Ósýnilegu ofbeldiskarlarnir

Rebecca Solnit skrifar:

Meintur morðingi átta manns, þar sem sex voru konur af asísk-amerískum uppruna, mun hafa sagt að hann hefði verið að reyna að “útrýma freistingum.” Það var eins og honum fyndist að aðrir bæru ábyrgð á sálarlífi hans og því væri við hæfi að myrða fólk í stað þess að læra að hafa hemil á sér. Þessi flötur á glæp, sem auðvitað bar líka vott um hræðilega kynþáttafordóma, endurspeglar menningu þar sem karlar og samfélagið í heild kennir konum um það sem karlar gera, einkum og það sem þeir gera konum. Hugmyndin um konur sem tálkvendi er að finna í Gamla Testamentinu og er mjög áberandi í söfnuðum hvítra í Bandaríkjunum; fórnarlömbin voru starfsfólk og aðrir viðstaddir á nuddstofum; morðinginn ætlaði sér að sögn að skjóta niður klámiðnaðinn í Flórída þegar hann var handtekinn.

Í vikunni rifjaði eldri vinkona mín upp tilraunir á áttunda áratugnum að opna kvennaathvarf í samfélagi þar sem karlar trúðu ekki að heimilisofbeldi væri vandamál og þegar hún sannfærði þá um að sú væri raunin, sögðu þeir “en hvað ef það er konum að kenna?” Og í liðinni viku birti vinur minn andfeminíska langloku þar sem ungum konum í New York er kennt um þjáningar Andrew Cuomo ríkisstjóra, rétt eins og þær ættu bara að harka af sér þegar hann braut skýrar og langvarandi reglur á vinnustað, eins og þær bæru ábyrgð á því að vernda starfsferil hans og orðstír en ekki hann sjálfur.

Stundum eru karlar skrifaðir alfarið út úr sögunni. Síðan Kóvid-faraldurinn hófst hefur rignt inn sögum um hvernig starfsferill kvenna sé lagður í rúst eða þær hafi einfaldlga þurft að hætta í vinnunni því þær þurfa að sinna megninu af heimilisverkum, einkum uppeldi barna, í gagnkynhneigðum samböndum. Í febrúar hófst frásögn í NPR á fullyrðingu um að þessi heimilisverk “hafi lent á herðum kvenna”, eins og þau hafi fallið af himnum ofan í stað þess að makar þeirra hafi ýtt þeim þangað eða sett þau þar? Enn hef ég ekki séð grein um karl sem blómstrar í starfi sínu því hann lætur konuna sjá um heimilisverkin eða kemur sér undan þeim.

Konum í þessari aðstöðu er oft kennt um hvernig makinn er og mælt er með að þær yfirgefi sambandið, án þess að nefna að skilnaður leiðir oft til fátæktar kvenna og barna og auðvitað getur ójöfn verkaskipting á heimili rýrt möguleika kvenna á fjárhagslegri velgengni og sjálfstæði. Að baki þessu öllu er frásagnarvandi. Vandinn liggur í því hvernig við segjum sögurnar. Kunnuglegar sögur um morð, nauðgun, heimilisofbeldi, áreitni, óvelkomnar þunganir, fátækt einstæðra mæðra og margt fleira dregur upp þá mynd að slíkt komi bara fyrir konur og karlar eru alfarið afskrifaðir og ekki hluti af sögunum, þeir bera enga ábyrgð, eða að sagt er “hún lét mig gera þetta.” Þannig höfum við farið með margt af því sem karlar gera konum eða karlar og konur gera saman sem vandamál kvenna sem konur þurfa að leysa, annað hvort með því að vera frábærar og hetjulegar og þolgóðar fram yfir allt sem skynsamlegt má telja, með því að breyta körlum, eða með því að galdra fram ómögulega tilveru fjarri ofbeldi og ójafnrétti. Konur bera ekki aðeins ábyrgð á heimilisverkum og barnauppeldi, heldur líka því sem karlar gera.

Rachel Louise Snyder skrifaði bókina „Engir sýnilegir áverkar“ (2019) um heimilisofbeldi. Hún benti á að oftar er spurt “af hverju fór hún ekki” frekar en “af hverju beitir hann ofbeldi?”. Ungum konum sem verða fyrir áreiti á götum úti eða ógnunum er sagt að takmarka frelsi sitt og breyta framkomu sinni, rétt eins og ógnanir og ofbeldi karla sé óumbreytanlegt náttúruafl, eins og veðrið, en ekki lítið það sem eitthvað sem hægt er að breyta og ætti að breytast. Og í kjölfar brottnáms og morðs á Söruh Everard fyrir nokkrum vikum, sem lögreglumaður er grunaður um, gengu lögreglumenn í hús í Suður-Lundúnum og hvöttu konur til að vera ekki einar á ferli.

Óvelkomnar þunganir eru oft skrifaðar á ábyrgðarleysi kvenna og íhaldsmenn í Bandaríkjunum og víðar vilja refsa þeim fyrir að vilja þungunarrof. (Af málflutningi andstæðinga þungunarrofa mætti halda að þessar konur væru bæði Babýlonshórur í kynhegðun og María mey varðandi getnað). Þó fólk sem vill þungun geti komið því í kring sjálft, með aðstoð sæðisbanka eða sæðisgjafa, eru óvelkomnar þunganir í öllum tilvikum vegna kynlífs þar sem einhver setti sæði sitt þar sem það var líklegt að hitta fyrir egg í legi. Tveir einstaklingar eiga þátt í því, en of oft er aðeins annað þeirra talið ábyrgt ef þungun lýkur með þungunarrofi.

Í bók sinni um þungunarrof (2015) bendir Katha Pollitt á að 16% kvenna hafi orðið fyrir “tímgunarnauðung” þar sem karlinn í sambandinu beitir ógnunum eða ofbeldi til að ógilda val þeirra og 9% hafi orðið fyrir “spilltri getnaðarvörn þar sem karlinn fleygir pillunum, stingur gat á smokka eða kemur í veg fyrir að konan fái getnaðarvörn.” Ein af röksemdunum fyrir ótakmörkuðum rétti til þungunarrofs ætti að felast í því að sem mótvægi við brot sem leiða til getnaðar ættu valkostir að vega þyngra en afleiðingar.

Og auðvitað gera lög sem banna þungunarrof nema ef um nauðgun sé að ræða ráð fyrir að þungaðar konur sanni að þeim hafi verið nauðgað. Það er erfitt, ágengt og langdregið ferli sem bregst oft. Pollitt bendir á hve margar óvelkomnar þunganir séu vegna brots á sjálfsákvörðunarrétti sem jaðrar við skilgreiningu laga á nauðgun. Nauðgunin sjálf er brot þar sem þolanda frekar en geranda er oft gert að axla ábyrgðina. Chanel Miller fjallar í magnaðri ævisögu sinni Know My Name, um hvernig ókunnur maður “sundnauðgarinn í Stanford” nauðgaði henni rænulausri og henni var kennt um á allan mögulegan hátt, sem og að þær lagalegu afleiðingar sem gerðir hans höfðu væru hennar sök.

Þegar Tulane-háskólinn birti 2018 tölur um að 40% kvenna og 18% karla í hópi nemenda hefðu orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi, var nær ekkert sagt um þá staðreynd að þetta þýddi að á háskólasvæðinu byggju ekki bara þolendur heldur líka gerendur. 2016 birti CDCP myndrit sem varaði konur við að áfengisneysla gæti leitt til nauðgana, þungana, barsmíða eða kynsjúkdóma, rétt eins og áfengið gæti og myndi gera allt þetta og konur væru þær einu sem gætu komið í veg fyrir það. Enn og aftur voru karlar teknir út úr sögum þar sem þeir eru aðalpersónur.

Þolendaskömm er til í hófstilltari myndum þar sem þolendum ofbeldis og mismununar er oft lýst sem annað hvort truflandi, kröfuhörðum eða geðveikum. Þetta gerist auðvitað þegar þeir sem ráða ákveða að verja óbreytt ástand frekar en þolendur sem það skaðar og jaðarsetur. Ákvörðun sem er líkleg til að leiða til þess að ekkert breytist og við sjáum bara meira af því sama.

Í febrúar skrifuðu Ruchika Tulshyan og Jodi-Ann Burey B: “Blekkingarheilkennið verður til þess að við beinum sjónum okkar að því að laga konur í vinnunni í stað þess að laga vinnustaði kvenna.” Þ.e. greiningin er of oft “finnst hún vera óhæf eða verðskulda ekki” í stað þess að vera “vinnur á stað sem komið er fram við hana sem óverðuga eða óhæfa”. Fyrirsögn í tengdri grein 7. mars er gott dæmi: “Google ráðlagði geðrækt þegar starfsfólk kvartaði yfir kynþáttahatri og kynjamismunun” og lýsir því hvernig starfsfólki sem kvartaði var ýtt út en gerendur virtust óáreittir.

Þó þessar frásagnir virðist á yfirborðinu hafa hag þolenda að leiðarljósi fá þeir enga vernd þegar gerendurnir eru skrifaðir út úr sögunni.

Gerendur eru verndaðir, bæði sem einstaklingar og hópur. Þetta er vandamál og jafnvel krísa í öllum þeim aðstæðum sem ég hef lýst en í blóðbaðinu í Georgíu leiddi það til dauða: Ungur maður lærði í menningarkima babtisma í Suðurríkjunum að kynlíf væri synd og konur væru tálkvendi og drósir. Hann taldi þær bera ábyrgð á andlegri líðan sinni og refsaði þeim með dauða.

Rebecca Solnit skrifaði fyrir Guardian. Hún skilgreindi hrútskýringuna á sínum tíma og hefur gefið út bækur og greinar. Þýðingadeild Knúzz þýddi.

Ein athugasemd við “Ósýnilegu ofbeldiskarlarnir

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.