Ofbeldishringurinn og birtingarmyndir kynbundins ofbeldis í nánum samböndum

Greinin er byggð á erindi höfundar í Róttæka Sumarháskólanum 22. ágúst sl. Höfundur mun fyrst gera grein fyrir ofbeldishringnum og svo birtingarmyndum kynbundins ofbeldis í nánum samböndum. Efni greinarinnar er samsett úr hluta af meistararitgerð höfundar sem ber heitið Kynbundið ofbeldi í nánum samböndum og þróun íslensks réttar í ljósi femínískra lagakenninga, með Brynhildi G. Flóvenz, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, sem leiðbeinanda.

Höfundur mun nota hugtökin þolandi og gerandi í eftirfarandi grein. Fjöldi rannsókna hefur sýnt, meðal annars rannsókn sem framkvæmd var af Evrópusambandinu um kynbundið ofbeldi (e. Violence against women: an EU-wide survey), að konur eru mikill meirihluti þolenda hvað varðar ofbeldi í nánum samböndum. Þó geta karlar einnig verið þolendur og konur gerendur í slíkum samböndum. Það sama á við um kynsegin einstaklinga, þ.e. einstaklinga sem skilgreina kyn sitt utan tvíhyggju kynjakerfisins.

Kenningin um ofbeldishringinn (e. the Cycle Theory of Violence) er sett fram af sálfræðingnum Lenore E. Walker í bók hennar the Battered Woman árið 1979. Samkvæmt kenningu Walker eru þrjú mismunandi tímaskeið eða ferli í ofbeldi í nánum samböndum sem mynda saman svokallaðan ofbeldishring. Engin ákveðin tímalengd er fyrir hvert ferli, enda fer tímalengd hvers ferlis eftir hverju og einu ofbeldissambandi og atvikum hverju sinni. Það skal tekið fram að langt er um liðið frá því að bók Walker kom út og verulegar breytingar hafa orðið frá þeim tíma. Umfjöllun Walker getur þó að einhverju leyti átt við enn þann dag í dag.

Fyrsta ferlið er svokallað spennuuppbyggingarferli eða ferli þar sem spenna byggist upp yfir mislangan tíma og er undanfari næsta ferlis, þar sem grófara ofbeldi á sér stað. Ferlið einkennist af minniháttar ofbeldi, sem dæmi að gerandi hendi diski fullum af mat í gólfið, því að hann telur að maturinn hafi ekki verið nógu vel eldaður. Fyrsta ferlinu svipar því að einhverju leyti til andlegs ofbeldis og getur þolandinn verið í afneitun um háttsemi geranda og reynt þar með að koma í veg fyrir að annað ferlið hefjist, til dæmis með því að þóknast geranda, sem eru algengustu viðbrögð þolanda samkvæmt kenningu Walker. Til að reyna koma í veg fyrir að næsta ferli hefjist, getur þolandi einnig verið umhyggjusamur (e. nurturing) gagnvart geranda, undirgefinn og/eða látið lítið fyrir sér fara, auk þess að forðast geranda. Að sögn Walker mun þolandinn sem gengið hefur í gegnum ofbeldissamband um einhvern tíma, hafa þá vitneskju, vegna þekkingar sinnar á hegðun geranda í gegnum ofbeldissambandið, að ofbeldið (e. minor battering) geti stigmagnast og næsta ferli ofbeldishringsins tekið við. Því reyni þolandinn allt til að koma í veg fyrir að ferlið stigmagnist.

Í næsta ferli ofbeldishringsins tekur við líkamlegt ofbeldi. Annað ferlið tekur við þegar spennan úr fyrsta ferli hámarkast og einkennist að sögn Walker af losun uppsafnaðrar spennu úr fyrsta ferli og mikillar eyðileggingar af hálfu geranda. Að sögn Walker leita fæstir þolendur til læknis strax eftir ofbeldið, nema um lífshættulega áverka sé að ræða. Í ársskýrslu Kvennaathvarfsins frá árinu 2016, kemur fram að þær konur sem leituðu aðstoðar tóku það flestar fram að þær hafi ekki endilega leitað aðstoðar vegna fyrsta brots eða þess alvarlegasta, heldur hafi þær fengið nóg af ofbeldinu. Meðal annars sagði ein þeirra að „mælirinn hafi einfaldlega verið fullur“.

Þriðja og síðasta ferlið er svokallað eftirsjárferli eða ferli eftirsjár geranda samkvæmt Walker. Þriðja ferlið tekur við eftir líkamlegt ofbeldi geranda í öðru ferlinu. Að mati höfundar er bæði hægt að kalla þetta ferli lognið á eftir og á undan storminum, þar sem þriðja ferlið er undanfari þess að ofbeldishringurinn hefjist að nýju. Einkenni þriðja ferlisins er mikil umhyggja og iðrandi hegðun geranda. Gerandi hefur gert sér grein fyrir að hann hafi gert eitthvað rangt með hegðun sinni. Hann geri þar af leiðandi tilraun til að bæta þolanda upp fyrir hegðun sína. Þegar þarna er komið sögu er algengt að gerandi lofi öllu fögru og að hann muni aldrei aftur brjóta gegn þolanda. Að sögn Walker trúir gerandinn því sjálfur að hann muni ekki beita þolanda ofbeldi aftur og að hann muni framvegis hafa stjórn á skapi sínu. Hann reynir að réttlæta hegðun sína og trúir því að þolandinn hafi lært sína lexíu, ef svo má að orði komast, og að þolandinn muni ekki haga sér aftur á þann hátt sem varð til þess að annað ferlið hófst að mati gerandans. Þar af leiðandi muni gerandinn ekki „freistast“ til að beita þolanda ofbeldi að nýju. Að sögn Walker vill þolandinn trúa því að hann þurfi ekki að þola ofbeldi að nýju og umhyggja og iðrandi hegðun geranda styrkir þá trú þolanda.

Ljóst er að skilningur á ofbeldishringnum er nauðsynlegur til að skilja eðli hins kynbundna ofbeldis í nánum samböndunum, ekki aðeins fyrir réttarvörslukerfið og þá aðila sem koma að brotunum, heldur einnig fyrir almenning. Er það annars vegar til að átta sig á eðli kynbundins ofbeldis í nánum samböndum og hins vegar til að varpa frekara ljósi á og gera grein fyrir endurtekningu ofbeldishringsins og að erfitt sé að brjótast úr honum. Með auknum skilningi á ofbeldissamböndunum og því mynstri sem myndast oft á tíðum innan þeirra, er hægt að auka vitund almennings og uppræta fordóma gagnvart þolendum og gerendum á skilvirkari hátt.

Til að uppræta kynbundið ofbeldi gegn konum í nánum samböndum, þarf fyrst að átta sig á hvers konar ofbeldi um er að ræða. Því þarf að gera grein fyrir þeim tegundum ofbeldis sem fyrirfinnast í nánum samböndum til að varpa ljósi á umfang og einkenni ofbeldisins. Fyrst ber að nefna líkamlegt ofbeldi, sem líklega er sú birtingarmynd sem algengust er í opinberri umræðu. Líkamlegt ofbeldi, líkt og annað ofbeldi, fyrirfinnst í nánum samböndum, til að mynda voru tæplega 60% kvenna sem leituðu til Kvennaathvarfsins árið 2016 vegna líkamlegs ofbeldis. En hvað telst vera líkamlegt ofbeldi? Líkamlegt ofbeldi á sér stað þegar „líkamlegu afli er beitt gegn öðrum einstaklingi“, en skaði þarf ekki að hljótast af til að háttsemin falli undir hugtaksskilgreiningu líkamlegs ofbeldis. Dæmi um líkamlegt ofbeldi í nánum samböndum er til að mynda þegar þolandi er kýldur, bitinn, klóraður, rassskelltur, bundinn og/eða sleginn með flötum lófa.

Önnur birtingarmynd kynbundins ofbeldis í nánum samböndum nefnist andlegt ofbeldi. Andlegt ofbeldi er oft á tíðum falið og erfiðara að gera grein fyrir í samanburði við líkamlegt ofbeldi, sérstaklega með tilliti til þess að enga líkamlega áverka er að finna þegar andlegu ofbeldi er beitt. Í aðsendri nafnlausri grein á fréttamiðlinum Pressunni, sem ber heitið: Guðrún: „Sterkasta vopnið sem gerandi í ofbeldissambandi hefur er sjálfsálit fórnalambsins“, kemur fram að andlega ofbeldið komi yfirleitt fram á undan því líkamlega. Um sé að ræða lúmskar niðurlægingar sem erfitt sé að gera grein fyrir og allt í einu vaknar þolandi upp við það að vera skuggi af manneskju með lítið sem ekkert sjálfsálit. Í samræmi við umrædda grein getur andlegt ofbeldi haft dýpri áhrif á þolanda í samanburði við líkamlegt ofbeldi, þrátt fyrir að sjáanlegir áverkar séu ekki til staðar, því andlegt ofbeldi skilur eftir sálræna áverka sem þolandi þarf síðar að vinna úr. Í umfangsmikilli rannsókn Evrópusambandsins á kynbundu ofbeldi frá árinu 2014, sem tók til 42.000 kvenna í öllum 28 aðildarríkjum Evrópusambandsins, er andlegu ofbeldi skipt í fjóra flokka. Í fyrsta lagi er það stjórnandi hegðun (e. controlling behaviour), til að mynda að gerandi einangri þolanda frá vinum og fjölskyldu og/eða ættingjum, krefjist þess að vita hvar þolandi sé öllum stundum, gerandi verði reiður ef þolandi ræðir við aðra karla (eða konur) ásamt því að ásaka þolanda um framhjáhald. Í öðru lagi fjárhagslegt ofbeldi (e. economic violence), Sem dæmi um fjárhagslegt ofbeldi mætti nefna að gerandi komi í veg fyrir að þolandi afli sér tekna, skrái skuldir á þolanda, taki launin af þolanda, ráðstafi launum þolanda án samþykkis þolanda, eyðileggi persónulega muni þolanda og/eða komi í veg fyrir starfsframa og/eða nám þolanda. Í þriðja lagi vanvirðandi hegðun (e. abusive behaviour), sem dæmi að niðurlægja eða móðga þolanda, bæði innan og utan veggja heimilisins, hindra útgöngu þolanda, læsa þolanda inni í lokuðu rými, neyða þolanda til að horfa á klámfengið efni gegn vilja hans, hræða og ógna þolanda og hóta þolanda sjálfum eða þriðja aðila sem þolandi ber væntumþykju til. Í fjórða lagi að gerandi noti börn sem tæki til kúgunar, vanræki eða beiti börn ofbeldi (e. blackmail with/abuse children). Einnig getur gerandi haft í hótunum við þolanda þess efnis að taka börn af þolanda eða hóta beitingu ofbeldis gegn börnum. Í ársskýrslu Kvennaathvarfsins frá 2016 kemur fram að ástæða komu yfir 90% kvenna sem leituðu aðstoðar var meðal annars andlegt ofbeldi.

Því næst verður litið til kynferðisofbeldis í nánum samböndum. Sú mýta virðist enn að mati höfundar lifa góðu lífi að kynlíf með maka sé sjálfsagður réttur karla, en hugtakið mýta er oft á tíðum notað um eins konar goðsögn sem er útbreidd skoðun eða hugmynd sem oft er lítil eða engin fótfesta fyrir. Þegar litið er til rannsóknar Evrópusambandsins á kynbundnu ofbeldi frá árinu 2014, er kynferðisofbeldi skilgreint meðal annars sem samræði án samþykkis, tilraun til samræðis gegn vilja þolanda, hvers konar kynferðisathafnir án samþykkis þolanda eða í þvinguðum aðstæðum og að lokum hvers konar kynferðislegar athafnir sem þolandi samþykkir vegna ótta við viðbrögð geranda ef þolandi neitaði. Þá að háttsemi geti verið framin af maka eða fyrrverandi maka. Tæp 40% þeirra kvenna sem leituðu til Kvennaathvarfsins árið 2016 leituðu aðstoðar meðal annars vegna kynferðisofbeldis.

Með aukinni tækni hafa orðið til nýjar aðferðir við að brjóta gegn öðrum aðila, meðal annars í nánum samböndum, þ.e. stafrænt ofbeldi. Það skal tekið fram að hugtakið stafrænt ofbeldi, er enn að þróast og ekki er hægt að sjá fyrir öll þau brot sem aðili getur framið gegn öðrum aðila fyrir tilstilli tækninnar. Stafrænt ofbeldi í nánum samböndum er, ásamt dreifingu kynferðislegs myndefnis án samþykkis, hvers konar hótanir. Sem dæmi að gerandi hafi í hótunum við þolanda um ofbeldi í gegnum samfélagsmiðla, síma eða tölvupóst. Einnig að gerandi hóti birtingu kynferðislegs myndefnis opinberlega af þolanda án samþykkis eða hóti að senda nektarmyndir af þolanda til ættingja og/eða vina, skrái sig inn á samfélagsmiðla á nafni þolanda, stýri samskiptum þolanda á samskiptamiðlum, heimti lykilorð þolanda inn á samfélagsmiðla, hringi og/eða sendi ítrekað skilaboð til þolanda o.fl.

Engin ein lausn mun leiða að upprætingu kynbundins ofbeldis gegn konum í nánum samböndum, þó er hægt að reyna auka skilning á ofbeldissamböndum og því mynstri sem myndast oft á tíðum innan þeirra með aukinni fræðslu og umræðu. Einnig með þeim hætti er hægt að uppræta fordóma gagnvart þolendum og gerendum brotanna á skilvirkari hátt. Saman er hægt að leita lausna líkt og þrjú samstarfsverkefni hafa meðal annars sýnt fram á; Að halda glugganum opnum, Saman gegn Ofbeldi og Bjarkarhlíð.

Ingibjörg Ruth Gulin.

Heimildir

Ársskýrsla 2016 Samtaka um Kvennaathvarf. Samtök um Kvennaathvarf, Reykjavík 2016.

„Guðrún: Sterkasta vopnið sem gerandi í ofbeldissambandi hefur er sjálfsálit fórnalambsins“, https://www.bleikt.pressan.is, 13. febrúar 2016 (skoðað 28. febrúar 2018).

Ingólfur V. Gíslason: Ofbeldi í nánum samböndum. Orsakir, afleiðingar og úrræði. Reykjavík 2008.

Íslensk orðabók, M-Ö, bls. 1032 og Íslensk orðabók, A-L, bls. 471.

„Kynsegin / trans fólk utan kynjatvíhyggju“, https://otila.is, (skoðað 20. ágúst 2018).

Lenore E. Walker: the Battered Woman. New York 1979.

„Skilgreiningar á heimilisofbeldi“, https://www.kvennaathvarf.is (skoðað 20. febrúar 2018).

„Ofbeldi í samböndum“, http://www.doktor.is (skoðað 19. febrúar).

Vigdís Fríða Þorvaldsdóttir: „Dreifing kynferðislegra mynda án samþykkis er glæpur“, bls. 60.

Violence against women: an EU-wide survey. European Union Agency for Fundamental Rights, Lúxemborg 2014.

 

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.