Óbærilegar hugmyndir tilverunnar

Höfundur: Þórunn Þórhallsdóttir

Þúfan eftir Ólöfu Nordal. Myndin er sótt hingað, © Georg Theodórsson.

Þúfan eftir Ólöfu Nordal. Myndin er sótt hingað, © Georg Theodórsson.

Free the nipple.

Þrjú lítil en býsna byltingarkennd orð. Ég vona að slagorðið stuðli að viðhorfsbreytingu gagnvart brjóstum sem tabú þrungið tilgangi, hvort sem fæðugjafi eða kynferðislegt tákn. Ég vildi gjarnan að brjóst væru ekki tekin svona alvarlega, án þess að ég vilji gera lítið úr mikilvægi þeirra fyrir hvert okkar um sig. Ég vildi gjarnan að umræðan væri ekki svona hatrömm um tilveru líkamshluta sem eru í raun jafn hverfulir og þeir þykja sjálfsagðir. Því ég þarf að leggjast undir hnífinn einn daginn og láta skera þau af mér og það fyrr en seinna.

Ég er ekkert fórnarlamb þótt svo sé. Ekki mamma mín heldur, ekki frænka mín og vinkona mín heitnar heldur. Í öllum þremur tilfellum sáu þær sjálfsagt brjóst sín í nýju ljósi þegar þeim var sagt að þær væru með brjóstakrabbamein og höfðu blendnar tilfinningar um að lifa án þeirra eða fá ný. Ég er í tæplega 90% hættu á að brjóstin mín sýkist af þessum alltof tíða sjúkdómi en er að sama skapi afskaplega heppin hversu snemma uppgötvaðist að ég er arfberi hans. Ég hef vitneskju og val og fæ tækifæri til að velta fyrir mér hvort brjóstin á mér eru í raun og veru jafnmikilvæg og samfélagið vill segja mér og kynsystrum mínum, já og öllum kynjum.

Það vakti alheimsathygli fyrir nokkrum misserum þegar Angelina Jolie lét nema burt brjóst sín í forvarnarskyni.

Hugmyndir um brjóst eru svo þversagnakenndar og þrúgandi að sá hluti mannskyns sem ber þau, sligast oft á tíðum undan uppáþrengjandi skömm, goðsagnakenndri hyllingu þeirra og ómissandi lífskrafti þar sem blessuð móðurmjólkin spýtist út í syndum hlaðið stórfljót sem lífið er og streymir í heilagri athöfn ofan í verðandi tilbiðjendur þeirra.

Nokkrar konur hafa deilt með mér reynslu sinni af brjóstakrabbameini, uppbyggingu og brjóstleysi. Í stóra samhenginu verða brjóstin lítill hluti af stórri heild. Ein þeirra sagði mér að það hefði aldrei verið spurning um annað en brjóstauppbyggingu í kjölfar uppskurðar. Brjóst væru hluti af sjálfsmynd og líkamsímynd hennar þótt þau væru ekki söm eftir aðgerð. Önnur kaus brjóstleysi því uppbyggð brjóst verða aldrei þau sömu hvað varðaði næmni og þar sem aðgerðir sem þessar eru mikið inngrip og geta haft sýkingar og sársauka í för með sér sætti hún sig við brjóstleysið. Manninum hennar fannst þetta heldur ekki á hana leggjandi og hún er sátt í dag fyrir utan að hafa ekki treyst sér í sundferðir. Blessuð brjóstaskyldan getur dregið úr manni kjarkinn. Þriðja konan átti einfalt en flókið ráð, það fer eftir því hvernig á það er litið, okkur hinum til handa sem ætla sér í brjóstnám í forvarnarskyni: að undirbúa sig andlega og líkamlega svo við þurfum aldrei að líta til baka. Þetta er spurning um sátt hvort sem þú velur uppbyggingu eða ekki.

Ég fékk lánaðan hlýralausan bol hjá vinkonu minni fyrir mörgum, mörgum árum síðan og missti hann niðrum mig á fylleríi í Sjallanum sáluga. Margsinnis. Á þessum tíma voru djammheimasíður að ryðja sér rúms á veraldarvefnum þar sem birtar voru myndir af fólki í misgóðu ástandi á skemmtistöðum víðsvegar um land. Ég held að brjóstin mín hafi ekki ratað þangað en guð minn almáttugur, skömmin hefði orðið helmingi verri. Ég skammaðist mín afskaplega lengi fyrir drusluganginn á mér en hugsa svo: hverjum er ekki sama um þessar túttur? Því miður vekja þær ásamt milljörðum annarra æpandi athygli og þær væru sjálfsagt á pervertasíðum um allan heim í dag. Ef svo væri væri mér alveg sama því þær eru ekki sjálfsagður hlutur af lífi mínu né annarra þótt mér þyki þau falleg og skammist mín ekki fyrir þau. Þessar túttur gætu þess vegna sveiflast á Kaffibarnum eða niður Laugaveginn í góðu veðri, það ætti ekki að skipta máli. Brjóstin mín eru ekki eingöngu fyrir kærastann minn eins og margar konur halda fram í sínu tilfelli. Ég svívirti þau ekki með því að flagga þeim í ölæði, þótt það hafi stafað af óöryggi og vilja til að gleyma því hvað mér fannst ég ómöguleg og vitlaus.

Við þurfum ekki að skammast okkar fyrir brjóst, uppbyggð brjóst, brjóst sem mjólka ekki eða það að vera með engin brjóst. Þótt það verði sjálfsagt andskotanum erfiðara fyrir mig að láta taka þau af mér þegar á hólminn er komið þá hugsa ég um allar þessar konur þar sem eitthvað annað og stærra og alvarlegra en yfirþyrmandi kjánalegar hugmyndir um brjóst varð að veruleika í raunverulegum brjóstum þeirra.

Áfram stelpuskottin okkar, þið eruð hugrekkið holdi klætt.

Áfram elsku druslur, ekki stunda fortíðarflakk með skömmina í farteskinu.

Áfram allar þær ykkar sem heyja baráttuna og arfberar BRCI sem þurfa að taka erfiða ákvörðun.

Áfram mamma sem hefur barist við sjúkdóminn og fyrir allar konur.

Og áfram kæra vinkona og frænka og allar þær sem fylla aðrar víddir fegurð, húmor og visku og höfðu sig yfir allt kjaftæðið, æðruleysi ykkar gefur okkur styrk.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.