Viðhorf Samfylkingarinnar til vændis/kynlífsvinnu -XS

    1. Samkvæmt núgildandi lögum (sem byggja á „sænsku leiðinni“) er sala á vændi refsilaus en kaup á vændi ólögleg og refsiverð. Teljið þið rétt að halda þessari stefnu til streitu? Ef ekki, með hvaða hætti teljið þið að eigi að breyta henni og hvers vegna?

Samfylkingin vil skaðaminnkandi nálgun í vændismálum þar sem það er ekki refsivert að selja vændi en hinsvegar sé refsivert að kaupa vændi. Þetta er mikilvægt til að sporna við eftirspurn eftir vændi og normaliseringu á því að kaupa aðgang að líkama annarrar manneskju sem oftar en ekki eru í vændi af neyð eða jafnvel nauðung.  

Vændi veldur meirihluta fólks sem leiðist út í það miklum og varanlegum skaða og hagsmunir þeirra fáu sem sjálfir velja að stunda vændi geta einfaldlega ekki talist vega þar upp á móti. Auk þess veitir sænska leiðin fólki í vændi örlitla yfirhönd í samskiptum við kaupendur þar sem brotið er alltaf kaupanda en seljandi vændis er í fullum rétti. Hins vegar er það Alþingis að tryggja lögreglunni næga fjármuni til að lögreglan geti unnið betur við eftirlit með kaupendum vændis og ákæra þá, því til að sænska leiðin virki betur, þarf fjármuni til eftirlits en líka uppfræðslu innan lögreglunnar og dómskerfis.

    2. Að því gefnu að núgildandi lagarammi haldist óbreyttur, með hvaða hætti væri hægt að auka vernd og öryggi þeirra sem stunda vændi og auka stuðning við þau sem vilja komast úr vændi (félagslegan, sálrænan og fjárhagslegan)?

Það er mikilvægt að hafa alltaf mannréttindi í öndvegi í allri þjónustu við fólk sem er í vændi, félagsþjónustu, heilsugæslu, réttarvörslukerfi og alls staðar.  Mikilvægt er að þróa enn frekar leiðir fyrir fólk í vændi til að losna úr þeim aðstæðum. Þar þarf að bjóðast einstaklingsmiðaður langtíma stuðningur, vernd og fjárhagsaðstoð.  Það þarf einnig aukna fræðslu í samfélaginu um vændi og ástæður þess að fólk leiðist út í vændi og skaðlegar afleiðingar þess. 

    3. Teljið þið rétt að nota hugtakið „kynlífsvinna“ í stað hugtaksins „vændi“?

Vændi er það orð sem fólk í vændi hefur notað og við höfum gert það líka.  

Færðu inn athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.