Af meintu karlahatri femínista

Höfundur: Eyja M. Brynjarsdóttir


Þessi karl er bara fasistakarlremba … og þar af leiðandi drasl! 


Velti fyrir mér þegar ég les þetta að kannski sé ástæða þess að réttindum karla sé ekki gert hærra undir höfði í heiminum sé vegna skrifa eins og þinna … hvaða heilbrigða manneskja á að taka mark á þér og þínum málstað?

Mér finnst nú bara fyrir neðan allar hellur að maður eins og Jón skuli vera að nota þetta eins og eitthvað til að bæta sitt „brotna“ egó eins og það hlýtur að vera.

Viðbjóður þessi Jón.

Rökhugsun og skynsemi er svo eitthvað sem einkennir ekki karla … það vita það allir.

Bara þessi skoðun þín gerir það að verkum að karlfyrirlitning Gunnu á rétt á sér.

Þessi þarf nú að láta sýna sér píku sig eins og Gunna sagði svo skemmtilega 2007!

Hvernig væri að hvíla á sér kjaftinn, maður?

Gæti ekki bara verið skynsamlegast fyrir þig að sitja hjá og hætta að leyfa tilfinningum þínum að stjórna þér hvað varðar samskipti þín út á við hvað varðar þessa konu … jaríjarí.

Djöfull ertu geðveikur, maður.

Snargeðveiki bitri kall!

Athugasemdirnar hér að ofan eru allar komnar frá annáluðum femínistum. Þær eru glöggt dæmi um þá karlfyrirlitningu, eða jafnvel karlahatur, sem femínismi felur gjarnan í sér. Það er ekki skrýtið að fólk hafi áhyggjur af karlfyrirlitningu femínista og full ástæða er fyrir femínistahreyfinguna að reyna að stemma stigu við þessu. Við megum ekki gleyma því sem karlmenn þurfa iðulega að þola frá hendi femínista. Hver hefur ekki þekkt karlmann sem fær lægri laun en kona í sams konar starfi? Skýringin: Yfirmaðurinn er femínisti. Og þetta er bara toppurinn á ísjakanum. Verst er auðvitað að heyra af ofbeldinu. Fréttir af karlmönnum sem verða fyrir líkamsárásum af hálfu femínista eru daglegt brauð. Jafnvel heyrist af femínistum sem hafa farið saman í hópum og nauðgað karlmönnum. Og ungir piltar eru seldir í þrældóm af glæpahringjum sem stjórnað er af femínistum. Eins og staðan er þá er hver einasti karlmaður logandi hræddur við að vera einn á ferli utandyra eftir að skyggja tekur, af ótta við femínista. Af þessum sökum er það alvarlegt mál þegar femínistar hafa í frammi karlahatur sitt; þegar femínisti segir eitthvað slæmt um karlmenn felst í því hótun.

Ekki það? Æ, úpps, ég ruglaðist.

Þetta var víst ekki svona. Athugasemdirnar í byrjun voru breyttar útgáfur af athugasemdum sem var beint til konu, sem reyndar er femínisti, í athugasemdum á blogginu hennar og í einkapósti í framhaldi af bloggfærslu. Það er svo sem ekki ætlunin að ræða bloggfærslur og athugasemdir við þeim sérstaklega. Það hefur hins vegar vakið athygli mína hvað sumt fólk virðist hafa miklar áhyggjur af karlfyrirlitningu femínista. Maður sér fólk fara að æsa sig yfir því að femínistar fari offari, þetta sé einhver brjáluð öfgahreyfing og iðulega heyrist að femínistar hati karlmenn. Því til stuðnings eru einhver ummæli einhvers femínistans tekin og túlkuð á versta mögulega veg, stundum með alls konar langsóttum teygjum og hlutir teknir úr samhengi. Meint karlahatursummæli femínista hafa stundum vakið mikla reiði. Það er svo sem full ástæða til að vera á varðbergi, Valerie Solanas skaut jú Andy Warhol og hún var femínisti. Að vísu eru 43 ár síðan en allur er varinn góður!

SORI

Fyrst ég er farin að tala um Solanas (1936-1988) er kannski rétt að segja aðeins meira um hana. Árið 1967 skrifaði hún bókina SCUM Manifesto, sem kom út í hittifyrra í íslenskri þýðingu Kristínar Svövu Tómasdóttur undir heitinu SORI: Manifestó. Bókin hefst á eftirfarandi orðum:

Þar sem lífið í þessu samfélagi er í besta falli tóm leiðindi og engin hlið samfélagsins kemur konum nokkuð við er það á ábyrgð borgaralega meðvitaðra, ábyrgra, ævintýragjarnra kvenna einna að steypa stjórninni af stóli, útrýma peningakerfinu, koma á fullkominni sjálfvirkni og eyða karlkyninu (bls. 1).

Bókin er öll í þessum dúr; Solanas heldur því fram að karlmenn séu líffræðilegt slys og að þeir séu haldnir öfund gagnvart konum og að meira og minna öll vandamál heimsins megi rekja til þeirra. Um ári eftir að Solanas skrifaði SORA skaut hún og særði Andy Warhol lífshættulega. Í framhaldinu var hún fangelsuð og greind með geðklofa.

Solanas virðist gjarnan tekin sem dæmi um karlahatandi femínista, bæði vegna SORA og vegna árásar hennar á Warhol, en ýmislegt er þó óljóst í þeim efnum. Vissulega liggur það fyrir að Solanas var engan veginn hlýtt til karlmanna en það hefur ekki verið almennilega ljóst hvernig hún hefur ætlast til að SORA-manifestóið væri túlkað. Til að byrja með sagði hún að sér væri fúlasta alvara með því en síðar hélt hún því fram að þetta hefði verið satíra. Svo mikið er víst að þeir sem hafa hampað SORA-manifestóinu hafa litið á það sem satíru í anda Jonathans Swift (Swift var þessi sem lagði til á 18. öldinni að fátæk írsk börn yrðu notuð sem fæða handa ríka fólkinu) eða paródíu á hugmyndir Freuds um konur sem einhvers konar gallaða karlmenn, fullar af reðuröfund. Þeir sem hafa tekið SORA bókstaflega (og vissulega hafa sumir gert það) hafa hins vegar tæpast sýnt mikla aðdáun á verkinu, enda hefur aldrei verið neinn hljómgrunnur meðal femínista fyrir ofbeldisverkum gagnvart körlum. Og sumir, m.a. sumir íslenskir bloggarar, hafa litið á dálæti sumra femínista á SORA sem merki um karlahatur femínistahreyfingarinnar. Hvernig geta femínistar sem setja sig t.d. upp á móti nauðgunarbröndurum eða öðrum niðrandi bröndurum um konur fílað SORA sem róttækt og áhugavert verk og þóst vera samkvæmir sjálfum sér?

SORI eða nauðgunarbrandarar

Svarið er að þegar fyndni og írónía eru annars vegar þá skiptir samhengi máli, sem það gerir reyndar í sambandi við alla merkingu. Þegar karlar grínast með nauðganir eru þeir sem meiri völd hafa í samfélaginu að gera að gamni sínu á kostnað þeirra sem hafa minni völd. Jafnframt eru nauðganir karla á konum (já, ég veit að það kynjamynstur er ekki einhlítt, en það er svo sannarlega langalgengast þar sem nauðganir eru annars vegar) blákaldur veruleiki sem hver einasta kona er meðvituð um hættuna á mestallt líf sitt. Nauðgunarbrandari er áminning um þennan veruleika, þessa hættu, og nokkuð sem að minnsta kosti margar konur upplifa sem einhvers konar hótun. Þar fyrir utan verður ekki séð að nauðgunarbrandarar feli í sér einhverja samfélagsádeilu heldur virðast þeir einmitt ganga út á að viðhalda ríkjandi valdakerfi.

Verk á borð við SORA eru allt annars eðlis. Sé verkið túlkað bókstaflega er mjög augljóslega um að ræða rugl úr snarbilaðri manneskju sem engin heilvita manneskja tæki mark á. Það sem væri helst áhugavert við verkið út frá þeirri túlkun væri að velta fyrir sér ástandi og bakgrunni höfundar, þótt ýmis sannleikskorn mætti reyndar finna inn á milli í greiningum á ýmsum þjóðfélagsmeinum ef horft er fram hjá alhæfingum um kyn og/eða gengið út frá að verið sé að tala um einhvers konar afbökuð kynhlutverk. Ég geri þó frekar ráð fyrir að verkið sé hugsað sem satíra, enda ber það flest merki þess. Sem slíkt er það ögrun við hugmyndir sem hafa verið ríkjandi um konur sem einhvers konar ófullkomna karlmenn, frávik frá norminu, og felur í sér ádeilu á ríkjandi valdakerfi. Talað er um útrýmingu karlmanna og það hve ófullkomnir og ómögulegir karlmenn eru en það kallast ekki á við neinn raunveruleika; karlmenn hafa ekki átt því að venjast að búa við kröpp kjör og niðurlægingu vegna einhverra ætlaðra slæmra eiginleika sem raktir eru til kyns þeirra og enn síður hafa þeir þurft að búa við einhverja ofbeldisógn af hálfu kvenna. Fyrir vikið er það sem sagt er um þá í SORA fjarstæðukennt og enginn með réttu ráði færi að taka það alvarlega eða trúanlegt. Á hinn bóginn eru nauðgunarbrandarar því miður langt frá því að vera fjarstæðukenndir, þeir vísa beint í veruleika sem margar konur hafa fengið að kynnast með áþreifanlegum hætti.

Þöggunartilburðir

Ef við skoðum málflutning femínista er SORI undantekning, yfirleitt eru femínistar bara ekkert í því að alhæfa um karlmenn (og þeir sem vilja halda öðru fram eru vinsamlegast beðnir um að koma með dæmi máli sínu til stuðnings). Þar að auki er ég fullviss um það að hvert einasta okkar hefur heyrt (eða lesið) verri hluti sagða um konur en Solanas segir um karlmenn og mun ógeðslegri lýsingar á ofbeldi gegn konum, og það margoft. Ég held að við séum bara orðin svo vön því að við tökum ekki almennilega eftir því. Svo virðist sem femínisti megi ekki opna munninn án þess að fólk rjúki upp til handa og fóta yfir karlahatrinu og eru ummæli þá oft tekin úr samhengi og jafnvel aukið við og skáldað til að gera þetta meira krassandi. Sama fólk og nær ekki upp í nef sér yfir karlahatri femínista segir svo kannski ekki múkk þegar karlar láta margfalt ljótari ummæli falla um konur, enda meina þeir sjálfsagt ekkert illt með þeim, eru bara að grínast eða fóru kannski pínulítið fram úr sér. Það er náttúrlega sárasaklaust þegar karlmaður sem er ósáttur við bloggfærslu konu segir „þessi þarf nú bara að láta tittlinga sig“. Hins vegar stafar okkur mikil ógn af femínismanum og því hvernig hann er kominn út í öfgar og farinn úr böndunum …

Bara svo þið vitið það: Þangað til ég fer að heyra fréttir af ofbeldisverkum femínista gegn körlum eða karlar fara að upplifa þöggun vegna hótana af hálfu femínista eða karlar fara að fá lægri laun en konur frá femínískum vinnuveitendum eða karlar eru niðurlægðir af femínistum á ýmsa lund í starfi og leik ætla ég ekki að hafa nokkrar áhyggjur af meintu karlahatri femínista. Ég mun líta svo á að það sé enn ein mýtan sem notuð er til að reyna að þagga niður í okkur og það þarf meira en þetta til að fá mig til að þegja.

Umfjöllun um SORA: 

Manifest er et ekstremt feministisk hovedværk eftir Sjón

SORI: Manifestó á Andspyrnu
Valerie Solanas og SORI eftir Önnu Dröfn Ágústsdóttur

Færðu inn athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.