Ofbeldi er ómenning

 

Önnur bylgja #metoo umræðunnar hefur auðvitað ekki farið framhjá mér frekar en öðrum og ég verð að viðurkenna að hún vekur með mér mikinn óróa og óþol gagnvart öllu ofbeldi í mannlegum samskiptum. Ástæðan er einfaldlega sú að ég var alin upp á ofbeldisheimili þar sem aldrei var rætt um ágreiningsefnin af neinni einurð og alvöru, heldur var vöndurinn og valdbeiting látin skera úr um þau. Hnefinn var rétthærri en orðið. Alla mína tíð hef ég verið að kljást við afleiðingar ofbeldisins og hef mætt því aftur og aftur í gegnum ævina, alls konar ofbeldi, andlegu, tilfinningalegu og líkamlegu.

Einu sinn héldu íslenskir stúdentar upp á fullveldisdaginn í félagsheimili í útlöndum. Þeir drukku frá sér allt vit og eyðiögðu í leiðinni glænýjan konsertflygil. Það gleymdist að breiða hlífina yfir hljóðfærið eftir allan ættjarðarsönginn og það endaði sem barborð. Og auðvitað sullaðist bjórinn og brennivínið ofan í hljóðfærið í jöfnu hlutfalli við áfengismagnið í blóði stúdentanna. Eigendur hússins urðu fyrir áfalli þegar þeir sáu illa farið hljóðfærið og vildu hafa upp á skemmdarvörgunum. En það var ekki við neinn að sakast sögðu Íslendingarnir hofmóðugir, svona væri bara áfengismenningin á Íslandi.  

 Orðið menning er gott orð eitt og sér og hingað til höfum við notað það til að lýsa því sem menn gera vel í bókmenntum og listum. En þegar orð eins og nauðgun og áfengi eru sett fyrir framan hættir það að hafa eitthvað með menningu að gera en lýsir mannskemmandi hegðun, jafnvel úrkynjaðri og banvænni ómenningu.

 Ég efast ekki um að stór meirihluti kvenna hefur orðið fyrir alvarlegu áreiti ef ekki ofbeldi af hálfu karlmanna sem þær hafa alist upp með, þurft að umgangast í skóla, á vinnustöðum eða í ástarsamböndum. Og ofbeldið byrjar snemma og er nátengt tungutakinu, hvernig karlmenn ræða um konur, útlit þeirra, líkama og síðast en ekki síst það sem þeir kalla kynlíf en mætti kannski heldur líkja við sníkjulíf. Strákarnir í minni kynslóð töluðu um stelpurnar sem göt, hvort hin eða þessi hleypti upp á sig, léti það, gæfi hann góðan, væri lauslát eða mikil almannagjá.  

 Einu sinni hitti ég mann á bar sem vildi endilega bjóða mér upp á drykk á skrifstofunni hans sem var í næsta nágrenni. Þetta var myndarlegur maður með töfrandi augu, blíðlegur og góðlegur að sjá. Ég hef oft farið flatt á því að treysta sýndarsvip karlmanna sem í raun höfðu meiri áhuga á að sníkja sér drátt en elska mig. Ofbeldisuppeldið gerði mig ólæsa á raunverulegan ásetning þeirra. Ég lét mér oft nægja ef þeir brostu fallega til mín. Þessi brosmildi og blíði maður var sömu megin og ég í pólitík, vinstri sinnaður. Mér fannst hann áhugaverður og var alveg til í að ræða við hann um ástandið í þjóðfélaginu og hlutskipti mannsins í heiminum. Hvorugt okkar var blindfullt en áfengið hafði vissulega losað um hömlur, ekki aðeins um málbeinið.

 Hann byrjaði kúltíverað eins og sannur herramaður en fyrr en varði vildi hann fá að kyssa mig og strjúka og í beinu framhaldi leggja mig marflata á teppalagt skrifstofugólfið til að fá sitt fram. Þegar ég hreyfði mótmælum byrjaði suðið, þetta leiðinda tippasuð. Ég sagði að ég hefði ekki áhuga, væri ekki tilbúin í þessa aðgerð. Hann virti það en um leið dundu niðurlægjandi spurningar á mér: ,,Ertu kannski hrein mey? Eða á túr? Ertu hrædd um að verða ólétt? Notarðu ekki getnaðarvarnir? Ertu kannski trúuð? Viltu ekki gera það fyrr en þú ert gift? Þú ætlar kannski að vera piparkelling alla ævi? Eða ertu kannski lesbía? “ Ég var að verða þrítug þegar þetta var og hafði þokkalega reynslu af ástarsamböndum og kynlífi en maðurinn kom fram við mig eins og hann hefði hitt fyrir konu frá miðöldum.

Þegar ég rifja þetta atvik upp, finn ég hvernig reiðin blossar upp, reiðin yfir því hvernig þessi framkoma karlmanna hefur mótað sjálfsmynd kvenna í aldaraðir, haldið þeim niðri, eyðilagt þær. Fyrsti alvöru kærastinn minn sem ég trúði fyrir mínum viðkvæmu og veiku hliðum, fyrir obeldinu sem ég hafði verið beitt í æsku, hann nýtti sér þann trúnað sér til framdráttar. Við vorum á leið í partí til vina og meðan ég var gleraugnalaus að mála mig um augun hreytti hann út úr sér: ,,Í guðanna bænum, settu á þig gleraugun, þú ert þó skárri þannig“ og þegar ég rúmlega tvítug stúlkan vildi klæðast stuttu pilsi sem var í tísku, sagði hann: ,,Ætlarðu virkilega að vera í þessu pilsi með lærin í skónum?“ Og af því að ég var ung, ástfangin og hélt að ég gæti treyst honum, var ég viss um að hann hefði rétt fyrir sér.

 Mér skilst að þessi umtalaða nauðgunar, klám- og ofbeldismenning grasseri í dag hjá strákum á öllum aldri í karlaklefum landsins, jafnt hjá klausturköllum og strákum á barnsaldri sem kalla skólasystur sínar hórur, tussur, píkur og tíkur. Stundum spyr fólk sem hefur fylgst með þessari ofbeldisumræðu og þá einkum karlmenn sem eru allir af vilja gerðir til að skilja kynferðisofbeldið: ,,Er ekki komið nóg, er þetta ekki orðið gott, eru karlmenn virkilega svona vondir?“

 Svarið við þessum spurningum er að raunverulegt samtal um  kynferðisofbeldi hefur ekki farið fram nógu oft til að breyta hugsunarhætti karla. Þeir eru margir enn við sama heygarðshornið. Þess vegna sprettur þessi nýja #metoo bylgja upp. Eigum við ekki að ræða þessa ómenningu alla, tengslin milli stjórnlausrar drykkju og trylltrar kynhvatar? Vanmátt karlmanna gagnvart sjálfstæðum konum sem hafa menntað sig og um leið áttað sig á að þær hafa líka fullan aðgang að samtalinu um samfélag og vald.

 Það er ekki hægt að þvinga konur til samræðis og samspils ekkert frekar en að spila á laskað hljóðfæri. Hvorki konur né hljóðfæri þola mikið áfengi og alls ekki að á þeim sé níðst. Það er því aðeins með alvöru og einörðu samtali sem við getum útrýmt þeirri ómenningu sem ofbeldið fæðir af sér.

Hlín Agnarsdóttir skrifaði og heimilaði birtingu á Knúz.is.

 .    

2 athugasemdir við “Ofbeldi er ómenning

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.