Drusluder og gleðiganga

Höfundur: Bergrún Andradóttir

Fyrr í sumar sótti ég málstofu hjá Háskólanum á Bifröst, „Hverju skila brjóstabyltingar?“. Viðfangsefnið var ‪#‎FreeTheNipple. Umræðurnar voru líflegar og margir gátu tjáð sig. Það kom margt gott fram en ein umæli eru mér sérstaklega minnisverð. Einn karlmaður í hópnum sagði að kvennabarátta mætti vera líkari baráttu hinseginsamfélagsins. Hann talaði um hvað sú barátta hefði verið glaðleg, eða eitthvað í þá áttina. Gleðigangan, þið vitið. Ná ekki allir tengingunni?
Þetta var ekki í fyrsta skipti sem ég heyri eitthvað svona. Reyndar hefur fólk verið að segja mér hvernig ég eigi að berjast fyrir mínum réttindum í langan tíma. Og það fer ekkert að breytast. Þessi ummæli eru líka bjöguð sýn á baráttu hinseginfólks og ég gæti talað lengi um stereótýpur og þöggun í garð hinseginfólks. En það á ekki heima hér.

Drusla með varalit.

Drusla með varalit.

Mér duttu fyrrnefndu ummæli þessa manns í hug í dag þegar ég rölti í átt að JÖR til þess að festa kaup á Druslugöngu-derhúfu. Varningurinn í kringum Druslugönguna í ár er nefnilega frekar skemmtilegur, en hann er samt sem áður ekki að setja upp neitt gervi-bros. Einlægur. Enda málefnið ekkert grín.
Slagorð eins og „Ég mun ekki þegja“ og „Ég stend með þér“ að áðurnefndri derhúfu þar sem orðið DRUSLA birtist framan á fagurrauðu hjarta. (Þessi viðsnúningur á orðinu drusla er keimlíkur því sem fékkst fram með orðinu queer – svo vísað sé í baráttu hinseginfólks.) Fyrr í dag las ég einnig pistil á menn.is sem fékk mig til þess að langa að skrifa svar. Í honum birtist það viðhorf að femínistum sé sama um þá karlmenn sem eru þolendur heimilis- og eða kynferðisofbeldis. Þetta er viðhorf sem margir hafa. Að femínistum sé sama um karlmenn. Ég man sérstaklega eftir grein þar sem rætt var við prófessor við HÍ þar sem hann sagði femínista/konur ekki veita sjálfsvígum ungra karla næga athygli. Þessi frétt birtist snemma árs 2013 og því gæti prófessorinn hafa skipt um skoðun, sem væri ágætt vegna þess að: Þessi staðhæfing gengur einfaldlega ekki upp.

Femínistar eru (fyrir mér) eini hópurinn, áberandi í íslensku samfélagi í dag, sem berst gegn því kerfi sem veldur því að ungir karlmenn sjá sér einan kost í því að taka sitt eigið líf. Sem berst gegn því kerfi sem viðheldur þöggun á málefnum karla, sér í lagi þeirra sem eru þolendur kynferðis- eða heimilisofbeldis.
Þegar ég hugsa um þessa stöðu, umræðuna í samfélaginu okkar í dag, þá verð ég snarvitlaus. Bandbrjáluð. Þess vegna ætla ég í Druslugönguna á laugardaginn. Af því við erum ennþá að berjast.Takmarkið er betri heimur, fyrir alla.
Ekki segja mér að vera glaðari í baráttunni fyrir bættu lífi. Komdu frekar og vertu með! Komdu með þín sjónarhorn og hlustaðu á aðra. Við erum ekki í keppni um hver hefur það verst. Við viljum að allir hafi það eins gott og mögulegt er. Væri það ekki næs?

Druslugangan. Á laugardaginn. Sjáumst þar!

Myndir fengnar héðan og héðan.

Færðu inn athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.