Viðhorf Viðreisnar til vændis/kynlífsvinnu -XC

Knúzið spurði:

1. Samkvæmt núgildandi lögum (sem byggja á „sænsku leiðinni“) er sala á vændi refsilaus en kaup á vændi ólögleg og refsiverð. Teljið þið rétt að halda þessari stefnu til streitu? Ef ekki, með hvaða hætti teljið þið að eigi að breyta henni og hvers vegna?

Við teljum ekki rétt að halda þessari stefnu til streitu. Eins og kemur fram í stefnunni okkar þá teljum við þessa refsistefnu úrelta og skaðlega fyrir þann hóp sem stundar kynlífsvinnu. Það er eðlilega erfitt að hugsa sér stefnu þar sem ekki er refsivert að kaupa sér aðgang að líkama annarrar manneskju, en sama hvort maður sé sammála því eða ekki, þá hljótum við öll að vilja tryggja öryggi einstaklinganna sem eru í aðstæðunum hverju sinni.

Eins og í öllu öðru sem Viðreisn setur sér stefnu í, þá trúum við staðfastlega á mottóið „ekkert um okkur án okkar“ og á meðan þau sem eru málsvarar hópsins óska eftir breytingu á löggjöf þá er það eitthvað sem við hljótum að hlusta á.

Meðan að kaup eru ólögleg þá ýtir það undir að kaupendur leiti til mjög jaðarsettra einstaklinga sem eru ólíklegri til að leita réttar síns ef á þeim er brotið. Kaup og sala á kynlífi er að eiga sér stað og við getum ekki lokað augunum fyrir því, sama hver skoðun okkar er á málinu.

Við erum samt að tala hér um tvo ólíka hópa. Fólk sem verður fyrir ofbeldi og þvingunum og aðrir. Við getum ekki sagt fólki að það sé að verða fyrir ofbeldi sem upplifir veruleika sinn ekki þannig.

2. Að því gefnu að núgildandi lagarammi haldist óbreyttur, með hvaða hætti væri hægt að auka vernd og öryggi þeirra sem stunda vændi og auka stuðning við þau sem vilja komast úr vændi (félagslegan, sálrænan og fjárhagslegan)?

Einstaklingar sem eru í þessum aðstæðum eru oft einstaklingar sem hafa mikla og flókna áfallasögu. Viðreisn vill byrgja brunninn áður en einstaklingar finna sig á þessum stað. Þar kemur sterkt velferðarkerfi til sögunnar og betra aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu. Einfaldara og einstaklingsmiðaðra kerfi er öllum til hagsbóta þar. Við þurfum að stytta biðlista inn á meðferðarstofnanir og auka stuðning við einstaklinga þegar þau ljúka meðferð. Skortur er á langtímaúrræðum og teljum við að það sé stór ástæða þess að einstaklingar ná ekki markmiðum sínum eftir að meðferð líkur.

Við stöndum fast á því að með afglæpavæðingu á vímuefnum séum við að tryggja minni jaðarsetningu einstaklinga og þar af leiðandi geta þau frekar nýtt sér þau úrræði sem eru nú þegar í boði. Með afglæpavæðingu hættum við að beita fólk í erfiðum aðstæðum refsingum sem jaðarsetja þau enn frekar. Heildstæð skaðaminnkandi nálgun gagnvart fólki, hvort sem það kemur að kynlífsvinnu eða neyslu vímuefna, eykur aðgengi fólks að nauðsynlegri þjónustu.

Í stefnunni okkar tökum við bæði tillit til einstaklinga sem eru þolendur vændis og þau sem stunda kynlífsvinnu og vilja breyta lagarammanum.

3. Teljið þið rétt að nota hugtakið „kynlífsvinna“ í stað hugtaksins „vændi“?

Við teljum rétt að hlusta á fólkið sem er sjálft í aðstæðunum. Meðan að þau vilja nota orðið kynlífsvinna þá gerum við það. Við höfum breytt orðnotkun í gegnum tíðina þegar að viðkomandi hópar kalla eftir því, hér er staðan ekki öðruvísi að því leyti.

Hins vegar er raunveruleikinn sá að það eru mjög mörg sem eru þolendur og kjósa að nota orðið vændi og því er mikilvægt að aðskilja þessa tvo hópa. Alveg eins og við gerum varðandi mansal. Þrátt fyrir að fólk sé verkafólk þýðir ekki að þau séu mansalsþolendur og fólk sem stundar kynlífsvinnu er ekki endilega þolendur; þrátt fyrir að skilin þarna á milli séu auðvitað flókin.

4. Teljið þið að vændi eigi að vera sýnilegt og löglegt? Ef ekki, hvers vegna ekki?

Við teljum að það eigi ekki að vera sýnilegt. Hlutir geta verið löglegir án þess að þeim sé sérstaklega gert undir höfði. Við erum hlynnt skaðaminnkuninni sem felst í lögleiðingu kynlífsvinnu en við erum alls ekki á þeirri línu að fylgja þeim löndum sem þetta verður hluti af túristaiðnaði. Alveg eins og með klám þá er það þannig að við þurfum að leggja áherslu á fræðslu og forvarnir þannig að við gefum einstaklingum verkfæri til að átta sig á mörkum, heilbrigðum og óheilbrigðum samskiptum og tækifæri til að gera greinarmun þar á milli.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.