Stefna flokka varðandi vændi/kynlífsvinnu -Svar frá VG

Eitt þeirra málefna sem talsverð umræða hefur verið um meðal femínista er lagaramminn í kringum vændi og það hvort „sænska leiðin“, eins og hún er kölluð, sé rétta leiðin. Skoðanir eru skiptar eins og vænta má en löggjafarþingið ræður för og þau sem þangað eru kosin. Því er varpað fram fjórum spurningum til stjórnmálaflokkanna og óskað eftir afstöðu þeirra til eftirfarandi:

1. Samkvæmt núgildandi lögum (sem byggja á „sænsku leiðinni“) er sala á vændi refsilaus en kaup á vændi ólögleg og refsiverð. Teljið þið rétt að halda þessari stefnu til streitu? Ef ekki, með hvaða hætti teljið þið að eigi að breyta henni og hvers vegna?

Svar 1: Stefna VG í vændismálum er skýr. Sænska leiðin hefur veitt vændisfólki aukna vernd og henni ber að halda áfram. Mikilvægt er að styðja við fólk til að losna úr vændi, auka og efla fræðslu um vændi og áhrif þess á þau sem það stunda og samfélagið allt, með áherslu á mótspyrnu gegn menningaráherslum sem fegra vændi og draga úr alvarleika þess. Einnig er mikilvægt að rannsaka hvað leiðir fólk út í vændi og hvernig er best að koma til móts við þau sem feta þessa braut.

2. Að því gefnu að núgildandi lagarammi haldist óbreyttur, með hvaða hætti væri hægt að auka vernd og öryggi þeirra sem stunda vændi og auka stuðning við þau sem vilja komast úr vændi (félagslegan, sálrænan og fjárhagslegan)?

Svar 2: VG vill efla úrræði sem standa vændisfólki til boða, bæði til að aðstoða þau sem vilja hætta í vændi en líka auka stuðning við þau sem sjá sér ekki fært að hætta. Efla ber aðgang að löggæslu og heilsugæslu fyrir þennan hóp með sérhæfðum fulltrúum og má til dæmis nefna Kvennaheilsugæsluna í því sambandi, skapa og styðja endurhæfingarúrræði fyrir fólk sem hefur verið í vændi og bjóða þessum hópi upp á sérhæfða áfallameðferð því rannsóknir hafa sýnt að þörf er fyrir slík úrræði. Þá væri líka ákjósanlegt að styðja við jafningjafræðslu í þessu sambandi og styrkja grundvöll fyrir hópastarf þar sem einstaklingar sem hafa verið í vændi styðja hver annan og fólk með svipaðan bakgrunn getur unnið saman úr reynslu sinni.

Þá þarf ekki síst að efla félagslega kerfið til stuðnings einstæðum mæðrum og konum sem eru í hættu að festast í fátæktargildru.

3. Teljið þið rétt að nota hugtakið „kynlífsvinna“ í stað hugtaksins „vændi“?

Svar 3: Nei það teljum við ekki. Orðið kynlífsvinna felur í sér að kynlíf komi við sögu. Samkvæmt íslenskum lögum getur kynlíf ekki átt sér stað án samþykkis beggja aðila, önnur kynferðismök eru nauðgun. Samþykki getur í eðli sínu ekki byggt á öðru en á fúsum og frjálsum vilja og það er því ekki hægt að greiða með fé eða nokkru öðru fyrir samþykki. Samkvæmt þessari skilgreiningu er vændi ein birtingarmynd af kynferðisofbeldi og á því ekkert skylt við kynlíf milli tveggja eða fleiri samþykkra aðila.

4. Teljið þið að vændi eigi að vera sýnilegt og löglegt? Ef ekki, hvers vegna ekki?“

Svar 4: Nei það teljum við ekki. Reynslan frá löndum þar sem vændiskaup eru leyfð og vændi er sýnilegt sýnir að sýnileikinn dregur hvorki úr fylgifiskum vændis eins og ofbeldi né mansali nema síður sé. Lög gegn vændiskaupum virðast hafa fælingarmátt á þorra kaupenda svo eftirspurn eykst þegar kaup eru lögleidd og þeirri eftirspurn er svarað með nauðung og mansali. Í víðara samhengi má svo nefna skaðleg áhrif þess á samfélagið að smætta fólk niður í kynferðislega neysluvöru þar sem slíkt viðheldur staðalmyndum um kynin og hlutgervingu (þá einkum kvenna.

Ein athugasemd við “Stefna flokka varðandi vændi/kynlífsvinnu -Svar frá VG

  1. Það er semsagt ekkert common sens í þessum svörum VG. Hvernig mögulega hefur „sænska leiðin“ veitt vændisfólki aukna vernd? Það er ekki hægt að draga úr framboði eða eftirspurn í þessum málum, þannig að það þarf að vinna með. Að gera þetta ólöglegt dregur þetta eingöngu neðanjarðar og hvernig fáið þið það út að það auki öryggið? Eru þið í engum tengslum við raunveruleikann? Á svörum ykkar að dæma þá myndi allt meika sens ef þetta væri löglegt. En þegar þið eruð búnar að draga þessa starfsemi neðanjarðar þá virka þessi úrræði ykkar ekki neitt. Löggæsla verður mun flóknari og tímafrekari, ofbeldi og kúgun eykst til muna. Sorry fyrir ykkur kynjafræðinga, en lögleiðing er eina lausnin

Færðu inn athugasemd

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.