Höfundur: Katrín Pálmadóttir Þorgerðardóttir
Ekófemínismi, vistfemínismi, eða vistfræðilegur femínismi er hugmyndafræðileg stefna um valdakerfi sem stuðlar í senn að kúgun náttúrunnar og undirskipun kvenna og þess sem menningarlega er skilgreint sem kvenlægt. Stefnan er margþætt og til eru margvíslegar hreyfingar með mismunandi áherslur og útfærslur. Sameiginleg er þó sú afstaða að mikilvæg söguleg og merkingarleg tengsl séu á milli kúgunar náttúrunnar og undirskipunar kvenna og hins kvenlæga. Þessi afstaða er jafnframt nauðsynlegur þáttur í hugmyndafræði femínisma og umhverfissiðfræði.
Femínistar hafa löngum bent á að sá heimur sem við lifum í sé karllægur vegna ýmissa kerfa sem tryggja margvísleg völd karla og hins karllæga yfir konum og því kvenlæga. Hvað telst vera femínískt málefni ræðst ávallt af samhenginu, en til einföldunar má segja að hvaðeina sem veldur eða viðheldur kúgun á grundvelli kyns eða kynferðis á einhverju sviði falli undir þann flokk. Margir ekófemínistar hafa beint athyglinni að áður óþekktum kynjavíddum í manngerðum breytingum á náttúrunni og greint þær kynjuðu hugmyndir sem við höfum um náttúruna og nýtingu á henni. Nú síðast hafa ekófemínistar m.a. sýnt fram á hvernig loftslags- og vistkerfabreytingar eiga rætur í karllægum hugsanagangi sem bitnar verst á fólki í fátækum löndum, einkum og sér í lagi konum.
Ófullnægjandi greining marxismans
Tilurð stefnunnar eru m.a. viðbrögð við marxískum femínisma víða í Evrópu um miðjan áttunda áratug síðustu aldar. Marxískir femínistar töldu eignarréttinn og stéttaskiptinguna í samfélaginu vera helstu orsakirnar fyrir kúgun kvenna. Sífellt fleiri konur töldu að þessi greining væri ófullnægjandi, að sósíalisminn eins og hann var í framkvæmd, byggðist á tæknihyggju og rányrkju á náttúrunni og tæki ekki mið af málstað kvenna. Femínistar leituðu nýrra leiða við að gagnrýna samfélagið óháð marxískri túlkun og áhugi á kvennasögu vaknaði. Meðal annars komu fram hugmyndir og kenningar um svokallað mæðraveldi sem á að hafa verið forveri feðraveldisins. Þessi þróun varð til þess að kúgun kvenna var frekar talin eiga rætur sínar í hugmyndum hins allsumlykjandi feðraveldis, sem í nútímanum sameinar í raun karlmennskuhugmyndir kommúnismans og kapítalismans. Eitt fyrsta ritið sem hægt er að kenna við ekófemínismann er bókin Femínismi eða dauði (Le Féminisme ou la Mort) eftir Françoise d’Eaubonne sem kom út árið 1974. Hún vildi vekja athygli á möguleikum kvenna til að koma á viðhorfsbreytingum á vistfræðilegum grunni og hvetja til umhverfisvænni nýtingar á náttúrunni.
Hið vanmetna samband kvenna við náttúruna
Vestræn samfélög hafa haft gríðarleg áhrif á náttúruna víðast hvar á jarðarkringlunni frá því að iðnbylting hófst fyrir aldamótin 1800. Hnattvæðing markaðarins, með efnahagslegan gróða og kapítalíska sérhæfingu að markmiði, hefur haft áhrif á framleiðslu- og lifnaðarhætti fólks um allan heim. Sem dæmi má nefna Indverja, og aðrar fyrrverandi nýlenduþjóðir, sem víðast hvar hafa verið sviptar þeirri hefðbundnu nýtingu á náttúrunni í sínu nánasta umhverfi sem tíðkaðist áður en vestrænir nýlenduherrar, og síðar stórfyrirtæki, byrjuðu að nýta sér ræktarsvæði fyrir vörur til útflutnings til Evrópu og Ameríku. Þá mætti nefna þær vistkerfisbreytingar sem átt hafa sér stað vegna einsleitrar ræktunar fárra tegunda sem eru vinsæl markaðsvara í vestrænum samfélögum á kostnað þeirrar fjölbreyttu flóru sem þar var áður.
Þessi þróun hefur meðal annars orðið til þess að innfæddar konur geta síður nýtt sér þá fjölbreyttu möguleika sem plönturnar buðu upp á t.a.m. sem mat, eldsneyti, dýrafóður, verkfæri, lit, lyf o.fl. Þar með hafa þær færri leiðir til þess að afla tekna fyrir heimilið. Ekófemínistar á borð við Vandönu Shiva halda því fram að konur hafi sérstöðu og þekkingu vegna náins sambands síns við náttúruna í daglegum athöfnum og verkum. Vinna þeirra skapi auð í sátt og samlyndi við náttúruna, með heildræna vistfræðilega sýn á ferli og afurðir sem nýta má í náttúrunni. Þessi þekking hafi verið hunsuð í þróun vestrænna kapítalískra valdakerfa. Mörg dæmi mætti taka fram þar sem konur eru meðal þeirra sem líða mest fyrir það arðrán á náttúrunni sem vestræn heimsvaldastefna stendur fyrir.
Tækniframfarir, þekkingariðnaður og valdbeiting.
Femínískir heimspekingar huga fyrst og fremst að því hugmyndafræðilega kerfi sem felst í hvers kyns valdbeitingu eða kúgun. Vestræn hugmyndasaga einkennist af stigskiptri tvíhyggjuhugsun sem flokkar heiminn á marga vegu, t.d. efni og anda, menningu og náttúru, skynsemi og tilfinningar og áfram mætti lengi telja. Stigskiptingin birtist í þeirri hugmynd að hugsun sé að einhverju leyti hreinni en líkaminn; sem birtist t.d. í þeirri lífseigu hugmynd að líkamann þurfi að aga og passa að lystisemdir holdsins taki ekki yfir rökhugsunina. Sama tvíhyggja gegnsýrir afstöðu mannsins til náttúrunnar þar sem yfirburðir mannsins og þekking er talin gera honum kleift að drottna yfir öðrum ómannlegum þáttum á jörðinni, þ.m.t. öðrum dýrum og jörðinni sjálfri. Femínistar hafa bent á að svipuð tvíhyggja einkenni viðhorf til kynjanna, en karlar og konur eru ævinlega talin vera andstæður, og annað kynið talið æðra hinu. Konum er oftar en körlum eignaðir eiginleikar sem tengja þær náttúrunni. Mikil áhersla er lögð á líkama kvenna í samfélagi okkar og menningu, hvort sem það tengist barnsburði, útliti, veikri líkamsbyggingu eða einfaldlega skorti á rökhugsun.
Femínískir heimspekingar greina ennfremur þau valdakerfi sem birtast í sköpun þekkingar. Þeir hafa bent á að þeir aðilar sem skapað hafa þekkingu frá upphafi mannkynssögunnar eru þeir sömu og njóta mestra forréttinda í samfélaginu. Þeir sem ákveða hvaða spurninga er spurt og hvað eigi að skilgreina sem þekkingu eru þeir sem hafa völd hverju sinni og því er þekking ávallt pólitísk. Í nútíma samfélagi blómstrar tækni- og framfarahyggjan og ekki sér enn fyrir endann á nýjungagirninni. Ekkert virðist ómögulegt ef viðkomandi hefur þekkingu og nægilegt fjármagn. En fyrir hverja eru tækninýjungar og hverjir eru það sem græða á þeim? Og á kostnað hverra? Í nútíma fræðasamfélögum er þekkingarframleiðslan markaðsstýrð og það eru ávallt efnahagslegir hagsmunir í húfi. „Hlutlaus vísindi“ eða „tækniframfarir fyrir mannkynið“ eru innihaldslausar klisjur eða útópískt bergmál frá fyrri kynslóðum, sem þó réttlæta ýmsar aðgerðir hagsmunahópa og yfirvalda enn í dag.
Niðurlag
Ekófemínistar og femínískir heimspekingar gagnrýna þau vísindi sem ekki gera grein fyrir hvernig sköpun auðmagns tengist náttúrunni og raunverulegum lífs- og vinnuskilyrðum fólks, sérstaklega kvenna, barna og annarra valdalausra. Í gagnrýni á nútíma vísindasamfélög og ímynd þeirra sem algild og ógildishlaðin þekkingarkerfi vilja ýmsir ekófemínistar varpa ljósi á gildi eins og samkennd, umhyggju og samvinnu sem annars konar uppsprettu þekkingar. Aðrir ekófemínistar leggja áherslu á tengslin milli líkamleika manna og náttúrunnar. Við erum þrátt fyrir allt líkamlegar verur, hluti af náttúrunni, og eigum ekki ekki aðra kosti en að hugsa vel um hana. Við erum hluti af stærra vistkerfi sem er okkur lífsnauðsynlegt og því skerðir eyðilegging náttúrunnar lífsskilyrði okkar, ekki síst komandi kynslóða.
Heimildir og frekara lesefni:
Warren, Karen J. 2000. Ecofeminist Philosophy. A Western Perspective on What It Is and Why It Matters. Lanham – Boulder – New York – Oxforr, Rowman & Littlefield Publishers, Inc.
Warren, Karen J. 1990. The Power and Promse of Ecolocigal Feminism. Environmental ethics, Volume 12, Issue 2, 1990.
Greinin birtist upphaflega í Illgresi. Höfundur er talskona UVG í umhverfismálum
Kærar þakkr fyrir þetta, það er mikilvægt að skrifa um tengsl náttúru og femínisma. Mig langar líka til að benda á tveggja ára gamla grein eftir mig hér á knúzinu um tengt efni, sem hluta af þessari samræðu: http://knuz.is/2012/11/16/vistfeminismi/