
Það þarf ekki að rifja upp langt aftur í tímann hvers vegna það er verið að kjósa nýjan
formann innan Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ.
„Þörf er á hugarfarsbreytingu, tími þöggunar og einhvers konar yfirhylmingar er liðinn“,
„…um leið tel ég mikilvægara í dag að taka stöðu með þolendum til þess að breytingar
verði að veruleika því það er sannarlega kominn tími á slíkt“.
Ofangreindar tilvitnanir eru úr Facebook færslum Sævars Péturssonar frá 31. ágúst og 8.
september 2021. Nú hefur Sævar boðið sig fram til formanns KSÍ en í tilkynningu hans
um framboð nefnir hann hvergi ofbeldismál, þöggun, yfirhylmingu né þolendur. Ástæða
þess að verið er að kjósa nýjan formann KSÍ er sú að fyrrum formaður og stjórn
brugðust þolendum algjörlega. Það tengist ekki fjármálum, þjóðarleikvangi eða öðrum
málefnum fótboltans. Það tengist þolendum og einungis þolendum. Það er því áhugavert
að ofbeldismál innan Knattspyrnuhreyfingarinnar komi hvergi fram sem helstu áherslur
Sævars í framboðinu. Þolendur innan sem utan vallar þurfa að fá tækifæri til að finna sig
aftur innan hreyfingarinnar. Þolendur og iðkendur þurfa að upplifa traust og öryggi í
garð hreyfingarinnar til að trúa því að á þau verði hlustað kjósi þau að segja frá ofbeldi.
Við teljum að það sé erfitt að setja fótboltann strax í fyrsta sæti þegar öryggi iðkenda er
ekki tryggt. Við teljum nauðsynlegt að tryggja öryggi iðkenda innan hreyfingarinnar og
að okkar mati ætti það að vera í forgangi og í kjölfarið kemur allt hitt. Með öryggi vex
hreyfingin.
Þær áherslur sem Sævar kom inn á í framboðs tilkynningu sinni eru góðar og
gildar en á sama tíma veltum við fyrir okkur hvers vegna það sé hvergi minnst á
ofbeldismál og þolendur. Við viljum því spyrja þig beint, Sævar;
- Hvers vegna eru ofbeldismál, þöggun, yfirhylming og þolendur ekki meðal helstu
áhersla í framboðstilkynningu þinni? - Hvernig hyggst þú taka stöðu með þolendum til þess að breytingar innan
hreyfingarinnar verði að veruleika líkt og þú segir sjálfur 8. september 2021 í
færslu á Facebook? - Hvernig ætlar þú styðja við þolendur sem leita til KSÍ vegna ofbeldi af hálfu
leikmanna innan knattspyrnuhreyfingarinnar? - Munt þú leita til sérfræðinga í málaflokki ofbeldis til að fá ráðleggingar um
hvernig eigi að taka á ofbeldismálum sem kom inn á borð KSÍ? - Hefur þú hugsað þér að taka til skoðunar siðareglur KSÍ, sem skortir, líkt og
tilkynning þín til framboðs, allt sem kemur inn á ofbeldi og þolendur þess?