Hugleiðing um þrálátt frumlagsflakk

Nýlegar rannsóknir benda til þess að það færist ískyggilega í vöxt að karlmenn, gjarnan fullorðnir karlmenn, reyni með ýmsum aðferðum að fá unglingsstúlkur, allt niður í 10-12 ára gamlar, til að senda af sér nektarmyndir eða myndbönd með kynferðislegu efni. Þetta vandamál er þekkt og það er svo sannarlega ástæða til að ræða það opinberlega. Öll hljótum við þó að vera sammála um eitt: Það sem vandinn hverfist um er – eða ætti með réttu að vera – sú staðreynd að sífellt fleiri karlmenn sækjast eftir kynferðislegu myndefni af kornungum stúlkum og börnum og afla þess efnis með kerfisbundnum, meðvituðum hætti hjá börnunum sjálfum. Skaðann sem af því hlýst þarf varla að ræða, þótt það sé að sjálfsögðu gott að gera það, þá sérstaklega til að hvetja þolendur sem allra mest til að segja frá, leita sér hjálpar og nýta sér skaðaminnkandi úrræði, þegar á þeim er brotið. En getum við ekki öll verið sammála um að þolendurnir séu ekki vandamálið? Heldur gerendurnir, og samfélagið sem þeir þrífast í?

Fréttaskýringarþátturinn Kveikur fjallaði um þetta mál á þriðjudaginn var og það skal tekið fram að þessi pistil fjallar EKKI um þann þátt. Í Kastljósinu miðvikudaginn 20. október, kvöldið eftir sýningu Kveiksþáttarins, var þetta mál hins vegar einnig til umræðu. Þar hittust hjá Einari Þorsteinssyni, þær María Rún Baldursdóttir, lögfræðingur hjá ríkislögreglustjóra, og Margrét Kristín Magnúsdóttir, starfandi framkvæmdastjóri Barnahúss. Og það fór ekkert á milli mála hvert umræðuefnið var: Þolendur brotanna. Ekki gerendur, ekki samfélagið sem gerendurnir koma úr, ekki markaðsöflin sem ofursexúalísera stúlkur langt fyrir aldur fram í viðskiptaskyni og normalísera um leið að þær séu gerðar að viðfangi kynlífsóra fullorðinna karla. Það liðu röskar átta mínútur af þættinum þar til orðið “gerandi” var notað og það var ekki staldrað lengi við þar. Eins og sorglega oft vill verða í umræðunni um kynbundið ofbeldi var gerandinn harla ósýnilegur. Allt hverfðist um stúlkurnar sjálfar, þolendur brotanna. Af hverju “senda þær” myndir og myndbönd? Hvað gerist þegar þær “lenda í” því að slíku myndefni “er dreift” áfram í “leyfisleysi”?

Hér þarf að staldra við og skoða hvernig setningarfræðin stýrir orðræðunni. Byrjum á hinu sívinsæla „lenda í“-orðalagi. Þegar við „lendum í“ einhverju felur það óbeint í sér óviðráðanlega, jafnvel tilviljanakennda atburðarás. Eins og að lenda í rigningu, jarðskjálfta, slysi, óhappi.

En kynferðisbrot er ekki vont veður eða náttúruhamfarir. Það er vísvitandi misgjörð sem er framin af einstaklingi í mjög sértækum tilgangi. Og þegar talað er um að stúlka lendi í því að senda af sér mynd er ekki bara búið að fjarlægja gerandann (þann sem beitti ákveðnum aðferðum til að fá myndina) úr frásögninni, heldur hefur brotið eiginlega veriðsmættað niður í einhver skonar tilviljanakennt slys sem á sér ekki röklegan og skýran aðdraganda og orsakir.

Lítum þá aðeins á setningarfræðina. „Nær fimmta hver stelpa á aldrinum 15-17 ára hefur lent í því að mynd sem hún hefur sent hefur verið dreift áfram að henni forspurðri,“ sagði Einar Þorsteinsson þegar þátturinn hófst og gaf um leið tóninn fyrir nálgun þáttarins. En hvað felst í raun í þessari setningu – og það sem meira er, hvað felst EKKI í henni?

„Stúlka sendir nektarmyndir af sér sem er dreift í leyfisleysi“ er á allan hátt allt öðruvísi setning setning en „Karlmaður/piltur biður/platar/kúgar unglingstúlku til að senda sér nektarmynd sem hann svo selur/dreifir áfram án leyfis“ (eins og unglingsstúlka geti yfirleitt veitt leyfi til slíks!). Í fyrri setningunni er þolandinn frumlagið, í þeirri seinni er það gerandinn sem er frumlagið. Það er óljóst hverjum myndin er send og það virðist ekki skipta máli, því þessu næst gerist það að myndinni „er dreift“ á óskilgreindan hátt af óskilgreindum aðila, næstum eins og það hafi komið hvöss vindhviða og hrifsað hana með sér. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli, því það stýrir því hvort við upplifum sem vandamálið, þolandann eða gerandann.

Að lokum verður ekki hjá því komist að staðnæmast við þriðja atriðið sem gerir þolandann að virka aðilanum í ferlinu: „að henni forspurðri“. Það má nefnilega spyrja sig hvort 15 ára stúlka, hvað þá yngri (eins og margir þolenda sannarlega eru) geti yfirleitt veitt upplýst samþykki fyrir dreifingu á nektarmynd af sjálfri sér og þessi áhersla á leyfisveitingu vekur óbeint upp þá spurningu hvort það væri þá bara allt í lagi að dreifa nektarmynd af grunnskólabarni ef gerandinn man að spyrja leyfis fyrst?

Eins og oft áður í þessu samhengi kemur upp í hugann Jackson Katz, bandarískur rithöfundur og kennari sem flutti einu sinni sem oftar frábært erindi sem birtist í íslenskri þýðingu sem grein á Knúzinu fyrir einhverjum árum. Í erindinu er Katz að ræða sérstaklega orðræðu um heimilisofbeldi, en grunnreglan er sú sama. Og á jafnvel enn frekar við þegar stafrænt kynferðisofbeldi gegn börnum er annars vegar.

Í greininni (sem er þýðing á TED-fyrirlestri) segir Katz m.a.:

Við byrjum á einfaldri setningu: Jón barði Maríu. Þetta er góð og gild setning. „Jón“ er frumlagið, „berja“ er umsögnin og „María“ andlagið. Í næstu setningu er sami hluturinn sagður: María var barin af Jóni. En nú hefur áherslan færst frá Jóni yfir á Maríu og Jón er kominn aftast í orðaröðina. Í þriðju setningunni er Jóni alveg sleppt og þá segjum við: María var barin. Nú er þetta farið að snúast alfarið um Maríu. Jón er ekki einu sinni með í leiknum. Í fjórðu umferð verður til setning sem er svona: María er kona sem var barin. Og þá erum við búin að skilgreina Maríu alfarið út frá því sem Jón gerði í fyrstu setningunni. En eins og sjá má er Jón löngu á bak og burt.

Er ekki kominn tími til að skipta um frumlag?

Erindi Katz í heild sinni er að finna hér: https://knuz.wordpress.com/…/kynbundid-ofbeldi-er…/

Hér er svo tengill á Kastljósið miðvikudaginn 20. október:

Ritstjórn Knúz.

Ein athugasemd við “Hugleiðing um þrálátt frumlagsflakk

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.