
Clementine Ford er ástralskur rithöfundur, útvarpskona, fyrirlesari og feministi. Hún hefur verið óspör á gagnrýni á áströlsk stjórnvöld sem þykja með eindæmum afturhaldssöm þegar kemur að réttindum kvenna. Hið þrjátíu ára gamla mál sem vísað er til í þessum texta snýst um nauðgunarásakanir sem kona bar á hendur dómsmálaráðherra Ástralíu, Christian Porter, en atburðurinn átti sér stað þegar þau voru sextán og sautján ára. Konan sendi nokkrum samráðherrum Porters bréf þar sem hún sagði frá nauðguninni og fyrirfór sér svo stuttu síðar. Porter neitar ásökununum og sagðist fyrst ekkert muna eftir konunni en segir nú að hún hafi verið greind og hæfileikarík en því miður átt við geðræn vandamál að etja. Lögreglan í Nýju Suður Wales hefur lokað rannsókn málsins vegna ónógra sönnunargagna.
Þetta ákall/ljóð birti Clementine Ford á Facebooksíðu sinni þann 4. mars og Brynhildur Björnsdóttir þýðir það hér með góðfúslegu leyfi.
Ég er brjáluð af reiði. Ég er brjáluð af reiði vegna nauðgunarafsakana, yfir þolendaskömmun, yfir „not all men“ afsökuninni, yfir skipulögðum efasemdum, yfir viljanum til að búa til ástæður fyrir því að kona myndi ljúga upp þrjátíu ára gömlum glæp, yfir skortinum á ábyrgð, yfir því að konum sé aldrei trúað, yfir því að dregið sé markvisst úr trúverðugleika kvenna, yfir hræsninni, hræsni karla sem segjast vera bandamenn, segjast aldrei myndu umbera ofbeldi gegn konum, að þeir sem feður dætra myndu ALDREI UMBERA ofbeldi gegn konum og hvernig dirfist þú að halda öðru fram, að sem feður dætra þá FYRIRLÍTI þeir ofbeldi og myndu ALDREI UMBERA ÞAÐ, að þeir HATI nauðgun og myndu aldrei umbera slíkt, hvernig dirfist þú að halda öðru fram, þeir eiga dætur í almáttugs nafni, þeir eru faðir dætra, ekki allir karlmenn, í rauninni engir karlmenn, engir karlmenn nema nokkrir sem þeir ákveða hverjir eru, engir karlmenn sem þeir gætu þekkt, engir karlmenn sem þeir gætu vingast við, engir karlmenn sem þeir gætu unnið með, kallað bróður sinn, föður eða son, það er að segja engir karlmenn og þá hljóta það að vera konurnar, það eru konur sem gera sjálfum sér þetta, með því að vera fallegar, með því að vera einar, með því að vera úti eftir miðnætti, drekka áfengi, konur biðja um það og konur ljúga, konur biðja um og konur ljúga, þær biðja og svo ljúga þær, þær ljúga til að draga karlmenn í gildru, til að refsa þeim, skaða þá, til að hefna sín, ná völdum, verða frægar, fá athygli, græða peninga, fyrir allt það sem konur græða þegar þær biðja um það og ljúga svo, það eru ekki allir karlmenn, nei, það eru ekki allir karlmenn, karlmenn eru í hættu, synir okkar eru í hættu, þetta eru hættulegir tímar fyrir karlmenn, ímyndaðu þér bara ef kona gæti bara gert þér annað eins, ímyndaðu þér að þetta, nauðgunin meina ég og ekki óréttlætið sem felst í því að vera ásakaður um nauðgun, ímyndaðu þér að það hefði ekki gerst og að kona gæti bara gert þér annað eins og ef hún getur gert þér það þá getur hún gert öllum það, ímyndaðu þér, ímyndaðu þér bara, ímyndaðu þér bara heim þar sem þetta gæti komið fyrir þig.