kúbu milli 1938 og 1960 en þá hætti hún keppni. 1950 varð hún fyrsta konan í Rómönsku Ameríku til að hreppa alþjóðlegan meistaratitil. Þegar Capablanca og Maria Theresa kepptu loksins var það þriggja skáka viðureign. Hún vann tvær og gerði eitt jafntefli. Engan óraði fyrir að nemandinn gæti sigrað kennarann. Að hætti þeirra tíma var hún lítillát og sagði bara “en neyðarlegt, ég vann”.

Capablanca og gröf hans í Havana í Cemeterio Colon

Bókin Drottningarbragðið kom út árið 1983 og er persónan Beth Harmon sennilega mótuð með marga meistara í huga sem höfundur kynnti sér. Sérfræðingar telja að árásarstíll Bobby Fischer sé fyrirmyndin en á þessum árum hefði aldrei verið dæmigert að lýsa stíl konu sem sókndjörfum. Það þykir spaugilegt í þáttunum þegar fósturmóðir hennar les upphátt viðtal í tímaritinu Chess Review þar sem nýju rauðhærðu stúlkunni er lýst -”Hún vill blóð”. Maríu Theresu hefði aldrei verið lýst svona á þriðja áratug aldarinnar. Það var ekki fyrr en 2005 að kona keppti á heimsmeistaramóti. Judith Polgar barðist hetjulega en hafði ekki sigur. Þar sem aðeins 14 iðkenda í bandaríska skáksambandinu eru konur, er ljóst að þær þurfa að yfirstíga karlrembuna sem fylgir enn íþróttinni.

Í frekar neyðarlegu viðtali kastaði Bobby Fischer spreki á þennan eld með því að segja að “konur tefldu hræðilega illa.” Spurður um rök, svaraði hann: “Ég veit ekki af hverju, sennilega eru þær ekki sérlega greindar. Snjöll skákkona sem gæti staðið karlmanni á sporði, hefur aldrei komið fram” Og síðan bætir hann þversagnakennt við, líkt og krakki: “Ég hef aldrei teflt við konu á skákmóti.”

Fyrir hvern Bobby Fischer sem var uppgötvaður, þjálfaður, hvattur, lofaður og umkringdur jafningjum, var sennilega ein María Theresa Mora (Kúbumeistari 1922) jaðarsett… eða Lisa Lane (bandarískur meistari í kvennaflokki 1959) eða Judit Polgar (keppti á HM 2005). Munurinn er að þessar konur fengu aldrei að blómstra. Fengu enga þjálfun, höfðu engar fyrirmyndir. Þær voru einfaldlega afbrigðilegar, snjallari en allar hinar og enduðu einar við skákborðið til að láta reyna á stærðfræðihæfileika sína. Mér finnst Beth Harmon ekki innblásin af Fischer, öllu heldur af Mariu Theresu sem nær að nýta hæfileika sína.

Ungæðisleg óskammfeilni Beth stafar einnig af anda Paul Morphy, stórmeistara sem hún rannsakar af miklu kappi í þáttunum. Morphy nýtti aldrei alla hæfileika sína, líkt og allar konurnar og hætti að tefla 22 ára og fannst látinn í baðkeri sínu 47 ára. Bobby Fischer dáði Capablanca og Morphy fremur öðrum og sagði eitt sinn að Morphy hefði getað sigrað alla skákmeistara allra tíma.

Beth Harmon fetar í fótspor Paul Morphy

Til gamans má geta þess að Morphy hafði dálæti á Kúbu. Hann kom þar við á leið sinni til Parísar 1862 og tók nokkrar brýnur við sterkustu heimamennina. Á bakaleiðinni leit Morphy aftur við á Kúbu og tefldi nokkrar skákir. Frá þessari heimsók segir í “Ferð Paul Morphy til Havana”.

Morphy lét tilfinninguna ráða för við skákborðið og kunni vel að verjast. Hann þótti tefla banvænan sóknarstíl (líkt og Beth Harmon). Gæða má Beth helstu hæfileikum gömlu meistaranna en ég tel einsýnt að Maria Theresa búi í persónunni og Netflix hafi loksins leyft henni að vinna verðskuldaðan meistaratitil.

María Theresa fékk leiðsögn aðeins í stuttan tíma en það nægði snillingi til að sjá þennan óslípaða demant. Af því er ákaflega fögur lýsing í bók Capablanca Skákferill minn þar sem hann segir frá kennslustundum með Mariu Theresu Mora þegar hún var barn.

“Í Havana var ung stúlka, 12 til 14 ára gömul sem hreif mig mjög. Hún var ekki bara greind og prúð að öllu leyti, heldur tefldi mjög vel (ég held að núna sé hún sterkasta skákkona heims, þó hún sé bara 15 til 17 ára gömul). Ég bauð henni nokkrar kennslustundir áður en ég sigldi úr höfn. Hún þáði boð mitt og ég ákvað að kenna henni nokkrar byrjanir og miðtaflsleiðir ásamt almennum reglum og í samræmi við ákveðnar kenningar sem ég hafði haft í huga um hríð en aldrei sagt neinum. Til að geta útskýrt og kennt kenningar mínar varð ég að rannsaka og því varði ég í fyrsta sinn á ævinni nokkrum tíma í byrjanarannsóknir. Eftir því sem ég komst næst, voru hugmyndir mínar réttar og það þótti mér mjög ánægjulegt. Því fór svo að ég lærði meira sjálfur en nemandi minn þó ég vona að unga daman hafi notið þessara kennslustunda sem voru rúmlega tíu. Þannig styrkti ég veikustu hlið mína í skákinni, byrjanirnar og gat einnig fengið staðfestingu á miklu gildi ákveðinna kenninga sem ég hafði þróað í huganum”.

Aðeins sannur karlmaður viðurkennir að 14 ára stúlka hafi gert hann betri. Samt vekur forvitni að sjá að Capablanca nefnir ekki Maríu Theresu Mora á nafn í bók sinni, heldur kallar hana bara “unga stúlku”. Hugsanlegt er að jafnvel sjálfsöruggustu snillingarnir glúpni í viðurvist greindrar konu.

Jauretsi Saizarbitoria.

Frá höfundi: Á því hefur verið vakin athygli að sigur Maríu Theresu á Capablanca hefur verið véfengdur. Um hann er getið í 3 sögulegum vefritum á Kúbu en viðkomandi vefrit teljast ekki alfarið ábyrg heimild sem hægt er að staðfesta. Greinin hefur verið uppfærð skv. þessu en unnið er að heimildaleit til að fá þess á hreint.

Greinin birtist upphaflega á vefritinu Havana 3 AM og er birt með leyfi höfundar. Þýðingadeild Knuz.is snaraði á íslensku.

3 athugasemdir við “Drottningarbragðið á Kúbu

  1. “Þegar Capablanca og Maria Theresa kepptu loksins var það þriggja skáka viðureign. Hún vann tvær og gerði eitt jafntefli.” Það eru engar heimildir til um þetta. Sjá leiðréttingu á vef Jauretsi.

  2. Það má líka benda á að 5 árum eftir að bókin kom út (1983), þá heimsóttu þrjár systur Ísland og heilluðu íslenska skákáhugamenn. En það voru semsagt Polgar-systurnar ungversku. Þær tóku þátt í Reykjavíkurmótinu 1988 og komu svo aftur nokkrum mánuðum síðar og tóku þátt á Austurlandsmótinu. Yngsta systirinn, Judit Polgar, er almennt álitinn öflugasta skákkona sögunnar! https://en.wikipedia.org/wiki/Judit_Polg%C3%A1r

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google photo

You are commenting using your Google account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.