Viðhorf Pírata til vændis/kynlífsvinnu -XP

Eitt þeirra málefna sem talsverð umræða hefur verið um meðal femínista er lagaramminn í kringum
vændi og það hvort „sænska leiðin“, eins og hún er kölluð, sé rétta leiðin. Skoðanir eru skiptar eins og
vænta má en löggjafarþingið ræður för og þau sem þangað eru kosin. Því er varpað fram fjórum
spurningum til stjórnmálaflokkanna og óska eftir afstöðu þeirra til eftirfarandi:

Almenn athugasemd:

Píratar hafa ekki sérstaka stefnu um vændi/kynlífsvinnu. Að því sögðu hefur Femínistafélag Pírata bæði ályktað og talað opinberlega um galla sænsku leiðarinnar sem komið hafa í ljós eftir tæplega 20 ára reynslu af leiðinni. Eftirfarandi er afstaða frambjóðenda Pírata:

Samkvæmt núgildandi lögum (sem byggja á „sænsku leiðinni“) er sala á vændi refsilaus en
kaup á vændi ólögleg og refsiverð. Teljið þið rétt að halda þessari stefnu til streitu? Ef ekki,
með hvaða hætti teljið þið að eigi að breyta henni og hvers vegna?


Píratar viðurkenna að sænsku leiðinni fylgja vandamál. Meðal annars: 
 hafa seljendur hagsmuni af því að kaupendur þeirra náist ekki og hylma því yfir með þeim.
Það getur verið brot í sjálfu sér, sem setur seljendur í stöðu brotamanns. 
 hefur bann við kaupum síður fælandi áhrif á ofbeldishneigða kaupendur en aðra og hefur
þannig neikvæð áhrif á aðstæður og öryggi seljenda. 
 beinist eftirlit lögreglu oft að seljendum, til þess að hafa uppi á hugsanlegum kaupendum, sem
ýtir starfseminni lengra inn í skuggann og ógnar með því öryggi seljenda. 
 geta viðurlög við því að hafa milligöngu um vændi/kynlífsvinnu ógnað öryggi seljenda. Dæmi
um þetta er þegar leigusölum fólks sem stundar vændi/kynlífsvinnu er refsað eða hótað
refsingum með þeim afleiðingum að seljendur vændis/kynlífsvinnu hafa síður öruggt húsnæði
og missa jafnvel heimili sitt.  
Píratar telja mikilvægt að viðurkenna þessi vandamál og leita lausna á þeim í samstarfi við aðila sem
berjast fyrir hagsmunum fólks sem selur vændi/kynlífsvinnu, hjálparsamtök og aðra aðila sem láta sig
málefnið varða. Tryggja þarf seljendum: 
 1. Mannréttindi til jafns við alla aðra
 2. Lagaumhverfi sem setur seljendur ekki í hættu
 3. Þjónustu og vernd af hálfu lögreglu án þess að óttast misnotkun eða áreitni
 4. Aðgengi að heilbrigðiskerfinu án skammar
 5. Sjálfsákvörðunarrétt án kúgunar
 6. Að ofbeldi gegn fólki í kynlífsvinnu sé útrýmt

Að því gefnu að núgildandi lagarammi haldist óbreyttur, með hvaða hætti væri hægt að auka
vernd og öryggi þeirra sem stunda vændi og auka stuðning við þau sem vilja komast úr vændi
(félagslegan, sálrænan og fjárhagslegan)?


Burtséð frá óbreyttri löggjöf er nauðsynlegt að ráðast í aðgerðir til þess að tryggja öryggi fólks sem
stundar vændi/kynlífsvinnu og skapa raunverulega möguleika þess á því að komast út úr því. Tryggja
þarf að verklag lögreglu við rannsókn og saksókn brota samkvæmt núgildandi lögum sé með fullri
meðvitund og virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétti, öryggi og velferð seljenda. Efla þarf starfsemi
samtaka sem sinna sálrænni aðstoð, fræðslu og öðrum stuðningi við seljendur, bæði við einstaklinga
sem enn selja vændi/kynlífsvinnu, hvort sem er að eigin vilja eða í neyð, og þá sem hafa komist út úr
því. Tryggja þarf aðgengi seljenda að heilbrigðiskerfinu, þar með talið geðheilbrigðiskerfinu, og að það
aðgengi sé laust við fordóma og þvinganir.


Fátækt
Án fátæktar mun enginn neyðast út í vændi/kynlífsvinnu vegna bágrar fjárhagslegrar stöðu. Koma þarf í veg fyrir samfélagslega jaðarsetningu einstaklinga sem stunda vændi/kynlífsvinnu og tryggja
þvingunarlausa aðstoð við þau á þeirra forsendum. Tryggja þarf nægilega góð fjárhagsleg úrræði og
fordómalaust aðgengi að þeim.


Mansal
Veita þarf þolendum mansals raunhæfan kost á að dvelja áfram á Íslandi og bjóða þeim stuðning og
aðstoð til lengri tíma. Breyta þarf lögum um útlendinga þannig að dvalarleyfi handa (hugsanlegu)
fórnarlambi mansals megi veita á grundvelli hagsmuna þolenda mansals, en ekki eingöngu á
grundvelli rannsóknarhagsmuna eða í neyð. 


Tvíþættur geð- og fíknivandi
Þörf er á þverfaglegum úrræðum fyrir seljendur þar sem kynlífsvinna getur verið síðasta úrræði
einstaklinga með geð- og/eða fíknivanda, til að fjármagna ekki bara neyslu heldur einnig grunnþarfir á
borð við húsnæði og framfærslu.

Teljið þið rétt að nota hugtakið „kynlífsvinna“ í stað hugtaksins „vændi“?


Við teljum að fólk eigi réttinn til að skilgreina sig sjálft og Píratar hafa einkunnarorðin “ekkert um okkur
án okkar” að leiðarljósi í allri stefnumótun. Innan frambjóðendahóps Pírata er fólk sem notar orðið
kynlífsvinna og líka fólk sem notar orðið vændi. Ýmsir innan Pírata nota hugtakið kynlífsvinna til þess
að lýsa stærra mengi athafna en vændi (eins og símaþjónustu ofl.) og nota því bæði hugtökin. Mestu
skiptir fyrir Pírata að öll stefnumótun og aðgerðir séu með hagsmuni, öryggi og velferð þeirra sem
starfa í vændi/kynlífsvinnu að leiðarljósi. 

Teljið þið að vændi eigi að vera sýnilegt og löglegt? Ef ekki, hvers vegna ekki?“


Píratar hafa ekki formlega samþykkta stefnu í málaflokknum að svo stöddu, einungis ályktanir og starf
sem Femínistafélag Pírata hefur komið að síðustu árin. Píratar hafa þó frá upphafi og ávallt talað
sérstaklega fyrir sjálfsákvörðunarrétti einstaklingsins og öryggi þeirra sem starfa í vændi/kynlífsvinnu.
Lágmarkskrafa okkar er sú að löggjöf á Íslandi auki aldrei á neyð seljenda.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.