Betra er að veifa röngu tré en öngu

Menn eru saklausir uns sekt þeirra er sönnuð fyrir dómi. Grundvallarregla réttarríkisins og betra að fjöldi sekra gangi laus en einn saklaus sitji í fangelsi. Þetta er básúnað, sérstaklega þegar um kynferðisbrot er að ræða og verið að afsaka að þau séu ekki saksótt eða dæmt í þeim. Sýknudómur getur nefnilega iðulega verið undansláttur fremur en réttmæt afstaða dómara. Í sjálfu væri gott að halda á lofti þessum grundvallarreglum ef kerfið væri óbrigðult og hefði margsannað sig, en allir vita að í kerfinu er alvarleg sjónskekkja.

Úti í heimi sitja og hafa setið ótal manneskjur saklausar í fangelsi, sumar áratugum saman. Þær hafa verið dæmdar á líkum og iðulega mjög vafasömum vitnisburðum eða sönnunargögnum. Það er hægt að nefna tugi slíkra dæma, The Birmingham Six, the Guildford Four og Judith Ward í Bretlandi. Allt þetta fólk var dæmt fyrir að koma fyrir sprengjum og dómar yfir þeim voru litaðir af ótta Breta við IRA og hryðjuverkstarfsemi þeirra samtaka. Að auki er alþekkt úti heimi tregða kerfisins að viðurkenna mistök sín og opna fangelsisdyrnar og allir sem fylgst hafa með the Making of a Murderer og fleiri þáttum þekkja hana vel.

Margar og margvíslegar rannsóknir vísindamanna hafa sýnt að það skiptir máli hvert kynferði þitt er, stéttastaða, útlit, litarháttur og heilsa þegar inn í réttarsalinn er komið. Íslenskur lögmaður, Þorbjörg Inga Jónsdóttir, tjáði sig við fjölmiðla nýlega og sagðist hafa orðið vör við að það skipti máli hver skjólstæðingur hennar væri. Allt varð vitlaust. Starfsbræður hennar snerust margir öndverðir gegn henni en samt er þekkt víða erlendis að lögmenn dubba sakborninga upp í jakkaföt og hylja tattú og dreadlocks í þeim tilgangi að ná fram mildari dómum. Hvers vegna ætti það að vera öðruvís hér á landi? Ísland hefur almennt fylgt ágætlega öðrum lýðræðisríkjum hvað varðar alla félagslega þróun, viðhorf, vandamál og tölfræði. En sumir telja að réttvísin sé blind og hlutlaus hér á landi, nema auðvitað í Guðmundar- og Geirfinnsmálum en þar er nýlokið dómi yfir íslenska ríkinu og réttarkerfi þess. Getum við verið þess fullviss að það sé eina réttarmorðið í íslenskri réttarfarssögu?

Erfiða sönnunarbyrðin

„En þrátt fyrir einhverjar undantekningar og örfá dæmi er hver maður saklaus þar til sekt hans sannast og sönnunarbyrðin er svo erfið í þessum kynferðisbrotamálum,“ segir fólk. En stundum hjálpa brotamennirnir til og taka upp glæpi sína. Það gerði hópur af bandarískum háskólastúdentum og íþróttahetjum þegar þeir einn af öðrum nauðguðu skólasystur sinni áfengisdauðri í partíi. Svo dreifðu þeir myndbandinu til að gleðja sig og aðra. En þegar málið kom fyrir rétt fannst dómaranum óþarft að dæma þá. Þetta voru allt ungir og efnilegir menn sjáið þið til, eins og sagði í dómsorði, sektardómur hefði áhrif á alla þeirra framtíð. Femínistar í Barndríkjunum risu upp og reyndu allt hvað þeir gátu til að fá dómnum breytt. Málið varð frægt langt út fyrir landsteina USA og ótalmargir „öfgafemínistar“ um allan heim blönduðu sér í umræðuna en það breytti engu um niðurstöðuna.

„En svona gerist ekki á Íslandi,“ segir fólk. Okei en hvað með nokkurra ára gamalt mál úr Reykjavík þar sem hópur stráka nauðguðu fimmtán ára stúlku inni í herbergi heima hjá einum þeirra? Þeir tóku glæpinn upp og dreifðu um skólann sinn. Stúlkubarnið var hrætt og miður sín og ætlaði, líkt og konur hafa gert frá ómunatíð, að reyna að gleyma, láta sem ekkert væri en myndbandið gerði það ómögulegt. Þegar það fór í dreifingu komst allt upp og móðir hennar gekk í málið og kærði. Piltarnir voru sýknaðir af nauðgun, enda þótti dómara ekki sannað að stúlkan hefði gengið óviljug til leiks. Hún sást ekki né heyrðist mótmæla, þar sem hún lá lömuð af skelfingu og hryllingi og beið þess að viðbjóðurinn tæki enda. Nei, dómari þurfti að túlka vafann drengjunum í vil vegna þess að það er svo algengt að fimmtán ára börn hafi reynsluna, þroskann og forsendurnar til að gefa upplýst samþykki um kynlífsathafnir af þessu tagi. Stúlkubarnið var að auki með áverka bæði á innri og ytri kynfærum eftir atganginn og það er svo algengt að börn njóti þess að láta meiða sig.

Móðir stúlkunnar kom einmitt inn á þetta í viðtali í Kastljósi eftir að dómur féll og lýsti furðu sinni á niðurstöðunni. Einn drengur var dæmdur fyrir dreifingu á myndbandinu. Það er allt og sumt. Við skulum átta okkur á því að dómurum er beinlínis ætlað að beita dómgreind sinni í að túlka lögin og aðstæður þar sem glæpur er framinn. Þeir eiga að skoða sönnunargögn út frá því hversu líklegt sé að atburðarrás hafi verið einmitt með þeim hætti sem sakborningur eða -borningar lýsa. Hefði í annars konar máli verið talið ólíklegt að fimmtán ára reynslulítið barn vildi láta misþyrma sér? Hver og einn verður að beita sinni dómgreind við að svara þeirri spurningu.

Vitni eitt og vitni tvö

„En það eru engin vitni og svona,“ segir fólk. Jú, það eru vitni, alltaf. Sá eða sú sem tekur á móti þolandanum eftir verknaðinn, aðstandendur sem taka eftir breytingu og sérfræðingurinn sem hjálpar þeim að ná sér af áfallastreituröskun. Hvernig er vitnisburður þeirra metinn? Vegur hann jafnþungt og vitna í öðrum líkamsárásarmálum? Það væri fróðlegt að vita og ég auglýsi eftir vísindamanni til að fara í gegnum gögn og rannsaka það.

Nýlega féll hér á landi dómur yfir ungri konu sem dæmd var fyrir líkamsárás á mann sinn og að bíta hluta úr tungu hans. Hún heitir Nara Walker. Í viðtali við vikublaðið Mannlíf lýsti hún því hvernig hann hefði beitt hana ofbeldi um árabil. Hversu hrædd hún var við hann og að viðbrögð hennar þetta kvöld hafi verið sjálfsvörn manneskju sem óttaðist um líf sitt. Öllu þessu lýsti hún fyrir lögreglu og fyrir réttinum á Íslandi. Tvö vitni voru í málinu, annað ástkona eiginmannsins, hitt ferðamaður sem var gestkomandi á heimili þeirra þessa nótt. Ferðamaðurinn var yfirheyrður seint og ekki leitaður uppi fyrr en að kröfu lögmanns Nöru. Hann staðfesti fyrir dómi í öllum aðalatriðum sögu Nöru af atburðum næturinnar en samt vó framburður ástkonunnar þyngra. Hvers vegna, getur aðeins dómarinn svarað.

Hvað með vitnisburð sérfræðinga? Þeir láta okkur vita hvort morðingjar eru sakhæfir og þá treystum við þeim. Þeir segja til um hvort svipta eigi menn sjálfræði vegna andlegra veikinda eða annarra sjúkdóma er hafa áhrif á dómgreind og hæfni til að taka ákvarðanir og sjá um sig sjálfur. En þegar þeir bera að þolandi kynferðisofbeldis beri skýr einkenni áfallastreitu er ekki ástæða til að taka mark á þeim.

Sápukassar predikaranna

Í breskri sögu er norðausturhorn Hyde Park frægt. Það var síðasta stopp áður en dæmdir menn voru leiddir á Tyburn-gálgann og þeir fengu þar að stíga upp á sápukassa úr tré og ávarpa lýðinn. Þetta var stundum síðasta tækifæri glæpamanna til að réttlæta gerðir sínar og stundum eina leið pólitískra fanga til að vekja athygli á þeim órétti sem þeir voru beittir. Allt frá árinu 1196 hefur sápukassi staðið á þessu horni Hyde Park og þar stigið á stokk ótal postular réttlætisins. Enn þann dag í dag standa þar menn og konur og halda mismunandi innihaldsríkar ræður um réttlæti. Sumir segja að sápukassinn sé vagga tjáningafrelsisins.

Ég spyr mig hins vegar oft hvort þeir karlmenn sem nú standa á sínum huglæga sápukassa hér á Íslandi og fullyrða að KSÍ komi ekki við ofbeldi meðal stjörnuleikmanna þeirra, félagið sem þiggur milljarða af opinberu fé og eys því í sömu hetjur, sé þess ekki umkomið að rannsaka eða dæma um afbrot þeirra. Að það eigi að standa utan þess að afstaða sé tekin og alls ekki setja góða leikmenn í bann. Á meðal þessara sömu álitsgjafa eru hressir réttlætispostular sem segja okkur að ekki megi dæma menn af dómstóli götunnar og að mikið sé nú gott til þess að vita að einhverjir sekir gangi lausir því enginn megi fara saklaus í fangelsi.

Mikið hef ég oft spurt sjálfa mig hvort þessir sömu réttlætispostular hafi virkilega hlustað á konur. Hlustað eftir því sem verið er að fara fram á eða velt fyrir sér hvort ekki sé ástæða til að skoða hvort eitthvað sé að í réttarkerfinu. Sjónarhorn miðaldra hvítra karla, sem eru í meirihluta þeirra sem véla um ráð og náð í réttarkerfinu, er nefnilega sjónarhorn líka. Það er ekki hlutleysið holdi klætt og réttlætið með augnbindið. Það er litað af alls konar gráum skuggum og hefur oft verið afhjúpað fyrir einmitt það sem það er; vanmáttugt verkfæri misvitra manna. Væri ekki gaman ef réttlætispostularnir fengjust til að stíga niður af sápukassanum og hætta að veifa skiltinu „Saklaus uns sekt er sönnuð“ vegna þess að það er raunverulega ekkert betra að veifa röngu tré en öngu.

Steingerður Steinarsdóttir

Færðu inn athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.